08.04.1938
Neðri deild: 44. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í B-deild Alþingistíðinda. (1318)

95. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Finnur Jónsson:

Afstaða Alþfl. til þessa máls er ákveðin með samþykkt, sem borin var fram á þingi Alþýðusambandsins 9. nóv. 1936 af þáverandi varaforseta þess, Héðni Valdimarssyni. Með leyfi hæstv. forseta, vil ég lesa upp samþykkt þingsins, er það gerði þá, því að hún markar afstöðu flokksins í þessu máli. En hún hljóðar svo:

„13. þing Alþýðusambands Íslands ályktar að vera mótfallið hverskonar nýrri vinnulöggjöf, nema því aðeins að með henni fáist full lagaviðurkenning fyrir rétti Alþýðusambands Íslands og sambandsfélaga þess til verkfalla, auðveld og skjót málssókn vegna samningsrofa af hálfu atvinnurekenda og að öðru leyti verulega aukin réttindi fyrir alþýðusamtökin, frá því sem nú er. Telur þingið heppilegast, að Álþingi láti mþn., þar sem Alþýðusambandið hafi fulltrúa, athuga málið, og leitað verði að nýju álits Alþýðusambandsins, áður en málið yrði útkljáð, enda yrði engin löggjöf sett um þetta mál, áður en aðalatriði hennar yrðu lögð fyrir sambandsfélögin og hefðu náð samþykki Alþýðusambandsins. Þingið er sérstaklega andvígt lögákveðnum gerðardómum um kaupgjald og önnur vinnukjör, sem settir kynnu að verða án samþykkis alþýðusamtakanna, en telur hinsvegar lögákveðna gerðardóma um samningsrof vera heppilegri en hina venjulegu dómstóla, enda yrði þóknun gerðardómsins greidd af því opinbera.“

Nú hefir þessum málum af Alþfl. verið hagað í samræmi við þessa samþykkt. I. kafli þessa frv., sem saminn er af mþn., inniheldur ýms réttindi, eins og vikið er að í fyrrnefndri samþykkt, t. d. fulla lagaviðurkenningu fyrir Alþýðusambandið og félög þess. En hv. 3. þm. Reykv. og hv. þm. Snæf. eru sammála um, að þessi kafli sé þýðingarlítill fyrir félögin, því að hann vill ekki láta samþ. hann. Hann vill ekki láta veita félögunum þessi nýju réttindi. (GÞ: En stjórnarskráin?) Það er nú svo með hana, að ýmsir atvinnurekendur hafa hundsað rétt verkalýðsfélaganna þrátt fyrir stjórnarskrána. Í þessum kafla er gert ráð fyrir verklýðsfélögunum sem lögmætum samningsaðilja um kaup og kjör. Viðurkenning á þessum rétti hefir t. d. kostað verklýðsfélagið Baldur á Ísafirði 6 ára baráttu, og er það ekki eina félagið, sem þá sögu hefir að segja. Þessi barátta félaganna hefir oft endað svo, að þau hafa orðið að láta í minni pokann eða hætta störfum í bili, af því að þau hafa ekki verið nógu sterk. Í mörgum kaupstöðum hér á landi hafa verklýðsféiögin verið stofnuð tvisvar og þrisvar, áður en þau hafa verið viðurkennd sem réttur samningsaðili. Þegar því hv. þm. Snæf. telur þennan kafla þýðingarlausan fyrir verklýðsfélögin, meinar hann, að það sé þýðingarlaust fyrir atvinnurekendur að veita þeim þennan rétt. En ég skil ekki afstöðu hv. 3. þm. Reykv., sem hingað til hefir talið sig andstæðing atvinnnrekenda og hefir viljað veita félögunum þennan rétt, þó að hann lýsi honum nú sem þýðingarlitlum fyrir félögin.

Það má segja, að nú sé búið að stofna verklýðsfélög víðast hvar um landið. En nú eru að rísa upp ný atvinnufyrirtæki hér og hvar, það eru að koma upp ný þorp og nýjar iðngreinar, sem gera nauðsynlega stofnun nýrra félaga. Og slík félög hefðu ekki, samkvæmt núgildandi l., rétt sem samningsaðiljar og yrðu því að berjast fyrir honum. Og ef tillit er tekið til þess, hvað slík barátta hefir kostað önnur félög, þá kemur það úr hörðustu átt, þegar maður, sem talið hefir sig til Alþfl. í mörg ár, segist líta á þetta sem þýðingarlítið atriði.

Það er auðvitað langt frá því, að þessi löggjöf sé að öllu leyti eins og Alþfl. hefði kosið. En þó er ekki hægt að neita því með rökum, að hún er talsvert frjálslyndari í garð verkalýðsfélaganna en samskonar löggjöf á Norðurlöndum. Ég vil beina því til hv. 3. þm. Reykv. að afsanna þessi orð mín, ef hann getur, og nefna dæmi, er sýni, að þessi vinnulöggjöf gangi skemmra en samskonar löggjöf á Norðurlöndum, sem okkar flokksbræður þar telja viðunandi.

Þá er í frv. gert ráð fyrir, að réttur til verkfalla sé viðurkenndur, og auk þess er gert ráð fyrir auðveldari og skjótari málssókn vegna samningsrofa af hálfu atvinnurekenda, enda lýsti hv þm. engum aths. við þennan kafla.

Þá er gert ráð fyrir, að leitað verði álits Alþýðusambandsins að nýju og löggjöf þessi lögð fyrir öll félögin. Hvorttveggja hefir verið gert. Afstaða félaganna innan sambandsins er þannig, að af 44, sem látið hafa uppi álit sitt, eru 29 frv. fylgjandi. Nokkur þeirra samþ. það óbeytt, en önnur gera uppástungur um fremur lítilvægar breytingar. Hinsvegar eru 15 félög, sem hafa að nokkru leyti tekið afstöðu gegn frv. Sum þeirra hafa gert það að skilyrði fyrir fylgi sínu við frv., að á því verði gerðar nokkuð stórvægilegar breytingar og endurbætur. Það má að vísu segja, að þessi félög séu misjafnlega mannmörg, svo að vilji þeirra komi ekki fyllilega í ljós af þessum upplýsingum. En ég veit þó ekki til, að í nokkru félaginu hafi farið fram allsherjaratkvgr. um málið, heldur kemur álit Alþýðusambandsins fram í fundasamþykktum, sem hin einstöku félög hafa gert. Því er ekki hægt að neita, að þau félög, þar sem mikill hluti félagsmanna hefir greitt atkv., eru frv. yfirleitt fylgjandi, en um afstöðu einstakra félagsmanna má deila. En meðan ekki fer fram allsherjaratkvgr., er ekkert hægt að staðhæfa um það, hvort meiri hl. meðlima félaganna er málinu fylgjandi eða ekki. Þó vil ég geta þess, að meðlimatala þeirra félaga, er vilja samþ. frv. að mestu leyti óbreytt, og hinna, sem vilja stórvægilegar breytingar eða eru algerlega á móti frv., er nokkurnveginn jöfn. En þar sem flest félögin hafa látið það álit í ljós, að rétt sé að samþ. frv., og þá að mestu leyti með óverulegum breytingum, þá er það í samræmi við vilja meiri hl. félaganna, að Alþfl. mun greiða atkv. með málinu hér á þingi.

Þetta frv. felur ekki í sér nein ákvæði um gerðardóm, nema út af samningsrofum, en það er í samræmi við samþykkt alþýðusambandsþingsins, sem borin var fram af hv. 3. þm. Reykv. og ég las upp áðan.

Hv. þm. hélt því fram, að í kaflanum um verkföll og verkbönn feldust miklar hindranir fyrir félögin, og að þar væru tekin af stj. félaganna réttindi, sem þær hefðu nú. Ef það er á annað borð rétt að ganga út frá því, að alþýðusamtökin í landinu séu ekki á móti því, að settar séu reglur um þessi mál, þá ber að athuga, að hve miklu leyti þessar aðfinnslur hv. þm. eru á rökum byggðar. Í þessum kafla er gert ráð fyrir, að félög verkamanna og atvinnurekenda hafi heimild til vinnustöðvana eftir leynilega atkvgr., sem staðið hafi í 24 klst. Í öðru lagi, að félagstj., sem hefir með almennri atkvgr. fengið leyfi til að taka ákvörðun um vinnustöðvun, geti ákveðið verkfall, og að 3/4 hlutar trúnaðarmannaráðs geti ákveðið verkfall. Nú eru engin ákvæði í frv. um það, til hve langs tíma verklýðsfélag geti fengið stj. sinni heimild til að ákveða verkfall. Félagið gæti t. d. gefið stj. ársheimild til þess. Þá eru heldur engin ákvæði um það, hve margir menn skuli vera í trúnaðarmannaráði, er geti ákveðið verkfall. Þess vegna eru ekki á þessu þær hömlur, sem hindrað geti að verulegu leyti starfsemi félaganna. Ég get ímyndað mér, að þetta sé eitt þeirra atriða, sem hv. þm. Snæf. taldi verulega galla á frv. En hitt skil ég ekki, að hv. 3. þm. Reykv. telji þessi ákvæði galla. Ég hefi ekki enn gert ráð fyrir, að hv. 3. þm. Reykv. og hv. þm. Snæf. væru sammála um, hvernig leysa ætti kaupdeilur.

Að vísu er í frv. gert ráð fyrir, að verkföll um kaup og kjör megi ekki fara út í nema með 7 daga fyrirvara. Ef til vill telur hv. 3. þm. Reykv. þetta hindrun á starfsemi félaganna. En ég get ekki séð, að þetta sé óhæfilegur frestur. Skyndiverkföll út af öðrum málum en kaupi og kjörum eru aftur á móti ekki bönnuð, t. d. út af því, ef atvinnarekandi stendur ekki við gerða samninga. Þessi frestur er meiri á Norðurlöndum, t. d. í Danmörku 21 dagur, ef sáttasemjari vill það við hafa. Í Noregi getur fresturinn orðið allt að 16 dagar, og í Svíþjóð er hann 7 dagar. Frestur sá, sem hér er ákveðinn, er því sá stytsti, sem þekkist á Norðurlöndum. Í frv. sjálfstæðismanna gat aftur sáttasemjari framlengt frestinn upp í 27 eða 30 daga, — ég man ekki hvort heldur. Ég get ímyndað mér, að þetta sé eitt þeirra atriða, sem hv. þm. Snæf. telur mikinn galla á frv. En ég skil ekki, að hv. 3. þm. Reykv. vilji telja þetta megingalla, nema þá að skoðanir þessara hv. þm. fari ná meira saman en áður var.

Ég held, að ég þurfi ekki, að svo stöddu, að taka fleira fram í þessu máli. Ég ítreka það og bendi á það enn á ný, að Alþýðusambandið hefir ekkert á móti því, að settar séu reglur um það, hvernig haga skuli baráttunni í kaupgjaldsmálum, reglur sem gildi fyrir báða aðilja bæði verklýðsfélögin og atvinnurekendur. Ég fyrir mitt leyti verð að lýsa því yfir, að ég álít, að það frv., sem liggur hér fyrir, sé nákvæmlega í þeim anda og eftir þeim bókstaf, sem 13. þing Alþýðusambandsins lagði fyrir þingmenn sína að fara eftir.

Eins og ég tók fram áðan, þá hefði Alþfl. kosið að gera nokkrar breyt. á frv., en hann gerir það þó ekki að veralega kappsmáli að svo komnu, vegna þess að ekki er hægt að benda á það, að þetta frv. að neinu leyti skemmt fyrir verkalýðnum, en það gengur í mörgum atriðum lengra heldur en sú löggjöf, sem flokksbræður okkar jafnaðarmanna á Norðurlöndum ern fyllilega ánægðir með.