30.04.1938
Neðri deild: 58. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 950 í B-deild Alþingistíðinda. (1346)

95. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Ísleifur Högnason:

Herra forseti! Góðir hlustendur! Ef þetta vinnulöggjafarfrv. verður að lögum, markar það tímamót í sögu íslenzkrar verklýðsbaráttu. Með því er fyrsta sporið stigið í áttina til þess að gera íslenzka verkamenn að þrælum. Eins og nú er högum háttað, er verkamönnum heimilt að leggja niður vinnu, þegar þeim þykir henta, en samkv. þessu lagafrv. eru þeir hnepptir við vinnuna með svipu laganna reidda að höfði sér. Áður fyrr var þrælunum refsað með hnútasvipum, ef þeir ekki unnu að skapi húsbænda sinna. Nú er svipa laga og lögregluvalds reidd að höfði þeirra, ef þeir ekki vinna að geðþótta atvinnurekenda. Enda þótt ekki sé gert ráð fyrir því í frv., að hægt sé að varpa mönnum í fangelsi, þótt þeir ekki vilji sætta sig við að vinna við þau kjör, sem atvinnurekandanum þóknast, er það, ef l. ná fram að ganga, orðið refsivert athæfi, og það þarf ekki mikið ímyndunarafl til þess, að láta sér detta í hug, að svo frekleg ýfing og áreitni neyði verkamenn í sjálfsvarnarskyni til þess að brjóta önnur l., sem harðari refsingu varða en brot á sjálfri vinnulöggjöfinni. Þess eru líka ótal dæmi úr verkfallssögu annara þjóða, sem við slíka vinnulöggjöf eiga að búa, að verkamenn hafi verið fangelsaðir hópum saman, barðir og lemstraðir af lögreglunni, og þarf ekki lengra að leita en til Norðurlanda, en til þeirra er fyrirmynd l. sótt. Það má raunar segja, að það sé orðin hefð hér á Alþ. að vitna til fordæma þeirra frá Norðurlöndum, ef rökstyðja þarf eitthvert það mál, sem til óþurftar má verða íslenzkri alþýðu, og svo er um þetta. Í grg. frv. er ekki gerð minnsta tilraun til þess að rannsaka orsakir verkfalla og vinnuskilyrði hér á landi. Stærðar rit, sem nefnist álit vinnulöggjafarnefndar og fylgir lagafrv. sem grg.. fjallar nær eingöngu um erlenda vinnulöggjöf. Í þessum löndum öllum eru atvinnuhættir og öll lífsskilyrði verkafólks mjög ólík, enda vinnulöggjöf landanna breytileg. Nál., svo takmarkað sem það er, fjallar einvörðungu um það, á hvern hátt réttur verkamanna til vinnufrelsis er skertur í öðrum löndum, því að auðvitað var tilgangur frv., sem hér liggur fyrir, aldrei annar en sá, að skerða núverandi réttindi íslenzkra verkamanna.

n. hafi lagt sig í líma til þess að rannsaka þá hlið erlendrar vinnulöggjafar, sem veitir verkamönnum meira öryggi og bætta þjóðfélagslega afstöðu, verður hvergi séð í frv. Þó er það einmitt þessi hlið vinnulöggjafarinnar, sem vænta hefði mátt, að stj. hinna vinnandi stétta hefði fyrst og fremst látið rannsaka.

Í löggjöf hvers einasta lands, sem ekki býr við fasistíska villimennsku, eru ákvæði, sem takmarka mjög vinnu barna og kvenna, að konur og börn vinni í heilsuspillandi iðngreinum. Ákvæði um húsnæði, loftræstingu. þrifnað og fl., hvað minnst megi vera, er ennfremur ákveðið í löggjöf erlendra menningarríkja. Að vísu munu vera til einhversstaðar í skjalasafni Alþ. l., sem banna að nota húsnæði, sem ekki fullnægja ákveðnum lagafyrirmælum, bæði til atvinnurekstrar og íbúðar, en sjálfsagt hafa þau l. ekki verið neitt alvarlega meint, því að til framkvæmda á þeim hefir aldrei komið, og hinir löghlýðnu borgarar hafa aldrei látið sér detta í hug að efla lögreglu ríkis eða bæja til þess að halda l. í heiðri, því að fyrir barðinu á því lögregluvaldi yrði ekki alþýðan, heldur þeir sjálfir.

Í þessum h er ekki hægt að benda á einn bókstaf, sem veiti verkamönnum nýjar réttarbætur eða annan rétt en þeir nú hafa samkv. stjskr. landsins.

1. gr., hljóðar um það, að menn eigi rétt á að stofna stéttarfélög og stéttarfélagasambönd til þess að vinna sameiginlega að hagsmunamálum verkalýðsstéttarinnar. Þennan rétt hafa menn haft hér á landi, og engum, jafnvel ekki hatrömustu andstæðingum verklýðssamtakanna, látið sér detta í hug að fá verklýðsfélög dæmd ólögleg fyrir þær sakir, að vinna sameiginlega að hagsmunamálum verklýðsstéttarinnar.

Í 2. gr. segir, að stéttarfélög skuli opin öllum í hlutaðeigandi starfsgrein eftir nánari ákveðnum reglum og samþykktum félaganna. Þetta hefir svo verið í öllum stéttarfélögum, og er einnig heimilt samkvæmt stjskr.

Í 3. gr. er sagt, að stéttarfélög ráði málefnum sinum sjálf með þeim takmörkunum. sem sett eru í l. þessum. Fram að þessu hafa stéttarfélögin ráðið sinum málefnum sjálf án nokkurra takmarka. Í lagafrv. er sægur af takmörkunum á sjálfsákvörðunarrétti verklýðsfélaganna, að viðlögðum sektum, allt að 10 þúsundum kr., og innibindur þessi 3. grein samnefnara að öllum þeim réttarskerðingum, sem í frv. felast.

Það væri of langt mál að rekja allar þær réttarskerðingar, sem frv. hefir inni að halda, en ég ætla aðeins að drepa á þær helztu. Tilkynna skal vinnustöðvun með 7 sólarhringa fyrirvara, áður en hún hefst, ef tilgangurinn er að knýja fram breyt. á kaupi eða kjörum. Ennfremur má ekki gera verkföll út af málum, sem heyra undir félagsdóm. Hingað til hefir verkalýðurinn átt eitt vopn til varnar hagsmunum sínum, réttinn til þess að hætta að vinna, þegar honum þætti svo þrengt að kjörum sínum og kaupi, að eigi yrði við unað. Daglaunamenn allir, þeir sem vinna tímavinnu, sem ávallt er mjög stopul, hafa getað varizt nokkuð launalækkun með því. að stöðva vinnu við þau tækifæri, sem atvinnurekendur eru sízt við því búnir, eða með því að gera verkfall með stuttum eða engum fyrirvara. Á þennan hátt hafa t. d. eyrarverkamenn víðast hvar getað komið fram kröfum sínum. Ef rannsakað væri, myndi það koma í ljós, að flest, ef ekki öll verkföll, sem daglaunamenn hafa gert, eru hin svonefndu skyndiverkföll. Daglaunaverkamennirnir eru áreiðanlega sú stétt þjóðfélagsins, sem við þrengstan kost eiga að búa. Um hæð kaupgjaldsins er það að segja, að þó það víðast hvar á landinu sé ekki hátt, væri það !þó viðunanlegt, ef vinnan væri stöðug. En því er ekki til að dreifa. Daglaunaverkamenn hafa margir hverjir ekki meiri atvinnu en það, að ef árstekjunum er jafnað niður á allt árið, verður tímakaupið ekki nema fjórðungur þess taxtakaups, sem þeir vinna fyrir. Þetta er ekki að jafnaði tekið með í reikninginn, þegar litið er til kjara daglaunaverkamanna, heldur verður mörgum á að einblina á kauphæðina, sem greitt er fyrir hverja klukkustund.

Með ákvæði því í þessu lagafrv., sem bannar verkamönnum skyndiverkföll, eru hinir verst stæðu þegnar þjóðfélagsins ofurseldir geðþótta atvinnurekenda um kaup sín og kjör enn meira en nú er. Sjö sólarhringa fyrirvarinn þýðir það í flestum tilfellum, að atvinnurekendur þeir, sem annars þurfa menn í tímavinnu, geta komið málum sinum þannig fyrir, að verkamönnum sé verkfallsrétturinn að engu orðinn. Ennfremur þýðir þessi frestur það, að verkamenn mega ekki gera skyndiverkfall til þess að knýja fram bætur á vanrækslu atvinnurekenda í nauðsynlegum öryggisráðstöfunum við vinnuna, né knýja þá til að standa við lögmætar skuldbindingar um greiðslu kaupgjalds. Formælendur frv. hafa haldið því fram, að í vissum tilfellum væru skyndiverkföll leyfileg, en það yrði þá að lesa einhversstaðar á milli línanna, því að ákvæði, sem heimila verkföll í þessum tilgangi, fyrirfinnast hvergi í 1., sem þó væri sjálfsagt að láta koma skýrt fram, ef um það væri að ræða að tryggja á einhvern hátt rétt verkamanna.

Ekki má heldur gera verkfall, ef tilgangurinn er að þvinga stjórnarvöldin til að framkvæma athafnir, sem þeim l. samkvæmt ekki ber að framkvæma, eða framkvæma ekki athafnir, sem þeim l. samkvæmt er skylt að framkvæma.

Hefði þetta ákvæði verið í l., þegar bifreiðastjórar í Reykjavík gerðu verkfall gegn benzíntollinum, hefði það verkfall verið lagabrot og refsivert. En með verkfalli þessu vannst það á. að benzínverðið hækkaði ekki því sem tollurinn nam; ríkisstj. neyddist til að veita ívilnanir um rýmkuð innflutningsleyfi fyrir benzíni, og á þann hátt varð árangur verkfallsins sá, að benzíninnflytjendur voru neyddir til að taka á sig tollinn. Að dómi þeirra þm., sem leggja blessun sína yfir frv., hlýtur það að hafa verið hin mesta óhæfa af bilstjórum að taka ekki möglunarlaust við hækkun benzínverðsins, og enn meiri fjarstæða að láta erlenda hringa borga tollinn, sem nemur hundruðum þúsunda á ári í ríkissjóð.

Nokkur verkföll, sem hefðu verið ólögleg, ef l. hefðu verið í gildi:

1. Verkfall Dagsbrúnar hjá h/f Fiskimjöll 1936 vegna ágreinings um tölu verkamanna í verksmiðjunni.

2. Verkfall Dagsbrúnar og samúðarverkfall félags járniðnaðarmanna og Iðnaðarsambands byggingarverkamanna við Sogsvirkjunina í marz 1936 vegna ágreinings milli danska atvinnurekandans Höjgaards og Dagsbrúnar.

3. Verkfall múrarasveinafélagsins 1 okt. 1936 við Sogsvirkjunina um ágreining út af vinnusamningi, sem atvinnurekendur höfðu brotið.

4. Verkfall Iðju við Álafossverksmiðjuna í nóv. 1936 vegna vinnusamnings og uppsagnar fimm verkamanna.

5. Verkfall húsgagnasveina í marzlok í fyrra, sem gert var í samúðarskyni við verkfall húsgagnasveina.

8. gr. frv. mælir svo um, að stéttarfélög beri ábyrgð á samningsrofum þeim, sem félagið sjálft eða löglega skipaðir trúnaðarmenn þess gerast sekir um í trúnaðarstörfum sinum fyrir félagið. Um ábyrgð atvinnurekenda á laga og samningsbrotum er minna talað í frv., enda leggur það engar þær kvaðir eða skyldur á atvinnurekendur, umfram það sem þeir nú hafa, að ábyrgð verði komið á hendur þeim. Þeim er að vísu óheimilt. að reyna að hafa áhrif á stjórnmálaskoðanir verkamanna sinna með hótunum um uppsögn vinnu og mega ekki reka menn úr vinnu fyrir trúnaðarstörf í þágu stéttarfélags, en allir sjá, að í kringum þessi ákvæði eiga atvinnurekendur mjög auðvelt með að fara.

Það er rétt að minnast á það í þessu sambandi, að fyrir hv. Nd. liggur frv. um að breyta útvarpslögunum. Frv. er flutt að tilhlutun forseta Sþ., hv. þm. Seyðf. (HG), sjálfum formanni Alþfl. Samkv. þessu lagafrv. er meiningin að leysa núverandi þingkosna menn í Útvarpsráði frá starfi sinu og kjósa nú á þessu þ. menn í útvarpsráðið að nýju. Nú vill svo einkennilega til, að tveir af þessum mönnum í útvarpsráði eru flokksbræður Haralds Guðmundssonar, en þeir eru komnir á aðra skoðun en hann um það, á hvern hátt alþýðunni sé heilladrýgst að sameinast. Þeir eru báðir í vinstra armi Alþfl., þ. e. með kjósendum Alþfl., en móti þm. Alþfl. Vitanlega nota flm. frv. aðra ástæðu fyrir frv. en þá, að bola þurfi þessum mönnum frá starfi sinu vegna stjórnmálaskoðun þeirra, þótt allir sjái, að það og ekkert annað er tilgangurinn. Samkv. ástæðunum, sem allshn. flytur fyrir frv., var engin þörf að kjósa að nýju í útvarpsráðið á þessu Alþ. Í þessu tilfelli má líta á ríkið, og þá beinlínis Alþ., sem atvinnurekanda og húsbónda þessara manna í útvarpsráði. Ef Alþ. ætlar nú sem atvinnurekandi að fara að reka menn úr starfi sínu vegna stjórnmálaskoðana sinna, samtímis því, sem það samþ. l., sem banna slíkt athæfi, og vitanlega er fordæmt í réttarmeðvitund þjóðarinnar, — hvaða virðingu halda hv. þm. þá, að atvinnurekendur beri fyrir lagaákvæði, sem bannar skoðanakúgun gagnvart verkamönnum?

Í grg. sinni fyrir frv. um vinnulöggjöf telur n., að nauðsyn beri til að löggjöfin þegar í upphafi hafi á bak við sig velviljað almenningsálit. Ég ætla að lesa þessi ummæli upp, með leyfi hæstv. forseta: „Því væri æskilegt“, segir n., „að ekki þyrfti að vera um harða andstöðu — allra sízt rökstudda — gegn henni að ræða, hvorki frá verkamönnum né atvinnurekendum. Á þessum síðari atriðum veltur það áreiðanlega að mjög miklu leyti, hvort löggjöfin er framkvæmanleg. En reynist hún ekki framkvæmanleg, nær hún auðvitað ekki tilgangi sínum

og er pappírsgagn eitt, eins og sumstaðar hefir orðið um viss ákvæði slíkrar löggjafar í öðrum löndum“.

Um afstöðu atvinnurekenda til þessa vinnulöggjafarfrv. er löngu vitað. Hvað eftir annað hafa fulltrúar þeirra hér á Alþ. og utan þess lýst þessari lagasmíði sem spori í rétta átt, og nú síðast hafa sjálfstæðismennirnir í allshn. lýst fögnuði sínum yfir því, að frv. er komið fram, og ljá því óskipt fylgi sitt, þótt þeir óski eftir smávægilegum breyt. á því, eins og þeir sjálfir hafa orðað það. Ekki einn einasti atvinnurekandi hefir lýst sig andvígan meginstefnu frv., sem heldur er ekki við að búast, því að allt gengur það freklega á gildandi réttindi verkamanna og auðveldar atvinnurekendum hina fyrirhuguðu kaupkúgunarherferð gegn verkalýðnum, sem á að verða þeirra aðalbjargráð í yfirstandandi og komandi kreppu. Vegna þess að hv. þm. Snæf. (TT) hefir lýst því yfir, að þetta vinnulöggjafarfrv. sé í öllum aðalatriðum í sama anda og frv. það, sem hann og aðrir sjálfstæðismenn hafa flutt hér á undanförnum þingum, má vænta þess, að hann og hans flokkur muni hafa líkan hug á að stuðla að því, að l. nái framkvæmd, eftir að Alþ. hefir samþ. þau, eins og um hans eigið fóstur væri að ræða, en til þess hefir hann ekki viljað spara af hálfu hins opinbera fé né mannafla, og látið það skýlaust uppi, að ef verkalýðurinn hefði l. að engu, vildi hann auka ríkislögregluna svo mikið, að þau mætti halda í heiðri með lögregluvaldi.

Ég hefi nú lýst afstöðu þeirra manna, stórútgerðarmanna og atvinnurekenda, sem málið skiptir sem annars aðilja, og er afstaðan öll á einn veg, óskipt ánægja með frv., og er engin hætta á, að til þess komi, að þeir líti á það sem pappírsgagn.

En hvaða undirtektir hefir frv. fengið hjá hinum aðiljunum, verkalýðnum? Þrátt fyrir ýtrustu tilraunir hægri foringja Alþfl. hafa þeir ekki getið fengið nema lítinn hluta hins skipulagða verkalýðs til þess að mæla með því, að vinnulöggjöf sem þessi yrði sett, og undantekningarlaust hafa öll verklýðsfélög lagzt á móti því, að frv. yrði samþ. í þeirri mynd, sem það nú liggur fyrir. Samt sem áður leyfir formælandi frv. af hálfu Alþfl. sér að leggja blessun sína yfir þessi kúgunarlög. Um Sjómannafélag Reykjavíkur er sannleikurinn sá, að formaður þess, sem er einn af hægri foringjum Alþfl., hefir ekki þorað að bera það undir atkv. þar, því að hann veit, hver afdrif þess myndu verða. Sá óheiðarlegi málflutningur hv. flm. þessa frv., þegar hann er að gylla frv., er svo gott dæmi, að ég get látið hann nægja. Svo opinber fyrirlitning á vilja flokksmanna sinna, svo óskammfeilin uppreisn gegn lýðræði og vilja kjósendanna munu eiga sér fá eða engin dæmi í íslenzkri þingsögu.

Og hver er þá afsökunin, sem .þessir menn reyna í vanmætti sinum að bera fram fyrir þjóðina? Hún er í stuttu máli þessi. Hvað svo sem þið verkamenn góðir, kunnið um þetta að segja, þá er það okkar eigin sannfæring, að frv. sé til réttarbóta fyrir ykkur, og þó að við auðvitað, eins og þið, séum óánægðir með hin einstöku atriði þess, þá er þó sá kosturinn betri, að taka við því eins og það er frá Framsfl. heldur en að annað verra yrði lögleitt með samvinnu Íhalds og Framsóknar, þar sem áhrifa Íhaldsins myndi gæta enn meir en þó er hægt að segja um þetta frv.

Það er ekki úr vegi að athuga dálitið betur, hversu haldgóð þessi málsvörn hægri foringjanna er.

Til þess að létta á útgerðarkostnaði af íslenzka flotanum hafa nokkrir þm. Framsóknar gerzt flm. frv., sem ráðgerir allverulega fækkun siglingafróðra manna og vélamanna á skipunum. Að dómi allra sjómanna, sem látið hafa uppi álit sitt á frv. þessu, er það stórhættulegt öryggi allra sjófarenda, enda ekki nema tvö ár síðan gildandi l. voru sett um þessi efni, og þá vegna aðkallandi nauðsynjar. Krafan um þessa fækkun yfirmanna á skipunum er komin frá Félagi botnvörpueigenda í Reykjavík, en þm. Sjálfstfl. mun hafa klígjað við að flytja frv., enda koma þeir sér saman um, að klofna í afstöðunni til málsins, þegar til atkvgr. kom, tryggðu aðeins, að svo mikið brot af flokknum fylgdi því í Nd., að frv. yrði samþ.

Gerum nú ráð fyrir, að þeim sjálfstæðismönnum, sem æstastir eru að koma máli þessu í gegn um þingið, hefði þótt betur henta að koma því í gegn með stuðningi þm. Alþfl.; hefði þeim átt að vera sú leið innan handar með því að bera sjálfir fram frv. um að afnema með öllu stýrimenn og vélfróða menn af skipunum. Þá hefðu foringjar Alþfl., ef dæma skal eftir afstöðu þeirra til vinnulöggjafarfrv., átt að dásama frv. framsóknarmanna og veita því stuðning sinn til þess að forða sjómönnum og sjófarendum frá því, að Framsókn í samvinnu við íhaldið samþ. enn verri siglingal., þar sem áhrifa íhaldsins gætti enn meir en þó væri hægt að segja um frv. Framsóknarþm.

Þessi rök afturhaldsins í Alþfl., að fólk verði í öllum tilfellum að taka skárri kostinn af tvennu illu, til þess að losna við þann verri, hlýtur að leiða til þess, að afturhaldið fær að lokum komið fram öllum sínum málum, eins og raunin var á í Þýzkalandi, en þar notuðu hægri sósíaldemókratarnir einmitt þessi sömu rök og skoðanabræður þeirra hér á Íslandi.

Þessi afstaða Alþfl. endar með því, að allt lýðfrelsi verður afnumið, þjóðin missir alla tiltrú til vinstri flokkanna, og verður afturhaldinu og lýðskrumi þess að bráð fyrr en varir.

Ábyrgðina á því, að vinnulöggjafarfrv. verður að l., bera hægri þm. Alþfl. einir. Ef þeir hefðu gert skyldu sína í því, að fylkja verklýðssamtökunum um kröfu okkar kommúnista og vinstri arms Alþfl. til einhuga mótmælabaráttu gegn þessum l., þá hefðu þm. Framsfl. ekki látið sér detta í hug að bera fram frv., og hefi ég rökstutt það hér að framan. Foringjar Alþfl. hafa sagt, að ef verkalýðurinn sýndi því engan velvilja, væri það fyrirfram dæmt til þess að verða pappírsgagn. Aðeins með því að ginna hægri foringjana til fylgis við það og fá stuðning þeirra, hafa afturhaldsöfl Framsóknar séð sér fært að bera málið fram.

Því hefir verið haldið fram af málsvörum vinnulöggjafarinnar, að með henni væri hagsmunum þriðja aðila, þ. e. þeirra, sem ekki taka beinlínis þátt í kaupdeilum, betur borgið. Að með því að hindra verkamenn í því að gera skyndiverkföll, til þess að verjast launaárásum eða bæta kjör sin, yrði komizt hjá tjóni, sem bitnaði á öllu þjóðfélaginu. Nú er það mála sannast, að með orðinu „þjóðfélag“ eiga stórlaxarnir venjulegast aðeins við sjálfa sig, eða örfáa menn úr yfirstétt þjóðfélagsins. Þeir kalla sig eina Íslendinga, samanber kjörorð þeirra fyrir síðustu kosningar: „Breiðfylking Íslendinga gegn sósíalistum“. Kosningarnar sýndu reyndar, að þessi íslenzka breiðfylking var minni hluti Íslendinga. Nú er ekki svo að skilja, að allt fylgi þessarar breiðfylkingar hafi átt samleið með foringjum hennar, og víst er um það, að í aðstöðunni til þessa máls breiðfylkingarinnar, vinnulöggjafarinnar, eiga ekki yfir 10 af hundraði samleið með henni, og áreiðanlega ekki meira en 1 af hundraði í flokkum Framsóknar og Alþýðu. Eini styrki aðilinn í viðnámi alþjóðar gegn ágengni hinnar fasistísku yfirstéttar eru verklýðsfélögin, og að lama þessa brjóstvörn fólksins eru hin verstu launráð við alla alþýðu, hvaða stjórnmálaskoðanir sem hún annars kann að hafa. Þriðji aðilinn, þjóðfélagið í orðsins réttu merkingu, hefir því áreiðanlega mikinn óhag af framgangi vinnulöggjafar þeirrar, sem nú er verið að koma í gegnum þingið.

Hvað bændum viðkemur, má þeim og vera það ljóst, að kjararýrnun kaupstaðaalþýðunnar er þeim til hins mesta óhagræðis. Þeirra bezti markaður fyrir landbúnaðarafurðir er innlendi markaðurinn, og með versnandi kjörum verkamanna þrengist þessi markaður stöðugt. Verkamenn kaupstaðanna kæra sig sízt af öllu um, að bændur flosni upp af jörðum sínum, og komi í hópinn til þeirra á mölina, sem þýðir enn meira atvinnuleysi og neyð þeirra á meðal. Hjartfólgnustu óskir verklýðsstéttarinnar, hvað málefnum bænda viðkemur, eru þær, að þeim megi vegna sem bezt þar, sem þeir eru, og sízt er það í þeirra þágu, að straumurinn liggur úr sveitunum til sjávarins. En einmitt kaupgeta verkamanna á landbúnaðarafurðum er öruggasta stíflan gegn þessum straum og þess vegna munu bændur, ef þeir líta ekki á þvingunarlögin gegnum gleraugu Íhalds og framsóknarihalds, vera þessari vinnulöggjöf andvígir, og það beinlínis af hagsmunalegum ástæðum, ef um mannúðlegri sjónarmið er ekki að ræða, sem ég á engan hátt vil draga í efa.

Beinagrindina að þessari vinnulöggjöf hafa flm. fengið að láni úr hinni svokölluðu dönsku „septembersætt“. Þessi septembersætt er þannig til komin, að árið 1899 stöðvuðu danskir atvinnurekendur allar sínar verksmiðjur um langan tíma og útilokuðu tugi þúsunda verkamanna frá vinnu. Verkamennirnir urðu ásamt fjölskyldum sínum að svelta mánuðum saman, áður en atvinnurekendum tækist að sigra þá og þrýsta niður launum þeirra. Auk þess sem iðjuhöldunum tókst að rýra kjör verkamannanna, þvinguðu þeir félög þeirra til að ganga inn á þessa svokölluðu „septembersætt“, sem líkja mætti við friðarsamninga þá, sem Miðveldin voru neydd til að undirskrifa í lok heimsstyrjaldarinnar og kenndir eru við Versali. Ávextina af Versalafriðarsamningnum eru lýðræðisþjóðir Evrópu nú að uppskera. Nýtt blóðbað ógnar heiminum af hálfu þeirrar þjóðar, sem þá var kúguð til samninga. Septembersættin danska er að vísu gerð með samþykki danskra verkamanna, eins og Versalasamningarnir voru undirskrifaðir af Þjóðverjum, en að þeim nauðugum og gersigruðum.

Maður freistast til að álíta, að hægri foringjar Alþfl. líti svo á, eftir að þeir eru búnir að láta hafa sig til að kljúfa flokk sinn, að verkalýðssamtökin séu þar með sigruð, og sé því ekki annað fyrir hendi en nota tækifærið til þess að koma á þessari vinnulöggjöf, sem troðið er upp á þjóðina alla og verkamenn í þeirra óþökk. Ég veit, að þetta er ekki réttur útreikningur hjá þeim, frekar en aðrir útreikningar þeirra, t. d. um fylgi sitt meðal þjóðarinnar. Jafnvel þó að í vinnulöggjöfinni séu ákvæði, sem ívilna Alþfl. umfram aðra flokka um tilnefningu manna í hinn svokallaða félagsdóm, mun það hálmstrá ekki geta fleytt þeim lengi, því að fylgislaust foringjalið mun ekki verða tekið alvarlega í þessu efni. Þeir munu innan skamms fá reynslu um þetta og hana dýrkeypta.

Íslenzki verkalýðurinn er ekki sigraður. Þúsundir verkamanna í Alþfl. og Kommfl. vinna um þessar mundir að sameiningu allrar íslenzkrar alþýðu í einn sterkan, sósíalistískan lýðræðisflokk. Það verða þessir menn, sem á morgun sýna löggjafanum og öðrum, að vinnulöggjöfin á sér fáa formælendur meðal verkafólks og alþýðu. Að lokum vildi ég mælast til þess, úr því að hægri foringjar Alþfl. eiga leið suður í kirkjugarðinn á morgun, að þeir vildu halda á þessu vinnulöggjafarfrv. með sér og skilja það þar eftir.