03.05.1938
Sameinað þing: 24. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í B-deild Alþingistíðinda. (130)

1. mál, fjárlög 1939

Jón Pálmason:

Það kom í ljós hjá hæstv. atvmrh., að ádeila mín á há laun snerti viðkvæma strengi í brjósti hans, enda hefir hann í því efni stungið út alla aðra þm. Um spádóma hans um það, hvernig fara mundi, ef við sjálfstæðismenn réðum, vil ég segja það eitt, að hann talar þar um hluti, sem hann veit ekkert um. Hann hafði það eftir mér, að okkur kæmu ekkert við há laun hjá einkafyrirtækjum. Það er ekki rétt, en hitt er rétt, að Alþ. hefir ekkert um það að segja. En að því er snertir mótstöðu mína gegn hækkun á sköttum, hefir það lítið komið til greina á þessu þingi. Jónas Guðmundsson lýsti því hinsvegar yfir í fyrra, að það væri ekki hægt að hækka skattana.

Ég vil segja það, að ég mundi bera sæmilegt traust til hæstv. atvmrh., ef hann hefði tekið við stöðu sinni sem frjáls maður, en hann fer í stj. með hengingaról frá sósíalistum um hálsinn, sem hv. þm. N.- Ísf. heldur í.

Til hæstv. fjmrh. vil ég segja það, að hann talar ekki um aðra andstæðinga en Bændafl. og Sjálfstfl., og það sannar, að kommúnistar standa stj. ekki fjarri. Hæstv. ráðh. fannst það sýna þróttleysi, að tal okkar andstæðinganna væri aðallega um fjármálin, en þau eru vissulega dagsins mál, og ég vænti, að þjóðin skilji það, að það eru þau mál, sem mikilsverðust eru fyrir okkur á þessum vandræðatímum.

Ég óska hv. hlustendum gleði og farsældar á hinu nýja sumri. Góða nótt.