03.05.1938
Neðri deild: 60. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í B-deild Alþingistíðinda. (1277)

57. mál, eftirlit með skipum

*Ísleifur Högnason:

Við 2. umr. þessa máls bar ég fram þá ósk, að n. tæki til athugunar nokkrar brtt. við frv. Eina af till. hefir n. tekið til greina, að auka sektarákvæði; ég held, að áður hafi það verið 500 kr. (Einhver: Það var 5 þús. kr. fyrst). Ég man, að í frv. er það 500 kr.

Þá minntist ég á annað, sem n. tók ekki til greina. Í fyrsta lagi, að í 7. gr. stendur, að skipaskoðunarmenn megi ekki skoða þau skip, sem þeir eru eigendur eða útgerðarmenn að. Ég álít það ófært, ef skipaeigendur og útgerðarmenn geti yfirleitt verið skipaskoðunarmenn, því að þeir gætu haft tilhneigingar til, þótt þeir ættu ekki skipin sjálfir, að sjá í gegnum fingur með eftirlitið, ef þeir eru tengdir stéttarböndum við þá, sem þarna eiga hlut að máli. Þess vegna álít ég nauðsynlegt að setja þetta ákvæði í lögin, að útgerðarmenn og eigendur skipa geti ekki verið eftirlitsmenn skipa. Aftur á móti er það vitað, að fjöldi landsmanna eru eigendur í hlutabréfum Eimskips, og væri ekki réttlátt, að það hindraði þá í þessu starfi.

Ennfremur er breyt. við 7. gr., að skipaskoðunarstjóri hefir ekki ótakmarkað leyfi til að framlengja frest á þeim aðgerðum, sem krafizt er. Ég álít það alveg nægilegan frest, sem getið er um í frv., þótt skipaskoðunarstjóra sé ekki heimilt að framlengja hann eftir eigin geðþótta. Ég álít, að honum sé gefið allt of mikið vald í lögunum og geti rýrt gildi þeirra að miklum mun. Þess vegna legg ég til, að orðin „með leyfi skipaskoðunarstjóra“ falli burt úr niðurlagi þessarar málsgr. — Ennfremur við 8. gr., að málsgr. „ef kærandi óskar þess“ falli burt. Með leyfi hæstv. forseta, hljóðar önnur efnismálsgr. 8. gr. þannig: „Til þeirra geta skipverjar eða aðrir snúið sér með umkvartanir á því, er þeir telja ábótavant með öryggi skips. Allar umkvartanir skulu gerðar skriflega. Skipaeftirlitsmenn eru bundnir þagnarheiti um nöfn þeirra manna, er kært hafa, ef kærandi óskar þess. enda sé kæran á rökum byggð“. Nú eru það vitanlega sjómennirnir, sem eiga mest undir því, að skipin séu vel úr garði gerð og munu þess vegna helzt kæra. Þeir eiga nokkuð á hættu vegna þess, að eigendur skipanna eða útgerðarmenn kosta þá viðgerð á skipunum, ef þarf. Þá hljóta þeir að óska þess, að þeirra nafns sé ekki getið. Í þeim tilfellum, sem sjómenn koma einir til skipaskoðunarmanns og kæra undan einhverju, þá getur skipaskoðunarmaður alltaf sagt frá því síðar, og borið því við, að sjómaðurinn hafi ekki beðið sig að þegja yfir því. Þess vegna er sjálfsagt, ef þessi varnagli er, að skipaskoðunarmenn séu yfirleitt bundnir þagnarheiti, hvort sem menn óska þess eða ekki, ef kærur eru á rökum byggðar.

Ennfremur gerði ég till. um, að 9. gr. falli burt, vegna þess að ég álít, að með henni verði eftirlitsákvæðið gert þýðingarlítið. Ef ekki er hægt að fá þennan eftirlitsmann á staðnum sakir í jarlægðar, þykir það e. t. v. kosta of mikið að senda eftirlitsmann á fjarlægan stað; en ef það er meiningin, þá álít ég ekki rétt að horfa í þann kostnað, sem kynni af ferð eftirlitsmanns að leiða. Þess vegna legg ég ennfremur til, að þessi gr. falli burt. Ég mun bera brtt. fram í samræmi við þetta við 3. umr. Ég álít, að þessar till. stefni allar til bóta. Það mun sýna sig síðar, verði þetta frv. ekki skemmt, að þessi lög verða til að skerpa eftirlit skipa, sem sízt mun vanþörf á.