12.03.1938
Efri deild: 20. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 783 í B-deild Alþingistíðinda. (1247)

57. mál, eftirlit með skipum

Brynjólfur Bjarnason:

Ég skal ekki lengja umr. mikið á þessu stigi málsins. Ég geri ráð fyrir, að á seinna stigi málsins muni flokksmenn mínir flytja einhverjar brtt. við þetta frv., en ég ætla aðeins að nota tækifærið vegna þess, að hæstv. atvmrh. er viðstaddur, til þess að gera fyrirspurn til hans í sambandi við þetta mál. Ég man ekki betur en að á síðasta þingi hafi frv. hv. 3. landsk. verið afgr. með rökstuddri dagskrá, sem var á þá leið, að samtímis því sem málinu var vísað til ríkisstj., var henni falið að leggja fyrir næsta þing frv. um eftirlit með skipum og kveðja til þess starfs með sér fulltrúa frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, skipaskoðunarstjóra og einn fulltrúa frá sjómannafélögunum í hverjum fjórðungi landsins. Eftir því sem mér skilst á grg. þessa frv., hefir þetta ekki verið gert, þ. e. a. s., það hafa ekki verið kvaddir fulltrúar frá sjómannafélögunum í fjórðungunum. Ég ætla að nota tækifærið til þess að spyrja hæstv. atvmrh. hvernig á þessu stendur.