30.04.1938
Neðri deild: 58. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 978 í B-deild Alþingistíðinda. (1351)

95. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Garðar Þorsteinsson:

Herra forseti! Góðir hlustendur! Ég get ekki að svo stöddu tekið til athugunar það, sem hv. þm. N.-Ísf. kom með hér áðan í ræðu sinni. Það verður að biða þangað til síðar að ræða um það.

Sjálfstfl. hefir undanfarin ár barizt fyrir því, að sett yrði vinnulöggjöf. Má segja, að með samþykkt þessa frv. sé fenginn raunverulegur árangur þeirrar baráttu.

Að við Íslendingar erum svo mjög á eftir frændþjóðum okkar á Norðurlöndum með að setja slíka löggjöf, stafar að miklu leyti af því, hversu atvinnulif vort hefir verið frábrugðið atvinnulífi þar. Fyrst eftir aldamótin eignuðust landsmenn hin stórvirku atvinnutæki til sjávarins, sem veittu stórfelldari og arðsamari atvinnu en áður, og fólkið flýr meir sveitirnar, og verkaskiptingin verður gleggri milli þess, sem veitir atvinnuna, og þess, sem hana þiggur. Hagsmunaágreiningur rís um skiptingu arðsins. og upp úr því myndast deilur, hinar svokölluðu vinnudeilur. Fyrsta stóra deilan hér reis upp 19I6, þegar hásetar á togurum gerðu verkfall. Síðar hafa vinnudeilur orðið alltíðar, og oft risið margar deilur á hverju ári. Allar slíkar vinnustöðvanir hljóta óumflýjanlega að leiða af sér tjón fyrir báða aðilja, og þá um leið tjón fyrir þjóðina sem heild. Því þjóðarböli, sem vinnustöðvun ætið hlýtur að hafa í för með sér, hafa aðrar þjóðir löngu reynt að afstýra með því að setja hjá sér löggjöf um sáttatilraunir í vinnudeilum, og með því að setja ákvæði um það, hvenær og undir hvaða kringumstæðum vinnustöðvun væri gerð, og jafnframt að setja á stofn sérstakan dómstól, sem dæmdi um það, hvort gerðir samningar væru brotnir eða ekki.

Enginn vafi er á því, að ákvæði laga um sáttatilraunir, frá 1925, hafa í mörgum tilfellum ýmist afstýrt vinnudeilum eða leyst þær skjótar en ella hefði orðið, ef þau l. hefðu ekki verið til.

Á landsfundi sjálfstæðismanna 1929 var fyrst rætt um nauðsyn þess að setja vinnulöggjöf, og var þá gerð ályktun þar þess efnis. Siðar, 1933, gerði landsfundurinn á ný ályktun í sömu átt, að skora á þm. flokksins að beita sér fyrir þessu. Eftir kosningar 1934 hafði þingfl. Sjálfstfl. þetta mál sérstaklega í undirbúningi, en Vinnuveitendafélag Íslands hafði einnig hafizt handa um undirbúning slíkrar löggjafar. Munu hafa farið fram bréfaskriftir milli þess félags og Alþýðusambandsins um að setja slík ákvæði sem giltu í Danmörku í svokallaðri „septembersætt“ frá 1899, og að löggjöf væri síðan sett í samræmi við það. Alþýðusambandið færðist undan þessu, sem kunnugt er. Sjálfstfl. bar síðan fram á þinginu 1936 frv. til l. um vinnudeilur, og hefir það frv. síðan verið borið fram á hverju þingi.

Af þessu stutta yfirliti er það ljóst, að Sjálfstfl. hefir barizt fyrir því fyrstur allra flokka, að löggjöf væri sett um þetta efni.

Frv. okkar um vinnudeilur er í öllum atriðum samið eftir gildandi Norðurlandalöggjöf, þó að það sé að nokkru leyti lagað eftir íslenzkum staðháttum.

Í sambandi við ummæli hv. þm. N.-Ísf. VJ, sem ég skal síðar taka til athugunar, vil ég geta þess út af afstöðu Alþfl. 1923 og 1925 til frv. til l. um gerðardóm og vinnudóm, að nú er það svo eins og sá hv. þm., sem fyrstur talaði hér í kvöld, tók fram, að ýmsar þjóðir, og það jafnvel á Norðurlöndum, vilja nú koma í veg fyrir vinnudeilur m. a. einmitt með löggjöf um vinnudeilur. Auk þess má benda á það, að það stóðu fleiri en íhaldsmenn að þeim frv. þá. Loks má benda á það, að hér á þessu þingi í vetur hefir einmitt verið lögfest ákvæði um þetta sama efni, gerðardómsl.; munurinn aðeins sá, að í frv. 1923 og 1925 var farið fram á, að sett yrðu ákvæði um þetta almennt, en í vetur voru samþ. slík l. aðeins viðkomandi einstöku tilfelli. Auk þess hafa flokksbræður hv. þm. N.-Ísf. á Norðurlöndum iðulega sett löggjöf um þetta efni. Sú forsenda rýrir á engan hátt þá réttmætu baráttu Sjálfstfl. fyrir þessu máli.

Afstöðu hinna annara flokka til þess máls hefir hv. þm. V.-Skaft., GSv, að nokkru lýst. Skal ég því vera fáorður um það atriði.

Á Alþ. 1936 hafði hæstv. forsrh., HermJ, þau ummæli, að sér væri ánægjuefni, að þetta frv. væri fram komið, því að sér virtist þannig gengið frá því, að það væri mjög líklegt að því yrði vel tekið af báðum aðiljum. En það var ekki langt að bíða, þangað til þessi hæstv. ráðh. gleymdi þessum ummælum sínum, því að við útvarpsumr. í vor finnur hann þessu frv. það til foráttu, að það sé aðeins till. annars aðiljans. Hygg ég hin fyrri ummæli hans sögð af meiri einlægni en þau síðari, enda var hann í kosningaundirbúningi, þegar síðari ummæli hans féllu um þetta, sem ég tilfærði.

Í stað þess að láta ekki hér lenda við orðin tóm og samþ. okkar frv., tafði Framsfl. málið með því að samþ., að skipuð væri 1936 fjögra manna nefnd til þess að semja frv. um þessi mál, nefnd sem fyrrv. atvmrh., HG, skipaði, án þess þó að atvinnurekendur hefðu þar nokkurn fulltrúa! HG gleymdi því, að það eru a. m. k. tveir aðiljar, sem koma til greina, þegar dæmt er.

Fyrir kosningarnar 1937 bar hv. þm. N.-Þ., GG, fram tvö frv., um sáttatilraunir í vinnudeilum og um félagsdóm, sem voru soðin upp úr frv. okkar sjálfstæðismanna, og væntanlega fram borin í þeim tilgangi einum, að látast gagnvart kjósendum fyrir kosningar. Á þessu þingi hefir Framsfl. enn borið fram frv. það, sem hér liggur fyrir til umr., og er það í öllum atriðum að efni til sama frv. og við sjálfstæðismenn höfum borið fram, enda er það, eins og okkar frv., samið upp úr gildandi Norðurlandalöggjöf.

Það er eftirtektarvert, að hv. þm. N.-Ísf. hefir ekki minnzt á eitt einasta atriði í frv. til þess að reyna að sýna fram á, að okkar frv. sjálfstæðismanna væri að efni til öðruvísi en þetta frv., sem hér er um að ræða.

Framsfl. hefir þannig fallizt á till. okkar, þó að hann hefði ekki manndóm til að samþ. þær strax og þær voru bornar fram.

Þó að þessi afstaða Framsfl. hafi ekki verið stórmannleg. þá hefir þó afstaða sósíalista orðið sýnu aumlegri, því að þeir hafa frá öndverðu barizt gegn þessu máli, eins og þeir hafa getað, og byrjuðu á því að fá hin ýmsu verkalýðsfélög til að gera sumþykkt gegn vinnulöggjöf, sem þeir nefndu „þrælalöggjöf“. Þegar sá flokkur hinsvegar komst að raun um það, að Framsfl. mundi samþ. vinnulöggjöf, hvað sem sósíalistar segðu, var snúið við blaðinu, og það var fyrst á þessu þingi, og kváðust þeir nú vilja fylgja slíkri löggjöf, ef hún veitti verkalýðsfélögunum réttindi. Eins og þeir áður létu verkalýðsfélögin samþ. andmæli gegn vinnulöggjöf. eins börðust þeir nú fyrir því í öllum verkalýðsfélögum landsins, að fá þau til að fallast á vinnulöggjöf. Það verða því harla hlægileg þau ummæli hv. þm. N.-Ísf., að afstaða Sósialista í þessum efnum sé óbreytt. Sósíalistar hafa algerlega skipt um skoðun í þessu máli, og má segja, að það sé vel farið.

Það er þá hinsvegar athugandi, hvort nokkuð það sé í frv. þessu, sem nú liggur fyrir og Sósíalistar samþykkja, sem veiti verkalýðsfélögunum þau auknu réttindi, að það geti réttlætt þina breyttu afstöðu þeirra til málsins, sem frv. er um. Eftir því sem fram hefir komið í umr., er það tvennt, sem ætti að vera þess valdandi. Í fyrsta lagi það, að í 1. gr. frv. stendur, að menn eigi rétt á að stofna stéttarfélög og stéttarfélagasambönd í þeim tilgangi, að vinna sameiginlega að hagsmunamálum verkalýðsstéttarinnar og launtaka yfirleitt, og í öðru lagi, að stéttarfélög hafi rétt til að hafa trúnaðarmann á vinnustöð.

Um fyrra atriðið er það að segja, að það er óþarft ákvæði, af því að í sjálfri stjórnarskránni er mönnum heimilað að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi. Að setja þennan rétt í l. er þess vegna óþarfi. En sósíalistar reyna hinsvegar að skreyta sig með þessu. Þetta var auk þess óþarft sem breyt. frá okkar frv., því að í því er fullkomlega viðurkenndur réttur verklýðsfélaga sem samningsaðilja, og það kemur fram í l. kafla þess frv. Hv. þm. N.-Ísf. sagði í sinni fyrri ræðu, að ástæðan fyrir því, að þetta ákvæði væri sett inn í fyrstu gr. um þennan rétt til að stofna stéttarfélög og stéttarfélagsambönd, væri sú, að verkamenn hefðu áður verið kúgaðir svo fjárhagslega og pólitískt, að þeir hefðu ekki haft rétt til þess að stofna með sér slík félög; þau hefðu verið ofsótt með málaferlum og jafnvel orðið að leysast upp sem gjaldþrota. Mér er nú ekki kunnugt um, að nokkurt verklýðsfélag hafi orðið gjaldþrota. Hafi svo samt sem áður verið, gæti hv. þm. N.-Ísf. nefnt dæmi um það. — Þessi hv. þm. sagði líka, að svo hefði ofsókn verið mikil gegn sósialistum, að jafnvel dómari í hæstarétti hefir átt að segja, að það væri skaði, að ekki hefðu allir sósialistar einn háls, svo að hægt væri að taka af þeim úllum hausinn í einu.

Ef það væri satt, sem hv. þm. N.-Ísf. sagði viðvíkjandi því, að stéttarfélag eða stéttarfélagasambönd hefðu orðið að hætta starfsemi vegna gjaldþrots, þá er ákaflega undarlegt, að þessi hv. þm. er búinn að sitja á Alþ. í mörg ár, án þess að hann eða hans líkar á þingi né heldur flokksblað þeirra hafi í eitt einasta sinn komið fram með nokkru till. í þá átt, að tryggja þennan rétt, sem þeir nú vilja tryggja þessum félögum. Nei, þetta er aðeins veik tilraun sóslalista til þess að réttlæta þann snúning, sem átt hefir sér stað hjá þeim gagnvart þessari löggjöf, að þeir telja þetta ákvæði 1. gr. réttarbætur.

Að því er snertir hitt atriðið, að stéttarfélög megi hafa trúnaðarmenn á vinnustöðvum, þá er það atriði. sem er ekki óalgengt og enginn atvinnuveitandi hefir sett sig á móti né mundi setja sig á móti. Hitt sýnir hinsvegar þröngsýni Sósíalista, þegar þeir vilja ekki fallast á það, að verkamenn sjálfir velji sér slíka trúnaðarmenn, en þeir hafa fellt till. frá okkur sjálfstæðismönnum þess efnis.

Í frv. Framsfl., sem hér liggur fyrir, er vald sáttasemjara rýrt, frá því sem var í frv. okkar sjálfstæðismanna, þannig, að sáttasemjari getur eftir þessu frv. ekki bannað vinnustöðvun ákveðinn tíma, og sá frestur, sem á að líða frá ákvörðun um vinnustöðvun til þess er hún hefst, er styttur í frv. Framsfl., frá því sem er í okkar frv. Bæði þessi ákvæði eru til spillis málinu, og mun það Sýna sig, að þessum ákvæðum verður síðar breytt. Í stýrimannadeilunni, sem nú stendur yfir. var það svo, að þegar eitt skip Eimskipafélags Íslands, Brúarfoss, átti að fara héðan á ákveðnum tíma, farþegar voru komnir um borð og allt slíkt fullbúið undir burtför skipsins, þá fréttist, að stýrimennirnir ætluðu ekki að vinna áfram, og vinnustöðvunin hófst samstundis, án nokkurs fyrirvara gagnvart farþegum né öðrum, sem ætluðu að nota ferð skipsins, og án þess að nokkur fyrirvari væri gefinn útgerðarfélaginu eða vissa um, að stýrimennirnir hefðu þetta í hyggju. Jón Axel Pétursson, sem vitað er, að hefir staðið fyrir því, að þessi deila yrði hafin, hefir sjálfsagt ekki verið búinn að átta sig á þessum rökum, sem hv. þm. N.-Ísf. hafði fram að fær, eða búinn að fá fullan skilning á þeim, því að hv. þm. N.-Ísf. var að tala um hina hægfara, áhlaupalausu baráttu fyrir bættum kjörum. Þetta stýrimannaverkfall var hafið þannig alveg fyrirvaralaust, enda þótt l. mæli svo fyrir, að stýrimenn skuli segja upp vinnusamningum sínum með fyrirvara gagnvart útgerðinni. Og ég hygg nú, að það geti enginn mælt þessu framferði bót, og að menn séu ekki svo blindir, að þeir sjái ekki, að slíkt framferði er til fjóns fyrir þjóðina og þá, sem að þessu standa alla, að enginn fyrirvari er gefinn. Það mun því sýna sig, að Framsfl. hefir ekki bætt þetta frv., heldur hefir frv. skemmzt við það, að þetta ákvæði um frestunina var ekki haft eins og í okkar frv., heldur tekið út úr því.

Það er svo, að það er engu síður til hagsbóta fyrir verkalýðinn heldur en fyrir atvinnuveitendurna. að gerðar séu ýtrustu tilraunir til sátta og að sáttasemjari geti stöðvað vinnustöðvun í örfáa daga, ef hann sjálfur álítur, að slíkur frestur geti varnað endanlegri vinnustöðvun. Það er vitað, að þeir menn, sem eiga sitt pólitíska vald undir því, að auka vandræðin í þjóðfélaginu og æsa verkalýðinn upp, þeir vilja ekki tallast á nein ákvæði. sem hefðu þetta. Þeirra pólitíska vald vex við það, að efnaleg afkoma almennings minnkar.

Þessi breyt. til hins verra á frv. er því síður en svo til þess að réttlæta snúning sósíalista í þessu máli, a. m. k. ekki, ef að þeir í rann og veru bæru hag almennings fyrir brjósti, en ekki fyrst og fremst sinn eigin hag. Byltingaflokkur kommúnista er sjálfum sér trúr, þegar hann berst gegn öllum slíkum umbótum, sem í þessu frv. felast.

Bæði þetta frv. og frv. okkar sjálfstæðismanna eru samin eftir gildandi Norðurlandalöggjöf, og það er víst, að ef okkar frv. um vinnudeilur er frv. til „þrælalaga“, þá er þetta frv. engu síður „þrælalöggjöf“, og afstaða sósíalista hefði því átt að vera óbreytt gagnvart þessu máli frá upphafi til enda.

Frv. hv. þm. N.-Þ., GG, frá þinginu 1937, um sáttatilraunir í vinnudeilum og félagsdóm, eru svo að segja orðrétt tekin upp í það frv. um stéttarfélög og vinnudeilur, sem hér liggur fyrir til umr., en við það er bætt kafla um réttindi stétturfélaga og afstöðu þeirra til atvinnurekenda, og um verkföll og verkbönn, en um þau frv. sögðu sósialistar 7. apríl 1937, að þessi frv. væru samin upp úr þrælalagafrv. Eggerts Claessens. og Stefán Jóhann Stefánsson sagði þá í útvarpsumr., að það frv. væru uppsuða úr frv. Sjálfstfl., óköruð og lítið athuguð.

Mér er nú spurn: Hafi þessi frv. verið uppsuða úr „þrælalagafrv.“ Sjálfstfl., — hvernig mega þá sósíalistar una við þessi sömu ákvæði, þegar þau enn á ný eru prentuð upp og þeim útbýtt hér? Óttinn við Framsfl. til hægri og við það, að fá ekki lengur né geta ekki hangið saman við Framsfl. um að standa að ríkisstj., ef ekki er látið að vilja Framsfl. í þessu efni, og svo kannske snefill af sannfæringu um, að hér sé um gott mál að ræða í raun og veru, mun vera að nokkru rök fyrir þessum snúningi sósíalista.

Sjálfstæðismenn mega vel við una þessa lausn málsins, þar eð frv. — eins og það mun verða samþ. — í öllum aðalatriðum er að efni til samhljóða okkar frv. og því, sem við höfum barizt fyrir. Sjálfstfl. fagnar því einnig, að sósíalistar snúast í þessu máli. Hér skiptir minna máli, og við því verður ekki gert, að kommúnistaforsprakkarnir reyna að beita sér gegn málinu, en það er víst, að þeir eru í þessu máli mjög fylgislausir. Ummæli hv. 3. landsk., Ís1H, um, að allþýðan í landinu sé þessu frv. mótfallin og á móti Sjálfstfl. í þessu máli eru á engum rökum byggð. Hinsvegar má færa fram sannanir fyrir því, að þetta er rangt, því að afstaða Sjálfstfl. til þessa máls hefir alltaf verið ótvíræð. Hann hefir enga dul dregið á það, að hann hefir ætlað að bera þetta mál fram til sigurs. Afstaða hans í þessu máli var því öllum ljós, þegar gengið var til kosninga til Alþ. síðast. Og það er talandi tákn um afstöðu verkalýðsins og sjómanna til þessa máls sérstaklega, að aldrei hefir fylgi Sjálfstfl. verið meira en við síðustu alþingiskosningar, og það má því segja, að að vissu leyti hafi verið kosið um þetta mál, því að það segir sig sjálft, að verkalýðurinn og sjómennirnir hefðu ekki fylkt sér undir merki Sjálfstfl., vitandi það, að þeir mundu fylgja fram þessu máli eftir kosningar, ef alþýðan hefði ekki getað fellt sig við slíka lagasetningu.

Mér dettur alls ekki í hug að ætla það, að vinnulöggjöf varni í öllum tilfellum vinnustöðvunum. Frv. eykur hinsvegar aðeins möguleikann til sátta og samkomulags með því að gefa sáttasemjara nokkru frekari íhlutunarrétt um fyrirhugaðar vinnustöðvanir, og með því að ákveða, að þær séu ekki gerðar fyrirvaralaust.

Ekkert ákvæði er hinsvegar í þessari löggjöf um það, að gerðardómur, og því siður félagsdómur, geti kveðið upp úr um kaupkjör fólks. Félagsdómur dæmir aldrei um vinnukjörin. heldur aðeins um það, hvort vinnusamningar séu brotnir eða ekki. Bæði vinnuveitendur og verkalýðurinn hefir, þrátt fyrir þessa lagasetningu fullan rétt til að gera verkfall eða verkbann. Hinar tíðu vinnustöðvanir og hatrömu vinnudeilur hafa hinsvegar komið af stað efasemdum margra um það, hvort ekki væri rétt að setja ákvæði um gerðardóm í vinnudeilum í l. Sjálfstfl. vill ekki ganga þá leið. Hann vill til hins ýtrasta leita leiðar sættarinnar og samkomulagsins; og það er víst, að það er aldrei nema örþrifaráð, ef löggjafarvaldið þarf að kippa í taumana með slíkum gerðardómi. Í þessu lagafrv. er verið að gera hvorttveggja í senn, að auka rétt vinnuveitenda og verkalýðs til þess að mega og eiga að vinna í friði og samkomulagi, og jafnframt er verið að gæta hagsmuna þjóðarheildarinnar með því að ákveða, að ríkisvaldið, með íhlutun sáttasemjara, geri ýtrustu tilraunir til samkomulags aðiljanna, en þess er þó jafnframt gætt, að báðir aðiljar hafi eftir sem áður fullt vald yfir sínum málum og geti hafið vinnustöðvanir, ef annað þrýtur.