03.05.1938
Sameinað þing: 24. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í B-deild Alþingistíðinda. (123)

1. mál, fjárlög 1939

Einar Olgeirsson:

Það er margt skrítið um VJ, hv. þm. N.-Ísf. Eitt er það, að hann er montinn. En það eru nú fleiri. En í einu slær hann þá alla út, og það er í því, að hann bælir sjálfum sér alveg sérstaklega fyrir það, að hann sé laus við alla drýldni og fram úr hófi yfirlætislaus! Og ekki sparaði hann áðan að halda sér fram á þennan „yfirlætislausa“ hátt. Hann hælir sér svo sérstaklega af því, hver snillingur hann sé í því að búa til tillögur, — og svo barmar hann sér yfir því, að hann hafi of mikla tilfinningu fyrir því, að haft sé rétt við í leik. Þetta segir maðurinn, sem útbúið hefir þá skaðlegustu till., sem saga íslenzku verkalýðshreyfingarinnar getur um, — till., sem hindraði sameiningu verkalýðsflokkanna á síðasta alþýðusambandsþingi, — till., sem menu nú sjá, að haft hefir þann tilgang að gefa hægri mönnunum tíma til þess að reka HV, hv. 3. þm. Reykv., úr Alþfl. og sprengja flokkinn. Og svo er þessi maður svo brjóstheill að segja. að hann hafi alveg sérstaklega mikla tilfinningu fyrir því, að rétt sé haft við í leik! Ég er nú hræddur um, að dómurinn um þennan hv. þm. verði álíka eins og forðum um Hvamms-Sturlu: „Enginn frýr þér vits, en meir ertu grunaður um græzku“.

Þá fór hv. þm. N.-Ísf. álíka heiðarlega að, þegar hann var að tala um Alþjóðasamband kommúnista og þá, sem dæmdir voru í síðustu málaferlunum í Moskva. Hann sagði, að þeir hefðu átt sæti í stjórn Alþjóðasambandsins upp á síðkastið. En þetta er ekki rétt. Enginn þeirra hefir átt sæti þar síðan Kommúnistaflokkur Íslands var stofnaður. Hv. þm. telur þessa menn nú landráðamenn og njósnara, Alþýðublaðið telur þá alla saklausa og mestu heiðursmenn. Mér þykir vænt um, að hv. þm. skuli vera orðinn sannfærður um sekt þeirra af því að lesa málsskjölin frá Moskva. — Hv. þm. N.-Ísf. virtist telja, að fyrst Bucharin hefði svikið sitt föðurland, þá væri óhugsandi, að hann hefði getað skrifað góður bækur hér áður fyrr. En þetta er vitleysa. Bucharin gat vel skrifað góðar bækur hér áður, þótt hann sviki síðar. — alveg eins og þessi hv. þm. t. d. skrifaði einu sinni ágæta grein um mann, sem sveik verkalýðinn. Greinin hét „Með kossi“, — og samt virðist þessi hv. þm. alveg sérstaklega sækjast eftir félagsskap þeirra manna, sem svíkja með kossi.

Þá ætla ég að snúa mér að hv. þm. Ísaf., FJ. Hann var að tala um olíuokur. Ég ætla nú að spyrja hann, hvað lengi hann hafi verið í þjónustu BP? Hann og fleiri félagar hans eru nú farnir að tala um olíuokur. Já, þeir þora það nú upp á síðkastið! Öðru vísi mér áður brá! Eða hafa þeir gleymt benzínverkfallinu? Og svo eru þeir að reyna að bendla okkur kommúnista við olíuokur. Ég ætla að biðja þá að athuga Þjóðviljann og það, sem hann segir um síðustu herferð olíuhringanna. Hvers vegna fer ekki Alþýðublaðið og Nýja dagblaðið af stað, sem talað hafa svo djarft um olíuokur? Við skulum vona, að þið fetið í fótspor okkar á morgun, hetjurnar!

Hv. þm. Ísaf. varaði verkalýðinn við fláræði kommúnista að kjósa hann á Ísafirði til þings eða Harald Guðmundsson á Seyðisfirði eða styðja Emil í Hafnarfirði? Var hitt ekki frekar fláræði við verkalýðshreyfinguna að berjast eins og Ijón á móti kosningu okkar hér í Reykjavík? Og var það ekki fláræði að reka þann mann úr Alþýðufl., sem þorði að mæta staðreyndunum eins og maður og berjast fyrir einingu verkalýðsins. Það var meira en fláræði, það var fólskuverk. —

Og svo eru þessir herrar að tala um það, að Kommfl. sé ekki ábyrgur stjórnmálaflokkur, og hv. þm. N. Ísf. var sérstaklega að gefa það í skyn, að við værum skýjaglópar. En ég vil nú spyrja þá, hvort þeim finnist ekki Kommfl. á Spáni og Frakklandi vera ábyrgir stjórnmálaflokkar. Og finnst þeim ekki Kommfl. vera ábyrgur flokkur á Ísafirði, Siglufirði og Norðfirði, þar sem þeir mynda meiri hl. með Alþfl. og stjórna þessum bæjum með honum? Og ég vil spyrja: Hvað ætla þeir að þvaðra svona lengi, eins og þeir væru launaðir við Alþýðublaðið, í staðinn fyrir að haga sér eins og ábyrgur og raunhæfur stjórnmálaflokkur? — Svo læt ég útrætt um þá.

Hæstv. fjmrh., EystJ, kom inn á þetta spursmál um ábyrga stjórnmálaflokka. Ég ætla að leggja ofurlítið nánar út af ræðu hans í því efni heldur en hann gerði sjálfur. Hæstv. ráðh. nefndi stjórnarandstæðinga sem eitt í þessu sambandi. Ég vil algerlega mótmæla því, að Kommfl. sé nefndur í sömu andránni og íhaldið, og skal ég benda á nokkur atriði í því sambandi.

Íhaldið bar hér í fyrra fram till., sem þýddu minnkaðar tekjur og aukin útgjöld ríkisins upp á 4–5 millj. kr. Það sýndi ekki lit á að bera fram eina einustu till. um tekjuöflun. Allt var þetta gert í lýðskrumstilgangi, til þess að geta sagt við fólkið: Sjá, allt þetta viljum vér gefa yður! — En ekki nóg með það. A sama tíma, sem Íhaldið reynir þannig að veiða allan almenning til fylgis við sig með till. um takmarkalausan austur úr ríkissjóðnum, sendir það JPálm, hv. þm. A.-Húnv., út af örkinni til þess að prédika sparnað. Þannig er lýðskrumið til beggja handa, og þannig rekur sig hvað á annars horn hjá Íhaldinu. Og svo fer hv. form. Framsfl., hv. þm. S.-Þ., út af örkinni til þess að telja þennan argasta og mótsagnakenndasta lýðskrumsflokk landsins sem ábyrgan stjórnmálaflokk og berst um á hæl og hnakka til þess að komast í stjórnarsamvinnu við hann.

En hvað gerum við kommúnistar á sama tíma? Við berum fram útgjaldatill., sem nema um 1 millj. kr., og jafnframt tekjuöflunartill., sem nema álíka upphæð. Við högum okkur sem sagt sem ábyrgur stjórnmálaflokkur, en Íhaldið sem lýðskrumsflokkur.

Þá kem ég að því, sem hæstv. fjmrh. sagði um gjaldeyrislánið. Hann var að tala um það, að íhaldið notaði það sem árásarefni á ríkisstj. Við kommúnistar tókum gagnvart spursmálinu um gjaldeyrismálin pólitíska og raunhæfa afstöðu og bentum á, að nauðsynlegt væri, að reynt yrði að forðast þá einangrun, sem við erum komnir í um okkar skuldir, þar sem meiri hluti þeirra er nú við England. Við bentum á, að ef til vill væri bezt að fá þetta lán í Svíþjóð. Og við bentum ennfremur á, hversu óheppilegt væri að láta Landsbankann stjórna þessu láni eða hafa með það að gera á nokkurn hátt, vegna þeirrar reynslu, sem af hans fjármálastjórn er fengin. Íslenzkur verkalýður er óhræddur við að taka á sig ábyrgð á slíkum málum í sameiningu við ríkisstjórnina, og Kommfl. er reiðubúinn til þess. En hann vill ekki taka ábyrgð á pólitík, sem þýðir undanhald og uppgjöf fyrir öflum fjármálaspillingarinnar í landinu. Hann vili ekki taka ábyrgð á pólitík, sem óhjákvæmilega þýðir versnandi kjör fyrir alþýðu landsins. Pólitíkin, sem Kommfl. og allur íslenzkur verkalýður vill vera með í að reka, er sókn fram til betri kjara, bjartara og fegurra lífs fyrir vinnandi stéttir þessa lands, og það þýðir sókn gegn öflum, sem í krafti peningavalds og klíkuskapar halda fyrir fólkinu þeim lífsskilyrðum, sem það þarf að ná, til þess að öðlast betri afkomu og njóta ávaxtanna af vinnu sinni.

Hæstv. forsrh. hélt hér hjartnæma prédikun í gær. Hann sagði, að þeir, sem misnotuðu gæðin, sem þeim væru fengin, myndu glata þeim, og þannig væri einnig með frelsið. Við skulum nú heimfæra þessi orð upp á staðreyndirnar í landi voru. Landið okkar er fátækt, en það á mikla möguleika. Og það hefir klifið þrítugan hamarinn til að reyna að nota sér þá. Það hefir m. a. tekið stórlán erlendis, og fólkið hefir sparað fé saman, sem numið hefir 60 millj. Allt þetta hefir verið sett í banka þjóðarinnar og síðan lánað út af bankastjórnunum til nokkurra stóratvinnurekenda. Þessir stóratvinnurekendur hafa ekki aðeins haft frelsi, þeir hafa líka fengið umráðin yfir helztu gæðunum, sem þjóðin gat boðið, og þeim hefir verið trúað fyrir hagnýtingu á því bezta, sem þjóðin á, vinnuafli þúsundanna. Og hvernig hafa þeir nú notað gæðin? Um 40 millj. kr. af fé þjóðarinnar hafa þeir glatað. Togaraflotann hafa þeir látið ganga úr sér án þess að endurnýja hann. En því færri sem togararnir urðu, því fleiri og stærri urðu „villur“ togaraeigendanna, sem hv. þm. S.-Þ., JJ, skrifaði einu sinni svo mikið um. Hann er nú hættur því núna! Og þegar svo kreppti að, fóru þá þessir fínu menn eftir kenningu forsrh. um, að þeir, sem betur væru stæðir, ættu að byrja á fórnfýsinni? Nei. Þegar óstjórn þeirra keyrði svo úr hófi, að þeir gátu ekki einu sinni notað vinnuafl þúsunda verkamanna, þá heimtuðu þessir stóratvinnurekendur stórlækkun á kaupi þeirra allra fátækustu, en sátu sjálfir með 20–30 þús. kr. árslaun og datt ekki í hug að lækka þau. Þegar svo verkamenn sýndu mótþróa, hvað ætlaði þá aðalforsprakki þessara stórskuldugu atvinnurekenda að gera eftir upplýsingum hæstv. forsrh. sjálfs? Hann ætlaði að fangelsa alla helztu trúnaðarmenn verklýðshreyfingarinnar, setja þá í sundhöllina og geyma þá þar.

Og nú vil ég spyrja hæstv. forsrh.: Ef þessi bankaráðsklíka, sem drottnað hefir yfir gæðum þjóðarinnar, hefir ekki misnotað þau, hver hefir þá gert það? Hún hefir haft meira en frelsi. Hún hefir haft forréttindi. Og hún hefir misnotað þau svo herfilega, að hún á að glata þeim. Og vegna yfirgangs þessarar klíku, vegna forréttinda hennar og einokunar á mestu gæðum landsins, hefir þjóðin sjálf, hinar vinnandi stéttir Íslands, ekki einu sinni fengið að njóta frelsis síns. Barátta þjóðarinnar fyrir fullu frelsi sínu er því barátta á móti forréttindum þessara fáu stórlaxa. Og svo spyr ég hæstv. forsrh.: Ætlar hann eftir þau fögru orð, sem hann mælti um misnotkun gæðanna, að standa með forréttindum hinna fáu auðmanna eða með frelsisbaráttu þjóðarinnar fyrir afnámi á yfirráðum braskaranna?

Góða nótt? .