05.05.1938
Sameinað þing: 24. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í B-deild Alþingistíðinda. (126)

1. mál, fjárlög 1939

Atvmrh. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti! Góðir hlustendur!

Hv. þm. A.-Húnv., JPálm, hefir talað hér í þessum eldhúsumr. bæði í gær og í dag. Hann kvartar um skuldir, of há laun og óþarfa eyðslu hjá ríkinu og stofnunum þess. Og hann heimtar völdin í hendur Sjálfstfl. til að bæta úr þessu öllu. Hann las upp margar tölur eins og hann er vanur við slík tækifæri. Sérstaklega átelur hann stjórnina fyrir of háar launagreiðslur, og telur mikið ósamræmi í tekjum manna, sem vinna hjá því opinbera, og hinna, sem stunda framleiðslustörf. Ég get verið hv. þm. A.-Húnv. sammála um það, að enn meira þurfi að gera að því að jafna kjör manna í landinu, en ég er honum fullkomlega ósammála um, að þetta verði gert með því, og að hagur ríkisins verði bættur með því að fela Sjálfstfl. að fara með stjórn í landinu. Hæstv. fjmrh. hefir þegar gert samanburð, sem sýnir, að í fyrirtækjum, sem sjálfstæðismenn stjórna, eru launagreiðslur yfirleitt miklu hærri en hjá ríkinu. Það getur því enginn búizt við, að Sjálfstfl. myndi lækka launin, þótt honum væri falin stjórn landsins. En enginn veit til þess, að hv. þm. A.-Húnv. hafi nokkuru sinni fundið að því við flokksbræður sína, að þeir greiða miklu hærri laun heldur en þau laun, sem þessi hv. þm., JPálm, telur óhæfilega há hjá ríkinu. Á það má einnig minna, að á undanförnum þingum hafa hv. þm. Sjálfstfl. flutt hverja till. á fætur annari um tekjuhækkanir og útgjaldahækkanir, sem, ef þær hefðu verið samþ., hefðu valdið því, að stórkostlegur tekjuhalli hefði orðið hjá ríkinu. Aldrei hefir sá mikli vandlætari, hv. þm. A.-Húnv., risið úr sæti hér á Alþ. til að mótmæla þeim mörgu gáleysistill., sem flokkur hans hefir borið fram og hefðu aukið ríkisskuldirnar stórkostlega, ef þær hefðu verið samþ. — Geta má þess, að Sjálfstfl. hefir ávallt verið mjög andstæður ríkisverzlunum, sem þó hafa gefið ríkinu mjög miklar tekjur að undanförnu. Á árunum 1932 –1937 hefir ríkissjóður. grætt á tóbakseinkasölunni samtals fast að 31/2 millj. kr. og mikið fé á öðrum einkasölum. Ekkert af þessu Té hefði ríkissjóður fengið, ef Sjálfstfl. hefði ráðið, og áreiðanlega hefði hv. þm. A.-Húnv. verið öðrum þm. í þeim flokki hjartanlega sammála um, að þessar milljónir hefðu heldur átt að renna til einstakra kaupsýslumanna. Það mundi sjálfsagt verða fyrsta verk Sjálfstfl., ef hann kæmist í meiri hl. á Alþ., að leggja niður þessar verzlanir. Og hv. þm. A.-Húnv. mundi greiða atkv. með því. Ég tel sennilegt, að eitthvað mætti spara hjá einstökum ríkisstofnunum, en hitt er víst, að ekki mundi verða mikið bjargráð fyrir ríkisbúskapinn að láta Sjálfstfl. fá ríkisstj. í hendur til þess að leggja þessi fyrirtæki niður.

Hv. þm. Snæf. og hv. þm. A.-Húnv. tala um skuldir við útlönd, þó að framtal þeirra sé mjög langt frá því rétta, eins og hæstv. fjmrh. hefir bent á. En hvað hafa sjálfstæðismenn gert til að vinna á móti skuldum við útlönd? Helztu afskipti þeirra af þessum málum er þeirra sífellda nöldur um, að of lítill innflutningur sé leyfður.

Þá er öllum kunnugt um hina miklu mótstöðu Sjálfstfl. gegn hækkun tekjuskattsins, sem komið hefir verið á á undanförnum árum og fyrst og fremst snertir hátekjumennina og verkar því sem launalækkun hjá þessum mönnum, hvort sem þeir eru í vinnu hjá ríkinu eða öðrum. Og ekki er kunnugt enn, að hv. þm. A.- Húnv. hafi haft nokkra sérstöðu í þessum málum. Hann belgdi sig út hér áðan yfir tekjum einstakra manna í stjórnarflokkunum, en þessi sami þm. hefir rétt upp höndina við atkvgr. á móti því, að tekjuskatturinn verði hækkaður. Þannig er allur hans ferill. Einn daginn ætlar hann að rifna að endilöngu yfir háum launum hjá einstökum mönnum í stjflokkunum, en næsta dag greiðir hann atkv. með öðrum hv. þm. Sjálfstfl. á móti því, að tekjuskatturinn sé hækkaður. Hvernig á að skilja þetta? Hví er hann að hlífa þessum mönnum við hátekjuskatti? Er það af umhyggju fyrir Pálma Hannessyni eða Vilmundi Jónssyni, sem hv. þm. A.-Húnv. og flokkur hans berst á móti hækkuðum beinum sköttum? Ætli það séu ekki einhverjir aðrir, sem standa nær hv. þm. A.-Húnv. og Sjálfstfl., sem hafa fyrst og fremst hagsmuna að gæta og skipa honum því að vera á móti skattinum? En hvernig er hægt að taka þá stjórnmálamenn alvarlega, sem viðhafa slíka tvöfeldni?

Þegar þetta allt er athugað, að sjálfstæðismenn greiða hærri laun í stofnunum, sem þeir ráða yfir, heldur en greidd eru hjá ríkinu, að þeir bera ár eftir ár fram brtt. við fjárl., sem orsakað hefðu stórkostlegan halla hjá ríkissjóði, ef samþ. hefðu verið, að sjálfstæðismenn hafa sífellt heimtað aukinn vöruinnflutning til landsins og að þeir hafa barizt á móti hátekjuskattinum, þá verður ekki annað sagt en að hv. þm. A.-Húnv. sé heilsugóður, betur en í meðallagi, fyrst honum verður ekkert flökurt af því að vera sendur af Sjálfstfl. að útvarpinu til að færa þingheimi og þjóðinni allri þann boðskap, að til þess að lækka launin, til þess að bæta fjárhag ríkisins, til þess að bæta greiðslujöfnuðinn við útlönd og til þess að jafna kjör fólksins í landinu, þurfi að afhenda Sjálfstfl. stjórn landsins. Það er spaugsamur maður, hv. þm. A.-Húnv.