08.04.1938
Neðri deild: 44. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 844 í B-deild Alþingistíðinda. (1321)

95. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég tek til máls til þess að skýra frá því, að ég ætla ekki að ræða málið við þessa umr. neitt verulega, vegna þess að útvarpsumr. fara fram um málið við 3. umr., og þá býst ég við að taka til máls. Sé ég því ekki ástæðu til að ræða málið á þessu stigi. Ég fagna því, að óskað hefir verið eftir útvarpsumr. um þetta mál.

En það er auðsætt, að það, sem skiptir mönnum í tvo flokka um þetta mál, með því og í andstöðu gegn því, það eru í raun og veru tvö alveg ólík sjónarmið. Og það er alveg bersýni legt, að þeir, sem beita sér gegn þessu frv., halda því fram, að vinnudeilur verkalýðsfélaganna eigi að vera einskonar smáskæruhernaður í þessu þjóðfélagi, alveg utan við lög og rétt. Og svo eigi sá sterkari að sigra. Þeir búast við því eða vonast eftir því, að þeir muni verða hinir sterkari, og þá er hægt að beita valdi. Þetta er a. m. k. afstaða kommúnistanna. En hvað halda hv. þm., að lengi sé hægt að beita valdi og ýmsum öðrum aðferðum utan við lög og rétt þjóðfélagsins, án þess að það dragi fyrr eða siðar til þess, að hinn aðilinn taki upp sömu vinnuaðferðina, og hvar eru þessi mál þá komin?

Þá hefir verið talað um það, að þessi eða annar réttur sé viðurkenndur með frv., en að þar sé gengið skemmra heldur en búið sé að viðurkenna með hefð. Ég ætla nú ekki að fara langt út í þetta atriði, en aðeins benda á það, að mikið af þeim vinnuaðferðum, sem hafa verið liðnar, eru gagnstæðar lögum. Og þó að séð sé í gegnum fingur sér með hinar og þessar aðferðir í þjóðfélaginu, sem eru gagnstæðar lögum, þá er ekki þar með unnin hefð fyrir þeim. —

Þá hefir mikið verið talað um það, að pólitísk verkföll væru samkvæmt frv. bönnuð, og það finnst kommúnistunum nokkuð harðneskjulegt. En það vill svo einkennilega til, að því eina verulega pólitíska verkfalli, sem hér hefir verið háð, benzínverkfallinu, var enginn jafnandstæður og einmitt hv. 3. þm. Reykv. (HV: Ég skipti mér ekkert af því). Ég man nú vel eftir því öllu saman, þó að ég ætli ekki að fara neitt nánar út í það.

Að öðru leyti ætla ég að láta þetta mál biða, þangað til rætt verður um það fyrir fleiri áheyrendum. Og ég endurtek það, að ég tel það mjög heppilegt,að þetta mál skuli verða rætt frammi fyrir alþjóð, því að hér er um það að ræða, hvort halda eigi verkföllunum sem smáorustum utan við lög og rétt þessa þjóðfélags, og sem ekki leiða að neinum niðurstöðum. Það er það, sem fyrst og fremst er deilt um í þessu máli.