03.05.1938
Sameinað þing: 24. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í B-deild Alþingistíðinda. (122)

1. mál, fjárlög 1939

Jón Pálmason:

Það var svaki á hæstv. fjmrh. út af því, að við sjálfstæðismenn hefðum farið hér með blekkingar, eins og hann sagði. En ég verð nú að segja, að það sem hann færði fram því til sönnunar, var heldur veikt.

Hæstv. fjmrh. sagði viðvíkjandi skuldum ríkisstofnananna við útlönd, sem uxu árið 1937 um 2,9 millj. kr., að það væri algerlega rangt, að þær hefðu raskað skuldum þjóðarinnar í heild við útlönd. Ég veit nú ekki hvernig hæstv. fjmrh. getur . haldið því fram, að það raski ekkí neitt skuldasöfnun þjóðarinnar í heild við útlönd, þegar skuldirnar aukast um 2,9 millj. kr., og eru þar að auki meira eða minna í vanskilum. Hann sagði, að þetta væri í vörum fyrirliggjandi og peningum í bönkum. En ég vil biðja hæstv. ráðh. að sanna það, að vörur þessara stofnana hafi vaxið frá því árið næst á undan. Og að vísu er nokkuð af þessu peningar í bönkum, en ég leyfi mér að efast um, að þeir séu þar allir.

Þá var hæstv. fjmrh. mjög mikið að tala um launamálin, sem ég gerði að umtalsefni í gærkveldi. Það var helzt á honum að skilja, að ríkið, sem borgar 6–7 millj. kr. í laun ætti að miða allar sínar launagreiðslur við það, ef einhver einkafyrirtæki greiddu hóflaus laun. Þetta er hin mesta fjarstæða, því að vitanlega er ekki réttmætt, að Alþ. setji lög um laun einkafyrirtækja, og allar ásakanir hæstv. ráðh. til mín um ósamræmi, af því að ég tali ekki um laun einkafyrirtækja eru út í bláinn, af því að við höfum ekkert með slík laun að gera öðruvísi en sem skattstofn. Annars má nú minnast þess, sem hæstv. ráðh. gat um, að launin eru hæst í hönkunum, og yfirmaður þeirra er og hefir verið hæstv. ráðh. Það eru fjmrh. Framsóknar, sem hafa ráðið yfir þeim í 10 ár. Þess má og geta, að fæstir landsmenn vita, hvernig háttað er launum stjórnargæðinganna innan þings og utan og hvernig hrúgað er launum á einstaka menn með allskonar aukastörfum, þó að fjöldi annara hafi ekkert. Ég skal nú taka fáein dæmi og byrja innan þings. Þar er úr nógu að velja, en ég nefni bara einn mann úr hvorum stjfh Hv. þm. Skagf., Pálmi Hannesson, er rektor menntaskólans og hefir 5 þús. kr. laun fyrir það. Hv. þm. N.-Ísf. er landlæknir og hefir 6600 kr. Þetta eru nú hófleg laun, og ekkert við að athuga, ef þar með væri búið. En það er nú ekki alveg. Pálmi Hannesson hefir 3 þús. kr. húsaleigustyrk, 2 þús. kr. í risnu, 1500 kr. fyrir að vera í útvarpsráði, 500 kr. í menntamálaráði, 800 kr. í veiðimálanefnd, 800 kr. fyrir þjóðvinafélagsstjórn, og líklega 1500 kr. fyrir að vera á Alþ., og þá eru komnar 15100 kr. En til þess að auglýsa það, að þessi maður hafi nægar frístundir frá störfum sínum, hefir ríkisstj. nú skipað hann í tvær mþn., í launamálum og íþróttamálum. — Landlæknirinn hefir 3500 kr. fyrir eftirlit með lyfjabúðum og mun hafa neitað að láta það af hendi til lyfjafræðings, sem átti að taka við því. Hann hefir og 2500 kr. fyrir stjórn spítalanna, sem auðvitað ætti að vera hans skylduverk, og svo er hann á Alþ. og hefir því a. m. k. alls um 15 þús. kr. laun. — Svona gæti ég talið röð af gæðingum stj. innan þings og utan, en verst er, þegar þeir hafa há laun fyrir lítil eða nálega engin störf. Nýlega var einn gerður að dyraverði í atvinnudeildinni með 3600 kr. launum, en þegar hann var búinn að vera þar um tíma, kom ráðherrabréf um, að hann ætti líka að hafa 75 kr. á mánuði í húsaleigustyrk. Þessi maður hafði verið rekinn frá annari stofnun, og þarna hefir hann litið eða ekkert að gera annað en að leggja í miðstöðina. Annar starfaði í sömu stofnun og hafði 600 kr. á mánuði þar og 400 kr. annarsstaðar. Í nóv. var annar settur yfir þennan og laun hans lækkuð um 100 kr. og nú eru gefnar þær upplýsingar, að hann hafi eiginlega ekkert annað að gera en að passa þrjár stúlkur, en launin eru 500 kr. á mánuði. Og svona mætti lengi telja, en ég læt hér staðar numið að þessu sinni.

Hæstv. fjmrh. ætlaði að slá sig til riddara í gærkveldi á því, að kostnaðurinn við ríkisstj. hefði verið hærri prósentvis 1926 af ríkisgjöldunum heldur en 1936. Hann hefði átt að nefna tölurnar, því að þá væri myndin rétt, en þessi kostnaður er 1936 97769 kr. hærri en 1926. Svona eru rök hæstv. ráðh.

Þá sagði hæstv. fjmrh., að mínar till. mundu ekki fá mikinn byr, því að ég væri nokkuð einstæður í launamálum. Eitthvað er nú til í þessu, en það er engin sönnun fyrir því, að ég hafi ekki á réttu að standa, og það vil ég segja hæstv. ráðh., að öll fjvn. hefir samþ. till. frá mér um að afnema allar greiðslur fyrir eftirvinnu og aukavinnu, lengja og jafna nokkuð vinnutíma, og banna greiðslur fyrir skemmtiferðir og tækifærisgjafir alstaðar hjá ríkinu og stofnunum þess. Einnig að ákveða fastan taxta á dagpeningum í ferðalögum starfsmanna ríkisins í þess þarfir. — Mér þykir nú miklu meira ætlað til launa eftir fjárlfrv. eins og það kemur frá fjvn. heldur en ég tel þörf á, en þó vil ég segja hæstv. ráðh. það, sem hann ekki veit, að hjá 20 stofnunum og starfsgreinum er ætlað 280 þús. kr. minna til launa heldur en eytt var 1937. Verði hæstv. ráðh. áfram við starfið 1939 og fylgir þessu, þá er framförin óneitanlega nokkur.

Þá var hæstv. fjmrh. að endurtaka það, sem hann hefir svo oft sagt áður, að okkur sjálfstæðismönnum færist ekki að gaspra um eyðslu, því að við bærum einungis fram till. um útgjöld, en hefðum engin úrræði til þess að bæta úr því ástandi, sem nú er fyrir hendi. Þetta ættu stjórnarliðar aldrei að leyfa sér að nefna, því að ég staðhæfi og legg áherzlu á, að enginn flokkur í landinu mundi, svo lengi sem Sjálfstfl. hefir verið í minni hluta, sýna þvílíka ábyrgðartilfinningu og vægð gagnvart ríkisstj. sem hann hefir gert. Um Framsfl. munum við allt of vel hans feril, öll yfirboðin og öfgarnar 1926–27, þegar verið var að telja þjóðinni trú um það, að Jón Þorláksson væri að setja landið á hausinn og glata lánstrausti og sjálfstæði þjóðarinnar. Slíkir menn ættu að fara sér hægt í því að nefna ábyrgðarleysi á nafn. Um Alþýðufl. eru nýrri dæmi til, því að í fyrra bar hann fram á fáum dögum hér á Alþ. nýjar fjárkröfur, sem námu 8–10 millj. kr., af því að þeir slitu stjórnarsamvinnunni til málamynda um stund. Ef við sjálfstæðismenn kæmum einhverntíma þannig fram, mundi víst syngja í tálknunum á hæstv. ráðh., en þá hefir ekki klígjað við að ganga tvisvar síðan í tjóðurbandið hjá Alþfl.

Við hv. þm. N.-Ísf., sem brá mér um ósannindi í gær, snertandi rekstrarhalla síldarverksmiðjanna, hefi ég það eitt að segja, að ég hefi ekki reiknað þetta út sjálfur, heldur Jón Gunnarsson framkvstj., og tölurnar hafa verið birtar í stjórnarblöðunum sem rétt niðurstaða.

Þá skal ég minnast á eitt dæmi um fjármeðferð stjórnarfl. til flokksþarfa, en það eru auglýsingar ríkisstofnanna. 1937 hafa 6 stofnanir greitt fyrir auglýsingar 19700 kr. Af því hefir Nýja dagblaðið fengið 5338 kr., Alþýðublaðið 4080, en Morgunblaðið 828 kr., Vísir 700 kr. og Þjóðviljinn 333 kr. Hitt hefir farið til tímarita og annara blaða. Auk þessa fá sumar einkasölurnar falsvert fé erlendis frá til auglýsinga. T. d. hefir Tóbakseinkasalan úthlutað 4700 kr. þannig 1936: Til Nýja dagblaðsins 1600 kr., Alþýðublaðsins 2200 kr., Tímans 700 kr. og Skutuls 220 kr. Hve mikið þetta er hjá öðrum stofnunum, er ókunnugt, en þetta sýnir, að blöð stj. eru að talsverðu leyti gefin út fyrir auglýsingar ríkisfyrirtækjanna.

Eg hefi svo ekki meiri tíma nú að þessu sinni, en e. t. v. gefst mér tækifæri til þess að taka nokkuð nánar fram um fleiri atriði í þessu sambandi.