03.05.1938
Sameinað þing: 24. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í B-deild Alþingistíðinda. (128)

1. mál, fjárlög 1939

Þorsteinn Briem:

Hæstv. fjmrh. flýði eins og vant er frá röksemdunum og yfir í sömu skammirnar og öll hin fyrri ár í orðastað sínum við fulltrúa Bændafl. Það sýnir veikleikann í vörn hans. Hæstv. ráðh. hrakti það ekkí með einu orði, að verzlunarjöfnuðurinn hefði verið hagstæður um 6½ millj. hjá fyrirrennara hans. En hvernig sem hann reynir að fegra sinn fífil, kemst hann ekki með sinn hagstæða verzlunarjöfnuð hærra en í 5? millj., eða 1200 þús. kr. lægra en í tíð fyrirrennara hans.

Hæstv. fjmrh. var að reyna að gera sér mat úr rekstrarhallanum og verzlunarjöfnuðinum 1934. Ég hélt satt að segja, að honum mundi ekki þykja varlegt að bíta svona nærri greninu. Því að eins og allir vita, tók ráðh. við völdum í júlímán. 1934 og ber því sjálfur ábyrgð á h. u. b. hálfu árinu. Allra sízt ætti hæstv. fjmrh. að tala um umframgreiðslurnar 1934, því að nú er í ljós komið, að ýms gjöld, sem raunverulega heyrðu til árinn 1935 voru af núv. stj. rétt á reikningi 1934 og það miklu lengur fram eftir ári 1935 en dæmi munu áður til þekkjast. Hvers vegna? Auðvitað til þess að stj. gæti fegrað sinn fífil með því að koma sínum eigin útgjöldum yfir á reikning fyrirrennara síns. Með slíkri reikningsfærslu getur hæstv. ráðh. komið umframgreiðslunum 1934 nógu hátt. Og það þarf brjóstheilindi til — á eftir slíkri framkomu — að brigsla öðrum um það, sem hann sjálfur hefir til stofnað.

Ef menn vilja sjá, hvernig raunverulega er ástatt um umframgreiðslurnar, þá hafa fjárlögin og ríkisreikningurinn síðasta orðið í því efni.

Þegar fjárl. og ríkisreikningurinn fyrir 1933 eru borin saman, sést, að útkoman á rekstrarreikningi var um 100 þús. kr. betri en fjárl. gerðu ráð fyrir. Hvenær hefir sú endanlega útkoma á ríkisreikningnum orðið betri hjá núv. stj. en gert var ráð fyrir í fjárl.? Aldrei. 1935 var útkoman 200 þús. kr. lakari. 1936 var útkoman 670 þús. kr. lakari, þrátt fyrir brennivínsgróðann, og 1937 var útkoman 170 þús. kr. lakari samkv. bráðabirgðaskýrslu hæstv. ráðh., en hún á áreiðanlega eftir fyrri reynslu að dæma fyrir sér að breytast svo við endanlegt uppgjör, að útkoman verður a. m. k. eigi minna en 1/4 millj. kr. lakari en fjárl. fyrir 1937 gerðu ráð fyrir.

Þetta sýnir, að þrátt fyrir allan áfengisgróðann og þrátt fyrir síauknar álögur til ríkisþarfa, þá hefir núv. stj. á hverju einasta ári staðið verr við áætlun þingsins og þannig haldið verr á því, sem henni var í hendur búið á Alþ., en fyrrv. stj.

Tími minn er á enda. Ég kveð góða hlustendur með óskum árs og friðar. Góða nótt.