04.05.1938
Neðri deild: 61. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í B-deild Alþingistíðinda. (1237)

64. mál, fiskveiðasjóður Íslands

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti! Af því að hv. frsm. er ekki viðstaddur, vil ég leyfa mér að gera grein fyrir afstöðu n. Annars er n. alveg sammála, svo að ég vænti þess, að málið geti gengið fram þess vegna. Eins og hv. þdm. er kunnugt, er ætlazt til þess í frv., að ríkissjóður byrji að borga það, sem honum ber samkv. lögum, og 1. gr. frv. gerir ráð fyrir því á þann hátt, að ríkissjóður taki að sér afborganir af erlendu láni, sem nemur nú 3/4 úr millj. Hæstv. fjmrh. hefir komið á fund n. og tjáð henni nokkur vandkvæði á því, að ríkið taki að sér skuld erlendis. En hann bauðst til að sjá um, að sett yrði á fjárlög, sem innan skamms verða samþ., fyrsta greiðsla ríkisins til sjóðsins. Þó treysti hann sér ekki til að fara hærra en í 60 þús. kr. á þeim fjárlögum. N. sá engan kost annan en að ganga að þessu, og varð það að sætt í málinu.

Þetta varð til þess, að færa verður neðar hámark lánsupphæða úr sjóðnum, og ekki er hægt að lækka vextina eins og til var ætlazt, þar sem 60 þús. eru aðeins helmingur þess, sem vonazt var eftir.

Þess vegna verður n. að leggja til, að hámark lána verði 10 þús. í stað 48 þús., og að í stað þess að lækka vexti úr 6% í 5% skuli þeir verða 51/2%. En jafnframt verður eins og í frv., sleppt þeim aukagjöldum, sem runnið hafa í varasjóð 1%) og tryggingarsjóð (1/4%). Það má fullyrða, að þetta er til mikils léttis fyrir viðskiptamenn sjóðsins, og eykur að mun lánveitingar hans. Ég vil eindregið mæla með því, að frv. verði samþ. með þessum breytingum.