26.04.1938
Neðri deild: 54. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í B-deild Alþingistíðinda. (1330)

95. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Frsm. (Bergur Jónsson):

Allir hv. flm. brtt. hafa nú talað, svo að ég ætla nú að fara nokkrum orðum um afstöðu meiri hl. allshn. til brtt.

Hv. á. þm. Reykv. var nú í sambandi við eina brtt. að tala um, hvað formaður Framsfl. skrifaði mikið. Ég held, að fullt eins mikil ástæða væri til að tala um, hvað þessi hv. þm. talar mikið alltaf og alstaðar, bæði hér á Alþ. og utan þess.

Þessi hv. þm. viðurkenndi, að brtt. þær, sem hann og flokksbræður hans hafa borið fram hér í hv. d. við frv. þetta, séu ekki bornar fram sem eiginlegar brtt. til samþykktar, heldur bara til þess að gefa mönnum kost á að tala um þær, held ég; ég veit ekki, hvaða meining var í orðum hans. Það má segja um þær allar, að þær koma að flestu leyti í bága við tilgang þessa frv. og eru settar fram eingöngu til skemmdar á því, og bornar fram af hreinn skilningsleysi á því, hvað hér er um að ræða.

1. brtt. er viðvíkjandi stéttarsamböndum. Um hana vil ég segja það, að stéttarsamböndin geta vitanlega sett sér sjálf þær reglur, sem þeim sýnist. Með I. kafla þessara I. eru bæði stéttarfélög og stéttarfélagasambönd viðurkennd. Þau fá þar lagavernd, sem þau ekki hafa haft áður. Þessi till. er því alveg út í loftið.

Þá flytja þeir brtt. við 4. gr., sem fjallar um að það sé óheimilt að reyna að hafa áhrif á stjórnmálaskoðanir verkamanna. Ég held, að það sé fullkomlega eins vel tryggt í gr. eins og í brtt., að svo miklu leyti sem hægt er að tryggja slíkt.

3. brtt., um breyt. á 5. gr., kemur í raun og veru í bága við tilgang frv., þar sem ætlazt er til, að annar deiluaðilinn geti algerlega ákveðið kjörin. Það er yfirleitt byggt á því í þessari löggjöf, að reyna að fá friðsamlega lausn, en ekki að annar aðilinn setji kosti. Þetta á ekki síður við hv. 3. þm. Reykv., sem ber fram líka brtt. Þegar hann talaði áðan, skildist mér á honum, að honum fyndist sjálfsagt, að menn segðu fyrir um, hvaða laun þeir hefðu. Ég held, að það séu fæstir, sem ráða því, hvaða tekjur þeir hafa.

4. brtt. er um að fella niður 8. gr. Auðvitað er það óhjákvæmilegt að hafa einhver ákvæði um ábyrgð á samningsrofum, úr því að l. eru sett um það á annað borð.

5. brtt. skiptir náttúrlega ekki mjög miklu máli, en ég tel þó, að það sé óþarfi að samþ. hana. Það er ljóst, að þegar stéttarfélögin fá að tilnefna tvo menn sem trúnaðarmenn, þá geta þau alltaf fengið tvo hæfa menn til þeirra starfa, og þess vegna sé sama, hvor þeirra er valinn. — Þá er það 6. brtt., við 9. gr. Það, sem í gr. stendur, er í samræmi við norræna löggjöf, og sýnist ekki ástæða til að breyta því.

Þá kem ég að 7. brtt. Ég get ekki séð annað en að það sé eingöngu um hégómaákvæði að ræða í þeim breyt., sem þar er farið fram á á l. Hið sama má segja um 8. brtt.

Það kom fram hjá hv. 1. flm. brtt., hv. 5. þm. Reykv., að hann hefði verið með einhverjar spurningar við 1. umr. málsins viðvíkjandi 14. gr. Ég heyrði ekki þær spurningar, og hann endurtók þær ekki hér, enda skil ég ekki annað en að hann ætti að vera maður til þess að skilja gr. eins og hún liggur fyrir.

9.–11. brtt. um að fella niður 15.–17. gr., ná auðvitað engri átt, ef halda á fast við þetta frv., því að þær eru reglur um frest, þegar um vinnustöðvun er að ræða, svo og um það, á hvern hátt stéttarfélög og félög atvinnurekenda geti hafið vinnustöðvun.

Ég bjóst við, að hv. þm. teldu 18. gr. vera til bóta, en vitanlega er þar ekki ástæða til þess að setja ákvæði um annað en að það sé óheimilt að reyna að afstýra verkfalli með aðstoð einstakra meðlima félaga, sem að verkfallinu standa. Hitt er alger efnisbreyt., sem alls ekki á við hérna.

Þá er það 13. brtt., þar sem farið er fram á, að fulltrúum verklýðsfélaga sé heimilt, ef þeir óska þess, að birta á prenti till. sáttasemjara. áður en þær hafi verið ræddar á fundi félagsins. Ég sé ekkí hvaða ávinningur er í því að birta till. sáttasemjara áður en aðiljar hafi greitt atkv. um þær. Það, sem skiptir máli, er það, að aðiljarnir hvor um sig viti, hvaða till. það eru, sem um er að ræða, og geti áttað sig á þeim, áður en þeir greiða atkv. um þær, og svo er hægt að birta þær á eftir. — Þetta er í dálitlu ósamræmi við það, að sömu hv. þm. vilja fella niður 34. gr. frv., þar sem ríkissáttasemjara er gefin heimild til að birta skýrslu um málið, þegar um mikilvæga deilu hafi verið að ræða. Í því sambandi sagði hv. þm., að form. Framsfl. myndi e. t. v. verða fenginn til að búa til þá skýrslu. Ég skal ekkert um það segja, hvort ríkissáttasemjari færi að snúa sér til hans frekar en annara. Það er vitanlega meiningin, að almenningur geti átt kost á að fá sem réttasta og bezta skýrslu um málið, og ég efast ekkert um, að form. Framsfl. myndi vera fullkomlega fær um að hjálpa ríkissáttasemjara um það. Hinsvegar býst ég ekki við, að hann muni taka að sér það starf, að vera sáttasemjari, en ég er sannfærður um, að hann muni vera eins fær til þess eins og hv. 5. þm. Reykv., þó að honum henti bezt að tala.

Þá er það 14. brtt., um að atkvgr. um miðlunartill. skuli teljast felld, ef helmingur af greiddum atkv. eða meira sé á móti henni, en samþ. ef meira en helmingur sé með henni. Þetta halda flm. fram, að sé eitthvert spor í lýðræðisáttina, en þeir virðast ekki gera sér nægilega grein fyrir því, að það er ekki í samræmi við lýðræðið, að kannske örlítill hluti af stéttarfélagi geti ráðið því, að skella á verkfalli. Þar að auki athuga þeir það ekki heldur, að þetta gildir líka um vinnuveitendur, og þá ættu t. d. fáeinir vinnuveitendur af stórum hópi að geta skellt á verkbanni; það verður að taka tillit til þess, að þarna er líka verið að setja reglur fyrir því, að ekki sé hægt að skella á verkbanni, án þess að settar reglur séu fyrir hendi.

Þá er að lokum 16. brtt., um það, að fella niður félagsdóminn. Það nær vitanlega ekki nokkurri átt. Ef frv. yrði samþ., en þessi kafli felldur niður, þá yrði afleiðingin sú, að almennir dómstólar landsins yrðu látnir dæma í þessum málum, og ég skil ekki, að flm. brtt. yrðu neitt ánægðari með það, að ég og aðrir „þrjótar“ þessa lands yrðum látnir dæma þau mál. Að öðru leyti finnst mér óþarfi að fara út í brtt. þessara hv. þm.

Þá eru það brtt. hv. 3. þm. Reykv. Hann vill láta menn, sem standa utan stéttarfélaga, vera bundna við samþykktir þeirra. Það er náttúrlega ómögulegt að fyrirskipa það í l., en hinsvegar býst ég við, að flestir muni sjá sér hag í því, að vera í verklýðsfélagi.

2. brtt. er um það, að atvinnurekendum og trúnaðarmönnum þeirra sé skylt að greiða ávísanir frá meðlimum stéttarfélags á ógreidd vinnulaun þeirra, þegar þau séu kræf, fyrir lögmætum gjöldum til félagsins. Þetta er nokkuð, sem gildir samkv. almennum reglum kröfuréttarins, og því er fullkominn óþarfi að vera að setja það inn í 1.

3. brtt. hans er í raun og veru svo að segja sú sama og ein af brtt. kommúnista, svo að ég hirði ekki um að ræða hana sérstaklega. Sama má segja um 4. brtt.

Þá er það brtt. við 8. gr., að stéttarfélög skuli ekki ábyrgjast samningsrof með þeim eignum og styrktarsjóðum, sem þau kunna að hafa í höndum. Vitanlega geta atvinnurekendur í ýmsum tilfellum verið líknarstofnanir, sem hefðu styrktarsjóði líka, og er til þess kæmi, að þeir yrðu að greiða skaðabætur, yrði að greiða þær af þessum sjóðum, svo að í slíkum tilfellum yrði bara um jafnrétti að ræða. Annars vil ég gjarnan athuga þessa till. til 3. umr.

Þá er það 6. brtt., við 9. gr., viðvíkjandi trúnaðarmönnunum. Mér finnst það satt að segja vera ósköp þarflaust að deila um það, hvort þessi trúnaðarmaður á að vera skipaður einsamall eða hvort tveir séu tilnefndir, og atvinnurekandinn velji annan, ef maðurinn er á annað borð til þess fær. Mér finnst eðlilegast, að stéttarfélagið ráði, hver maðurinn er, og ef það tilnefnir tvo menn, getur það séð um, að báðir séu færir menn, og þó að atvinnurekandanum sé veitt vald til að velja annan úr, getur hann ekki valið mann, sem sé sérstaklega háður honum. — viðvíkjandi b-liðnum er það að segja, að það er í samræmi við erlenda löggjöf, sem farið hefir verið eftir í þessu efni.

Þá er breyt. á 11. gr. í 8. brtt. Samkv. gr. er atvinnurekendum og umboðsmönnum þeirra óheimilt að segja trúnaðarmönnum upp vinnu vegna starfa þeirra sem trúnaðarmanna. Ég held, að ákvæði gr. séu fullnægjandi og að þessar orðalengingar, sem eru í brtt., hafi enga þýðingu.

Þá kemur í raun og veru sami hugsunarhátturinn fram hjá þessum hv. þm. og hv. 5. þm. Reykv. í 9. brtt., viðvíkjandi breyt. á atkvgr. Það er víst þessi lýðræðishugsjón, sem þar vakir fyrir honum eins og kommúnistunum. Ég verð að segja, að mér finnst það einkennileg lýðræðishugsjón, að t. d. 50 menn í 2000 manna félagi ættu að geta samþ. verkfall og neytt alla hina til að vera með. Hv. þm. hristir höfuðið, en þetta er bein afleiðing af kenningu hans; auðvitað fer hann þarna fram á, að minnst 20% af atkvæðisbærum mönnum félagsins hafi mætt á fundinum og meir hl. hafi greitt vinnustöðvuninni atkv., og að því leyti gengur dæmi mitt of langt, en hugsunin er þó sú sama. Mér finnst ekki ástæða til þess, að fáir menn geti rekið marga út í vinnudeilu. Þá held ég, að það sé engin ástæða til að draga úr því, þegar trúnaðarmannaráð hefir samþ. að gera vinnustöðvun, að það þurfi „kvalificeraðan“ meiri hluta.

Víðvíkjandi brtt. við 16. gr., þar sem hann skýtur inn orðunum „Þegar samningar eða kauptaxti rennur út,“ vil ég segja það, að ég sé ekki, að þetta sé nein endurbót á gr., heldur aðeins til að gera gr. lengri. (HV: það er eins og að hv. frsm. hafi ekki lesið l.) Ég hefi áreiðanlega lesið þau eins vel og hv. 3. þm. Reykv. En þessi brtt. breytir efni 16. gr. á engan hátt.

Þá er það 12. brtt., þar sem hann vill setja orðið „manna“ í stað orðanna: „meðlima þeirra félaga eða sambandi, sem að vinnustöðvuninni standa.“ Þessu get ég svarað því sama og ég svaraði samsvarandi tilI. frá kommúnistunum.

Þá er það 13. brtt. Hv. þm. viðurkenndi sjálfur, að þarna væri yfirleitt um lítilsverðar orðabreyt. að ræða. Hann vill í e-lið till., að miðlunartill. megi birta, nema allir samþ. að halda henni leyndri. Ég sé ekki neina ástæðu til að fara að birta hana fyrr en aðiljar hafi tekið afstöðu til hennar.

14. brtt. er meinlaus og gagnslaus, og sé ég enga ástæðu til að mæla á móti henni, þó að hún megi fara í gröfina með hinum brtt.

Þá er það 15. brtt.till. rýrir að mínu viti trygginguna gegn verkföllum og verkbönnum, og þess vegna er ég mótfallinn henni.

Þá er það 16. brtt., sem hann sjálfur hefir gert brtt. við á öðru þskj. Mér finnst það ekki ná neinni átt, að fara að binda það eingöngu við tvö skipti, sem sáttasemjari má reyna að leita sátta.

Hv. þm. vill í 17. brtt. sinni breyta skipun félagsdóms. Það má náttúrlega lengi um það deila, á hvern hátt bezt sé að tryggja skipun þessa dóms, þannig að hann verði sæmilega hlutlaus, en ég hefi haldið, að með því fyrirkomulagi, sem er í gr., sé það betur tryggt, að félagsdómur verði nokkurnveginn hlutlaus, þar sem tveir dómendurnir eru tilnefndir af hæstarétti, enda hefir hv. þm. ekki sýnt fram á það á neinn hátt, að sú skipan, sem hann fer fram á, sé betri trygging fyrir aðiljana.

18. brtt. verður að fylgjast að við brtt. 8. gr., svo að ef till. verður felld, verður þessi að sjálfsögðu að falla líka.

Síðasta brtt. hv. þm. er um það, að við allar atkvgr. samkv. l. þessum skuli gilda sú regla, að enginn maður fari nema með eitt atkv. Það er ekki gert ráð fyrir því í l., að önnur regla en þessi gildi við atkvgr., en hv. þm. benti réttilega á, að aðrar reglur myndu gilda í félagi vinnuveitenda. Þar myndi vera farið eftir því, hve félagsmenn borguðu mikið kaup út. En ég sé ekki, að það sé ástæða fyrir löggjafann að skipta sér af því, hvernig atkvgr. er fyrir komið innan félaga. Það væri gaman að heyra hv. 3. þm. Reykv. lýsa því, hvaða þýðingu þetta hafi fyrir verkalýðinn og hvaða hag hann sjái sér í þessu.

Þá eru það brtt. frá sjálfstæðismönnunum í n. Þeir vilja breyta nafninu „stéttarfélög og stéttarfélagasambönd“ og setja í staðinn: „verkalýðsfélög og verkalýðsfélagasambönd.“ Ég álít, að þetta sé þrenging á hugtakinu, því að það er vitanlega meiningin, að undir þetta falli aliar starfsgreinar í þjóðfélaginu fyrir utan þær, þar sem bannað er að gera verkföll í, samkv. l. um verkfall opinberra starfsmanna. Það er ekki rétt, sem hv. þm. Snæf., hélt fram, að Hjúkrunarkvennafélagið og Læknafélagið þyrfti að falla undan l., vegna þess að það er ekki nema partur af læknunum, sem eru opinberir starfsmenn; hinir eru praktíserandi. Ég skil þetta þannig, að með orðinu verkalýðsfélag sé átt við félög almennra verkamanna og sjómanna, en hin svokölluðu fagfélög innan iðnaðarins og í öðrum starfsgreinum geti ekki fallið undir hugtakið verkalýðsfélög. Annars er þetta ekki stórt atriði, en mér finnst ekki ástæða til að breyta þessu. — Þá finnst mér réttara hugtak að tala um atvinnurekendur heldur en vinnuveitendur eins og farið er fram á í 2. brtt.

Í 3. brtt. vilja flm., að tilnefndir séu tveir menn sem trúnaðarmenn af þeim mönnum, sem vinna á vinnustöð, en ekki af stéttarfélaginu. Mér finnst eðlilegra, að stéttarfélagið, sem mennirnir eru í, sem vinna á stöðinni, tilnefni þessa menn.

Í samræmi við 1. brtt. er till. um að breyta fyrirsögn I. kafla, sem verði um verklýðsfélög, og þarf ég ekki að ræða um það meira.

Ég tel, að 7 sólarhringa fresturinn, sem settur er í 16. gr., sé nægilegur, og að engin ástæða sé til þess að auka hann. Sömuleiðis sé ég ekki ástæðu til að fella niður úr 17. gr. orðin: „nema til fullnægingar úrskurðum dómsins,“ sem eru beinlinis í samræmi við efni málsins.

atvmrh. gefi sáttasemjara erindisbréf, þá er ekkert við því að segja; það skiptir ákaflega litlu máli, en breytir ekki neitt efni frv. — Sama má segja um 9. brtt.

Ég álít, að það sé nægilega gengið frá því í frv., að ríkissáttasemjari og sáttasemjarar yfirleitt verði að kynna sér alla aðstöðu í vinnudeilum, og þess vegna sé 10. brtt. líka óþörf.

11. brtt. er um það, að aðiljum sé skylt að mæta, þegar sáttasemjari kveður þá til viðtals. Ég álít, að það sé nægilega gengið frá því í frv. sjálfu. — Aftur á móti kemur ekki til mála að samþ. 12. brtt., um að setja nýja fresti fyrir öllum vinnustöðvunum. yfirleitt tel ég, að þessar brtt. séu ekki til neinna bóta á frv.

Þá vilja þeir í 13. brtt. útiloka, að ráðh. skipi einn mann í dóminn, en hann á eftir frv. að skipa hann úr hópi þriggja manna, sem hæstiréttur tilnefnir, og get ég ekki séð, að það sé neitt hættulegt, að svo sé. — Ennfremur álit ég, að það sé nægilega upptalið í 44. gr., sem eigi að heyra undir félagsdóm, og sé óþarfi að bæta þar nýjum liðum við.

Ég legg til, og ég býst við, að meiri hl. n. leggi til, að ekki verði samþ. aðrar brtt. en þær, sem n. hefir öll orðið sammála um og prentaðar hafa verið með nál.

Ég sé ekki ástæðu til að fara út í almennar umr. um vinnulöggjöf, eins og hv. 5. þm. Reykv. gerði hér. Hann fór að rifja upp ýmislegt, sem fram kom við 1. umr. málsins. Það gefst nægur kostur á því við 3. umr., og það fyrir fleiri mönnum en hér eru saman komnir, með því að útvarpsumræður hafa verið ákveðnar, enda var því, sem hann talaði um, aðallega beint gegn öðrum mönnum, sem töluðu hér við 1. umr. málsins. Ég vil algerlega mótmæla því, sem hv. þm. sagði, að þessu máli hefði á nokkurn hátt verið flaustrað af, því að það er undirbúið af mþn., sem hefir starfað í hálft annað ár og gengið svo vandlega að verki sinu, að hún hefir aflað sér fyrirmynda frá öllum helztu menningarlöndum og byggt frv. sitt og till. á því.

Hv. 3. þm. Reykv. fór ekki mikið út í málið almennt að þessu sinni. Mér virðist hann satt að segja hafa litla ástæðu til að deila á fyrrverandi flokksbræður sína fyrir afstöðu þeirra til vinnulöggjafarinnar. Ég sé ekki betur en að hann sé samþykkur því, að setja lög um sáttatilraunir og um félagsdóm. Það eru bara smávegis atriði, sem hann vill breyta í l. Ég minntist ekki á ákvæðið við 17. gr. þegar ég fór yfir brtt., að hv. þm. vill kippa burt tölul. 2, sem er á þessa leið, með leyfi hæstv . forseta: „Ef tilgangur vinnustöðvunarinnar er að þvinga stjórnarvöldin til að framkvæma athafnir, sem þeim 1. samkv. ekki ber að framkvæma, eða framkvæma ekki athafnir, sem þeim l. samkv. er skylt að framkvæma, enda sé ekki um að ræða athafnir, þar sem stjórnarvöldin eru aðili sem atvinnurekandi. Gildandi l. um opinbera starfsmenn haldast óbreytt þrátt fyrir þetta ákvæði.“ Ég skil satt að segja ekki í því, að þessi hv. þm. skuli álíta það vera einhverja firru að setja ákvæði um þetta í l., að ekki megi fremja vinnustöðvun eða gera ráðstafanir til þess að hindra löglegar framkvæmdir stjórnarvalda. Menn muna eftir þeim tíma, þegar þessi hv. þm. var manna æstastur hér á landi móti verkfalli, sem hafið var gegn lögum, sem samþ. voru á þingi, benzínskattslögunum. Þesskonar vinnustöðvun fellur einmitt undir þennan lið. Og það kemur þess vegna mjög undarlega fyrir, að einmitt þessi þm. skuli gera aths. við þessa gr. En allt saman stafar af því, að þessi hv. þm. talar um málið eins og hann heldur, að hann muni bezt geta náð fylgi, en ekki eins og hann álítur réttast. Hann telur það ekki verkefni leiðtoganna að hugsa fyrir verkamennina um það, hvað væri þeim réttast eða fyrir beztu. Þessi hv. þm., sem er þó lengi búinn að vinna fyrir verkalýðinn hér á landi, misskilur algerlega aðstöðu sína. Og það er sennilega þaðan, sem stafar hans ógæfa nú, þegar hann er að velta út úr stjórnmálunum hér á landi, að hann misskilur þetta, — að hann er alltaf að þreifa fyrir sér og reyna að hlera eftir, hvað falli bezt í jarðveginn hjá þessum mönnum, í staðinn fyrir að reyna, að vera leiðtogi þeirra og reyna að leiða þá á þá braut, sem hann álítur þeim fyrir beztu.