03.05.1938
Sameinað þing: 24. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í B-deild Alþingistíðinda. (124)

1. mál, fjárlög 1939

Brynjólfur Bjarnason:

Góðir hlustendur! Þetta er síðasta ræðan, sem við kommúnistar eigum kost á að flytja hér í útvarpið í kvöld. Og þar sem tíminn er naumur, ætla ég að reyna að draga það saman í mjög stutt mál, sem sérstaklega hefir einkennt þessar umr.

Það, sem alveg sérstaklega vakti athygli við umr. í gærkvöldi, var, hvað allir borgaraflokkarnir, Sjálfstfl., Bændafl. og Framsfl. og þingfl. Alþfl. — hvað allir þessir flokkar voru hjartanlega sammála um það, hversu viðurstyggilegt það væri af alþýðunni að vera að gera kröfur, að vera að gera jafn ósvífnar kröfur og þær, að reynt verði að bæta eitthvað úr atvinnuleysinu, að reynt verði að hamla á móti vaxandi dýrtíð og tekjurýrnun vegna aukins atvinnuleysis með ofurlítið bættum kaupkjörum, að reynt verði að lækka vöruverð o. s. frv. — Hv. þm. Snæf., TT, falaði um hina óseðjandi græðgi neytenda í landinu, sem væru að stofna kaupfélög, og heimtuðu gjaldeyri til innflutnings á nauðsynjavörum í hlutfalli við meðlimafjölda. Það er nú ekki langt síðan gróði heildsala og kaupmanna nam hvorki meira né minna en fimm millj. króna samkvæmt opinberum skýrslum. Það var áður en KRON var stofnað. Hv. þm. Snæf., TT, finnst það alveg fram úr skarandi ósvífni af neytendum, að þeir skuli vera svo gráðugir, að seilast eftir einhverjum hluta af þessum gróða, með því að lækka vöruverðið og heimta gjaldeyri fyrir þau félög, sem að því standa. — Hæstv. forsrh., HermJ, var ekki síður hneykslaður yfir því, að fólk skyldi vera að gera kröfur, — á sama tíma sem tólf hundruð heimilisfeður í Reykjavík ganga að jafnaði atvinnulausir, — á sama tíma sem tekjur verkamanna hafa rýrnað um 2½ millj. kr. á tveimur árum, — og á sama tíma sem heildartekjur Reykvíkinga eru samt sem áður svo miklar, að 7000 kr. koma á hverja 5 manna fjölskyldu, ef þeim væri jafnað niður, og Íslendingar eiga eignir, sem nema lá þús. kr. á hvert heimili, ef þeim væri jafnað niður. Þessi kenning hæstv. forsrh. var svo flutt á enn blygðunarlausari hátt af hv. þm. S.-Þ., JJ.

Hv. 7. landsk. þm., EmJ, kallaði það „yfirboð“, þegar kommúnistar fóru fram á það, að atvinnubótaféð yrði aukið ofurlítið, og nokkru meira fé yrði varið til verklegra framkvæmda. Sömuleiðis kallaði hann það „yfirboð“, þegar við lögðum til, að til vitamála yrði veitt það, sem l. raunverulega ætlast til, eða allt vitagjaldið. M. ö. o.: Þingflokkur Alþfl. telur enga nauðsyn bera til þess að vera að auka atvinnuna. Hvað segið þið um þetta, þið sem lesið hafið 4 ára áætlunina, sem gaf fyrirheit um það að útrýma atvinnuleysinu gersamlega? Eða hvað segið þið um þetta, sem lesið hafið Alþýðublaðið, sem stöðugt er að skamma kommúnista fyrir það, að þeir beiti ekki samtakamætti verkalýðsins nógu öfluglega til þess að knýja fram aukna atvinnu? En því verður ekki neitað, að þessi afstaða þingflokksins er í samræmi við stefnu hægri mannanna 1. maí. Þá lýstu þeir því yfir, að þeir létu allar kröfur niður falla, því að þingmenn Alþfl. hefðu gert sitt bezta. Hvaða ástæða var til þess að vera að gera kröfur um aukna atvinnu og þess háttar. Allt slíkt eru nú kölluð „yfirboð“. því að þingmennirnir höfðu gert sitt bezta. Þeir eru fimm hægri alþýðuflokksmennirnir í Nd. Einn er vitamálastjóri, annar er fræðslumálastjóri, þriðji er forstjóri tryggingarstofnunarinnar, fjórði er síldarmálastjóri og fimmti er landlæknir. Það var trúðleikarinn, sem þið heyrðuð í áðan. — Allt saman prýðilega launaðar stöður. Alþýða! Hvað viltu meira? Hvað viltu vera að gera meiri kröfur?

Þessir menn eru stöðugt að tala um fórnir, sem verkalýðurinn þurfi að færa. Þeir eru að reyna að koma því inn hjá verkalýðnum, að honum beri siðferðileg skylda til þess að umbera atvinnuleysið, aukna tolla og skatta, vaxandi dýrtíð og minnkandi tekjur. Það sé siðferðileg skylda verkalýðsins að taka öllu slíku með langlundargeði og færa þessar fórnir.

Vissulega hefir verkalýðurinn siðferðislegar skyldur og vissulega þarf hann að færa fórnir til samtaka sinna, til þess að binda enda á þetta siðlausa ástand.

Þið hafið heyrt þessar stöðugu prédikanir, bæði sjálfstæðismanna og framsóknarmanna, um að atvinna verði meiri, ef kaupið er lækkað. Þessar prédikanir eru nú raunar ætlaðar fyrir ístöðulaust fólk, sem ekki getur hugsað sjálfstætt. Ef menn gefa sér tóm til þess að hugsa ofurlítið út í þetta, þá er nú í fyrsta lagi augljóst, að markaður fyrir íslenzkar vörur erlendis rýmkast ekki, þótt kaupið lækki. Ísl. útflutningsvörur hafa yfirleitt verið seldar undanfarin ár á erlendum markaði fyrir það verð, sem kaupendurnir hafa viljað gefa fyrir þær, hvorki meira né minna. Það væri frámunalega heimskulegt frá öllu sjónarmiði fyrir lítið og fátækt land eins og Ísland, að fara að gera undirboð á erlendum markaði. Upp úr því væri ekkert að hafa annað en minnkandi tekjur fyrir landið í bráð og lengd og minnkandi gjaldeyri. Um áhrif kauplækkunar í þeim greinum, sem framleiða fyrir íslenzkan markað, er það að segja, að því lægra sem kaupgjaldið er, því meira þrengist markaðurinn, því að kaupgetan minnkar. Hinsvegar aukast við það vonir framleiðenda í þeim greinum um meiri gróðamöguleika, og slíkt lendir jafnan í offramleiðslu, sem hefir í för með sér enn meira hrun og atvinnuleysi. Það er hinsvegar alveg víst, að ef verkalýðnum væri tryggð stöðugri atvinna og þar með auknar árstekjur, þá væri hann reiðubúinn til að lækka tímakaupið. Ef Dagsbrúnarmönnum væri t. d. tryggð atvinna allt árið, þá væru þeir vafalaust reiðubúnir til að lækka tímakaupið niður í kr. 1,20, ef þeim þar með væri tryggð ársvinna, eða 3600 kr. árslaun, sem þeir mundu fá með þessu tímakaupi. Hversvegna gera atvinnurekendur, sem stöðugt eru að tala um, að þeir vilji tryggja mönnum stöðuga vinnu, ef þeir stilli kaupkröfum sínum í hóf, þá verkamönnum ekki slik tilboð? Því mundi áreiðanlega verða vel tekið. — En það er líka annað, sem er sérstaklega athyglisvert í þessu sambandi. Þessir herrar tala aldrei um, að það þurfi að spara á öðrum liðum. Þeir tala aldrei um, að það þurfi að létta af framleiðslunni þeim bagga, sem fólginn er í sníkjulífi yfirstéttarinnar á atvinnuvegunum. Af þessu hljóta menn að sjá, hver hugur fylgi máli, þegar þessir herrar þykjast tala í nafni alþjóðar. Hvert barnið hlýtur að skilja, að þeir tala í nafni þeirrar stéttar, sem lifir sníkjulífi á framleiðslu landsmanna.

Að endingu vil ég kveðja hlustendur með þeirri ósk, að allir vinnandi menn og konur til sjávar og sveita megi bera gæfu til að skipa sér þéttar saman í baráttunni fyrir sínum eigin hagsmunum og réttindum, sem er baráttan fyrir hagsmunum og réttindum alþjóðar.

Góða nótt!