25.03.1938
Neðri deild: 34. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 802 í B-deild Alþingistíðinda. (1272)

57. mál, eftirlit með skipum

Ísleifur Högnason:

Áður en málið fer til n., þá vildi ég gera nokkrar aths. við það. Í fyrsta lagi er það 7. gr., þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta: „Skipaskoðunarmenn mega ekki skoða þau skip, sem þeir eru eigendur eða útgerðarmenn að“.

Ég álít, að þarna sé of skammt gengið. Það eiga yfirleitt ekki að vera útgerðarmenn eða eigendur skipa, sem hafa þessa skoðun með höndum, því að það er hætt við, að þeir geti komið sér saman um að framkvæma ekki nauðsynlega viðgerð á skipi, vegna þess að það sýndi sig, að það væri hagstæðara fyrir útgerðarmanninn eða eiganda skipsins að setja sig gegn því, að 1. væri hlýtt. Það mætti auðvitað segja, að svo margir væri skipseigendur hér á landi. þar sem þúsundir manna eiga hlutabréf í Eimskipafélagi Íslands, en það má þá hafa ákvæði um það, að þeir séu undanþegnir svona ákvæði um skipaskoðun.

Í öðru lagi er það í 7. gr., þar sem gert er ráð fyrir því, að skoðunarmaður geti veitt frest á viðgerð skips, vegna þess að ekki sé fáanlegt á staðnum það, sem þarf til þess að bæta úr göllum skipsins. Þar er gert ráð fyrir því að skipaskoðunarstjóri geti framlengt frestinn eftir eigin geðþótta. Mér finnst, að skipaskoðunarstjóra sé gefið þarna of mikið vald, og í l. eigi að vera takmörk fyrir því, hvað framlengja megi frest til að gera við skip.

Þá er í 8. gr. ákvæði um það, að þeir sem kæra yfir því, að ábótavant sé um öryggi skips, geti kært það fyrir skoðunarmönnum, en þeir séu bundnir þagnarheiti um nöfn þeirra manna, sem kært hafa, ef kærandi óskar þess. Ég geri ráð fyrir, að undir öllum kringumstæðum muni þeir sjómenn, sem kæra út af því, að ábótavant sé um öryggi skips, óska eftir því, að um það sé þagað af viðkomandi skoðunarmönnum.

Ég mun því leggja til við 2. umr., að þetta sé fellt niður og ekki sé látið standa: „ef kærandi óskar þess“. Það mun líka vera hæpið að setja þetta í 1., þar sem kæran getur komið munnlega undir fjögur augu, svo að kærandi hefir enga votta að því, að hann hafi beðið skoðunarmanninn að láta ekki nafns síns getið. Það er því í hendi skoðunarmanns, hvort hann þegir eða ekki. Ég álít því að skipaeftirlitsmennirnir eigi skilyrðislaust að vera bundnir þagnarheili. Í síðasta lagi er það 9. gr., sem er um það, að í vissum tilfellum, þar sem örðugleikar eru á því, að eftirlitsmenn geti haft fullnægjandi eftirlit sökum fjarlægðar frá þeim stað, þar sem eftirlitsins er mest þörf, þá megi fela skipaskoðunarmanni á staðnum eftirlitið. Þetta álit ég, að sé ekki rétt, þar sem eftirlitsstarfið og skipaskoðunarstarfið geta ekki samrýmst, þar sem eftirlitsmaðurinn á að hafa eftirlit með starfi skipaskoðunarmannsins. Þar sem þetta á að heyra undir sama manninn, þá hlýtur þetta að rýra gildi eftirlitsins.

Það er aðallega þetta, sem ég óska eftir, að n. taki til athugunar, áður en hún skilar málinu frá sér aftur til d. Ég geri ráð fyrir, að ég muni flytja brtt. við frv. í þá átt, sem ég hefi lagt hér til.