03.05.1938
Efri deild: 60. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1000 í B-deild Alþingistíðinda. (1362)

95. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti! Úr því að umr. hafa nú hafizt við þessa umr. um þetta mál, þá tel ég ekki rétt, að hér hafi einn orðið. Hv. 1. landsk. hefir náttúrlega, eins og við mátti búast, gert sína tilraun til þess að gagnrýna frv., og þykir mér rétt að svara honum nokkuð, og ekki síður tek ég hér til máls fyrir það, að ég hefi ekki áður haft tækifæri til að tala opinberlega í þessu máli. En eins og kunnugt er, hefi ég ekki farið varhluta af því, að ég sé við málið kenndur, þar sem ég var einn af 4 nm. við undirbúning og samning þessa frv., enda hefir í blaði hv. 1. landsk. óspart verið að því sveigt, að kenna þetta frv. við mitt nafn, og hefir það sennilega átt að vera mér til hnekkis, að svo miklu leyti sem þeim hefir tekizt að gera málið tortryggilegt í augum almennings. En það mun engan undra, þó að kommúnistarnir reyni að að nota þetta mál til þess að reyna að knésetja mig eða aðra alþýðuflokksmenn. Það hefir ætíð verið þeirra stefna frá byrjun, að þeir hafa lýst sig mótfallna öllu, sem kallað er regla um vinnudeilur og hvernig þeim skuli haga hér á landi. Þetta er náttúrlega ekkert undarlegt út frá þeirra sjónarmiði. Þetta eru menn, sem alltaf risa upp á móti öllum l. og reglum í borgarlegu þjóðfélagi, ef þær brjóta í bága við þeirra skoðanir. Þetta er hin sannkallaða byltingastefna. Ég verð að taka undir orð, sem ég heyrði einhvern hv. þm. segja, að ég veit ekki, hvað slíkir menn eiga að gera hér á Alþ., — menn sem vitandi vits telja alla löggjöf vitleysu og berjast á móti l., sem þjóðfélagið setur. Ég gæti talað hér langt mál, ef ég hefði búið mig undir það, um það, sem heitir reglur um vinnudeilur, en ég skal aðeins áður, en ég fer inn á að svara þeim tylliástæðum, sem hér hafa verið fluttar gegn frv., benda hv. 1. landsk. á það, að reglur um vinnustöðvanir eru nú til í hverju einasta menningarlandi í heiminum, og jafnvel í þeim löndum, sem standa ennþá lægra en við í menningarstiganum. Jafnvel í Rússlandi er vinnulöggjöf. Ég hefi að vísu ekki hér í höndunum, hvernig sú vinnulöggjöf er, en ég veit það af ritum, sem ég hefi um þetta lesið, að þar eru til reglur um það, hvernig menn skuli bera sig til í vinnudeilum. Hinsvegar veit ég, að í Rússlandi er það yfirleitt svo, að allar vinnudeilur eru kveðnar niður, af þeim skiljanlegu ástæðum, að það er ríkið, sem á öll atvinnufyrirtækin. En mér er vel kunnugt um, að í ýmsum iðngreinum Rússlands hafa risið vinnudeilur, og hafa þær verið kveðnar niður með hinu pólitíska valdi, sem ríkir í Rússlandi, svo að Rússar eru ekki undanskildir í því, að hafa vinnulöggjöf.

Þau lönd, sem eru talin vera komin lengst á vegi lýðræðis og frelsis, eins og Norðurlönd, eiga við miklu þrengri vinnulöggjöf að búa en það frv. gerir ráð fyrir, sem hér liggur fyrir. Ég skal játa það, að þær reglur, sem gilda þar, eru settar af borgaraflokkunum, meðan þeir höfðu yfirgnæfandi meiri hl., en þó í öllum aðalatriðum í nokkru samkomulagi við verkalýðsflokkana. Það var eitt land, sem gekk einna lengst í áttina á móti verkalýðnum í þessu efni. Það var Noregur. En af hverju var það? Það var vegna þess, að norski verkalýðurinn var svo veikur um þessar mundir af völdum kommúnistanna. En nú eru kommúnistarnir þar að mestu úr sögunni, og hafa síðan fengizt á þessari löggjöf nokkar umbætur þar í landi. Hvernig er svo afstaða kommúnistanna í þessum löndum til vinnulöggjafarinnar? Mér hefir gefizt kostur mánaðarlega að fá rit fagfélaga, sem kommúnistar ráða, og ég hefi ekki orðið var við, að þeir á nokkurn hátt risi upp á móti þessari löggjöf, sem yfirleitt gildir í þessu efni á Norðurlöndum. Það má ef til vill segja, að þeir séu orðnir svo vanir að búa undir henni. En það er annað, sem gerir þetta að verkum. Hún hefir skapað öryggi fyrir báða aðilja. Ég ætla mér ekki að fara mikið nánar út í samanburð á löggjöf Norðurlanda, en snúa mér að því, sem hann var að reyna að gagnrýna í þessu frv.

Ég ætla þá að snúa mér að fyrsta atriðinu, skyndiverkföllunum. Ég verð að nota sömu orðin og hv. 1. landsk., þó að þau séu ekki þingleg. Ég verð að telja það hringavitleysu, að skyndiverkföll séu bönnuð eftir frv. Þessu er hann sí og æ að tönglast á. Og það er alveg eins og lýgin verði gómsætari í munni þeirra. sem oftast endurtaka hana. Það stendur sem sé skýrt í frv., að hinn almenni 7 daga frestur eigi aðeins við um þær deilur, sem risa út af ágreiningi um kaup og kjör. Þessi frestur er bundinn við þær deilur og aðrar ekki. Ef skyndiverkfali þarf að gera, t. d. ef útbúnaður á vinnustað er ekki í lagi, þá er slíkt verkfall fullkomlega leyfilegt eftir því frv., sem hér liggur fyrir. Hitt er rétt, að það er bannað að gera verkfall út úr því, sem samkvæmt samningi beint heyrir undir félagsdóm að úrskurða um. Ég get nú upplýst hv. 1. landsk. um það eftir langa reynslu af verkalýðsmálum, að það mun í mörgum tilfellum verða handhægt og heppilegt að fá úr skorið fyrir verkamenn um ýms atriði þeim að kostnaðarlausu. Það hafa komið fyrir tilfeili, þar sem menn hafa fallið frá minniháttar kröfum á hendur atvinnurekenda bara af því, að það hefir verið svo dýrt að reka slík mál fyrir almennum dómstólum. Nú er hægt að leggja slíkar deilur undir félagsdóm, verkamönnum að kostnaðarlausu. Er þetta ekki réttarbót? Ég er ekki í vafa um, að dómurinn verður til bóta, hvað þetta snertir.

Þá er það annað atriði, sem hv. 1. landsk. gerir að miklum ásteytingarsteini. Hann segir, að minni hl. eigi að ráða yfir meiri hl. um úrslit mála, sérstaklega um till. sáttasemjara. Það má um þetta segja, að venjulega er það hending ein, hvað margir það eru, sem binda enda á úrslit mála, jafnvel þó um launadeilu sé að ræða. Og oft er það svo, að það hefir verið örlítill hluti félagsmanna, sem hefir komið þar til skjalanna, og ég skal játa, að sú regla hefir gilt, að einfaldur meiri hl. hefir ráðið úrslitum. Um þetta hafa á Norðurlöndum skapazt miklu þrengri reglur. Ég verð að segja, að gagnrýnin á ákvæðum frv. um þetta er hreint og beint bara til að finna sér eitthvað til. Ég hefi nú nokkra reynslu í þessum efnum og ætla að segja hv. 1. landsk. það, að Sjómannafélag Reykjavíkur hefir háð langharðvítugustu og tíðustu launadeilurnar, sem hér á landi þekkjast, og sú regla, sem hér er sköpuð, hefir aldrei komið í bág við það. sem framkvæmt hefir verið á hverjum tíma, og höfðum við þó enga vinnulöggjöf. Þetta er nú öll hættan, sem hér er á ferðinni fyrir verkalýðinn, hvað þetta atriði snertir, og sjá allir, að hér er einungis um blekkingu að ræða.

Í sambandi við skyndiverkföllin sagði hv. 1. landsk., að það væri daglegt starf að stöðva vinnu út af samningsrofum. Ég hefi nú lifað í þessum bæ, eins og hv. 1. landsk., síðan samtökin mynduðust í byggingariðnaðinum, og ég hefi satt að segja ekki orðið var við, að þar færu fram vinnustöðvanir daglega. En hitt kann vel að vera, að oft hafi gengið treglega um greiðslu af hálfu þeirra manna, sem fyrir byggingunum standa, og má náttúrlega kalla það samningsrof. En nú er það vitanlegt, að verkamenn hafa lög um greiðslu vinnulauna, sem náttúrlega eru mikil trygging. Og ef um samningsrof væri að ræða, þá myndi dómstóllinn tvímælalaust skylda viðkomandi atvinnurekanda til þess að borga hið lögmæta kaup, og verkalýðurinn myndi einskis í missa, þótt hann legði ekki niður vinnu út af slíku, en það er einmitt af því, að ekki hefir verið til löggjöf um þetta, að verkalýðurinn hefir oft og einatt gripið til vinnustöðvana. En félagsdómur myndi að sjálfsögðu dæma slíkt sem lögbrot og atvinnurekendur til þess að greiða hið lögmælta kaup. Og í því er einmitt öryggið fólgið fyrir verkalýðinn, því að hvernig sem maður annars lítur á samansetningu dómsins, þá er engin ástæða til að ætla, að hann ekki dæmi rétt og óhlutdrægt í þeim efnum.

Þá kom hv. 1. landsk. að pólitísku verkföllunum. Það er afarskiljanlegt, frá hans sjónarmiði, að hann vilji hafa leyfi til þess að ýta mönnum í deilur gegn ríkisvaldinu, vegna þess að hann samkv. sinni stefnu vill ekki lúta neinum lögum, sem sett eru af hinum svo nefndu borgaralegu flokkum. Nú er það reynsla nágrannaþjóða vorra, sem komið hafa á hjá sér löggjöf, sem verkalýðurinn hefir verið á móti, að hann hefir ekki gengið gegn henni með gauragangi og verkföllum, heldur hefir hann styrkt sín samtök og reynt að afla sér sem flestra fulltrúa inn á löggjafarþing þjóðanna. Enda er það reynsla þeirra þjóða, sem við höfum kynni af, að verkalýðurinn hefir ekki getað komið fram slíkum verkföllum sér til hagsbóta. Hann hefir alltaf legið í þeim, ef svo mætti að orði komast. Hinsvegar er hér ekki bannað að gera mótmælaverkföll, sem venjulega standa stutt, hálfan eða heilan dag, sem einungis eru til þess að mótmæla einhverjum hlut, en ekki til þess að hafa áhrif á eða koma í veg fyrir löggjöf, sem kann að hafa verið sett.

Hv. 1. landsk. vitnaði í þessu sambandi í benzínverkfallið, sem allir vita, að var verkfall gegn löggjöf, sem Alþ. hafði sett á sínum tíma, og var blásið mjög verklega undir það af þessum hv. þm., sem þá gerði sálufélag við annan flokk hér í bænum, sem svona undir niðri hafði augnabliksinteressu af því, að vera á móti settri löggjöf. En ég sá nú ekki, hvað spratt upp úr því verkfalli, því að búið var að veita viðkomandi mönnum, áður en verkfallið hófst, frjálsan innflutning á benzíni. — Í þessu sambandi má einnig minnast á annað verkfall, sem var pólitísks eðlis. þ. e. a. s. hið svo kallað mjólkurverkfall. Ég sé nú heldur ekki, að neitt hafi unnizt á því. Og til hvers er þá að vera að leyfa slík verkföll, þegar reynslan er sú, að ekkert er á þeim að græða, og þau eru þar að auki hrein og bein uppreisn gegn lögum þjóðfélagsins? Það eru heldur ekki aðrir en kommúnistar, sem aðhyllast þessa stefnu. Verkamenn á Norðurlöndum, sem búnir eru að hrista af sér lúsina, kommúnismann, tala ekki lengur um svona verkföll.

Þá kom þ að kynduglega fram hjá hv. 1. landsk., að með því að leyfa ekki pólitísk verkföll, væri verið að innleiða fasisma. Ég hefði nú gaman af að heyra hv. þm. rökstyðja þetta betur. Ég hélt nú satt að segja, að það væri til þess að innleiða fasisma, að risa upp á móti lögum og landsrétti, því að þegar menn finna, að risið er upp gegn þeirri löggjöf, sem þeir á annað borð hafa komið í gegn, þá er ekkert, sem kemur frekar upp í huga þeirra heldur en einmitt einræði, — fasismi. En það, að framkalla fasisma, er einmitt það æskilegasta í augum kommúnista, því að þess fyrr kemur byltingin, segja þeir. —

Hv. 1. landsk. sagði, að hér væri um afnám verkfallsréttarins að ræða. Ég hefi nú verið starfandi um 23 ára skeið meðal verkalýðshreyfingarinnar. og ég hefi aldrei orðið var við það, að menn vildu hafa verkfalisréttinn til þess að rísa upp á móti landslögum. heldur til þess að knýja fram sínar hagsmunakröfur um kaup og kjör. —

Þá var það eitt atriði, sem hv. 1. landsk. vitnaði í og sagði, að væri einn af stærstu ágöllum frv., sem sé það, að hægt væri að ræna sjóði verkalýðsfélaganna, enda þótt gerð hafi verið nokkur bragarhót þar á í hv. Nd. En ég vil bara spyrja þennan hv. þm. Hvar er vernd fyrir sjóði verkalýðsfélaganna nú? Ég veit ekki betur en að hægt sé að ganga að öllum þeirra eignum. En sem betur fer, hefir það ekki komið fyrir nema í mjög litlum mæli, því að það virðist svo sem að reynt hafi verið að forðast að ganga inn á hagsmunasvið þeirra. — En þrátt fyrir það, er það nú svo, að hægt er að ganga að öllum eignum félaganna. — Nú skal ég játa, að ég fyrir mitt leyti hefði viljað, að hægt hefði verið að undanskilja allt, en þá eru sektarákvæðin alveg óþörf. Og frá sjónarmiði margra er það einmitt hyggilegt, að eitthvað sé til varnaðar, þannig að ekki sé hætta á, að verkalýðsfélögin leiki sér að lögbrotunum. En ég vil benda hv. þm. á það, að á Norðurlöndum er ekki eitt einasta orð um það í vinnulöggjöfinni, að ekki sé hægt að ganga að öllum þeirra eignum. Við erum þetta fremri, að við undanskiljum sjúkrasjóði, menningarsjóði, fundarhús og annað slíkt. En nú er það svo, að enda þótt heimilt sé á Norðurlöndum að ganga að öllum eignum verkalýðsfélaganna. þá mun það sjaldnast gert. Atvinnurekendur í Noregi t. d. segja, að þýðingarlaust sé að dæma verkalýðsfélögin í sektir og gera aðför hjá þeim, því að það sé yfirleitt ekkert, sem náist. En þar sem atvinnurekendur í Noregi eru yfirleitt miklu herskáari heldur en í hinum löndunum, þá hefði nú mátt ætla, að þessu hefði verið beitt, en það er svo merkilega litið, sem slíkt hefir komið fyrir. enda hefir verkalýðurinn þar staðið nokkuð kaldrifjaður fyrir því, þótt sjóðir félaganna væri ekki verndaðir með lögum. — Við göngum því, hvað þetta snertir, mikið lengra heldur en frændþjóðir vorar.

Þá kem ég að skipun dómsins, sem vitanlega má alltaf um deila. Ég skal játa það, að í Danmörku er dómurinn í raun og veru skipaður sem gerðardómur, þar sem aðiljar skipa sinn helminginn hvor, og síðan valinn einhver hlutlaus og hæfur oddamaður. Nú er það í raun og veru svo um slíkan dóm, að dómsniðurstaðan veltur á einum manni, og er það af réttarfræðingum talið vafasamt að rétt sé að leggja svona mikið vald í eins manns hendur. — Í Noregi er þetta nokkuð á annan veg. þar sem dómurinn er meir skipaður af hálfu ríkisstjórnarinnar. Og var hér að sjálfsögðu farin millileið í þessum efnum. Okkur blandast ekki hugur um, að dómur eins og sá í Danmörku myndi ekki njóta trausts, og við gátum heldur ekki fengið hann þannig skipaðan, að verkalýðurinn ætti þar meiri hluta, enda skil ég ekki, hvernig hv. 1. landsk. getur látið sér detta slíkt í hug. á meðan verkalýðurinn ekki á fleiri fulltrúa hér á Alþ. Þess vegna fórum við inn á þá leið að láta þá stofnun, sem á að vera sú hlutlausasta stofnun hér á landi, skipa tvo menn í dóminn, og síðan tilnefna þrjá menn, en af þeim á atvinnumrh. að ryðja tveimur. Er þá fenginn meiri hl. í dóminn. Atvinnurekendur og Alþýðusamband Íslands eiga svo að skipa sinn manninn hvort. — Þetta er nú skipun dómsins, og ég hefi ekki heyrt hv. 1. landsk. koma með neina tillögu, sem á nokkurn hátt væri frambærilegri. Og ég er heldur ekki í neinum vafa um, að þetta fyrirkomulag gefur meira öryggi heldur en t. d. gerðardómurinn í Danmörku, sérstaklega þegar tillit er tekið til þess, hvað dómurinn á að dæma um. Hann á sem sé aldrei að dæma í hagsmunaágreiningi, heldur einungis í réttarágreiningi.

Þá fór hv. 1. landsk. út í I. kafla frv. og reyndi að gera hann sem tortryggilegastan, og sagði, að hann hefði í raun og veru ekkert það í sér fólgið, sem til ágætis mætti telja. — Það vill nú svo til, að í Norðurlandalöggjöfinni er ekkert til, sem er hliðstætt þessum kafla. Og svo segir hv. þm.: „Hvers virði eru þessi ákvæði? Við höfum haft samningsréttinn“, o. s. frv. Já, það er nú svo. Við höfum í gegnum 20 ára baráttu fengið atvinnurekendur til þess að semja við okkur í mörgum tilfellum, en hitt vitum við, að það hefir kostað átök fyrir ung félög að fá sig viðurkennd af hálfu atvinnurekenda. Og sama sagan hefir gerzt á Norðurlöndum. Það eru ekki nema 2 ár síðan að fiskimannastéttin í Noregi lagði alla áherzlu á að fá sig viðurkennda sem samningsaðilja hjá atvinnurekendum upp á það að semja um það, sem áður hafði gilt! Svo mikið lögðu þeir upp úr því, að fá atvinnurekendur til þess að viðurkenna sig sem réttan aðilja til þess að semja. Og þetta átti sér stað í landi, þar sem verkalýðshreyfingin er í mjög hröðum og örum vexti og mjög þróttmikil eins og stendur. — Hér er það svo, að ekki er hægt að taka þennan rétt af mönnum. Þeir hafa rétt til þess að stofna sín félög. Það er vitanlega hægt fyrir löggjafarvaldið á hverjum tíma að túlka ákvæði stjskr. um það, að menn eigi rétt á að stofna með sér félög, á þann hátt, að það gildi ekki um hagsmunafélög. En með samþykkt þessa frv. er búið að binda þetta með lögum, að hver einasti verkamaður hefir löglegan rétt til þess að mynda samtök, og um leið og búið er að mynda slík samtök, hljóta atvinnurekendur að vera knúðir til þess að viðurkenna þau sem réttan aðilja til að semja við. Það er því hrein og bein fjarstæða að halda því fram, að hér sé um hégóma að ræða. — Ég þykist vita, að hv. 1. landsk. hafi lesið verkalýðssöguna, en þar má sjá. að það hefir kostað hina harðvitugustu baráttu fyrir verkalýðinn að fá sig viðurkenndan sem löglegan samningsaðilja, og það veit hv. þm., að í þeim löndum, sem eru hálffasistísk, hefir verið reynt að taka þennan rétt af þeim. Og svo kemur hann og segir, að þetta ákvæði sé einskis nýtt. Ég hafði nú satt að segja haldið, að þessi hv. þm. hefði sæmilega dómgreind, enda er þetta sprottið af öðrum hvötum. Þetta er tilraun hjá honum til þess að færa hlutina til verri vegar, af því að hann álítur, að það sé pólitískur hagnaður að því. —

Þá kom hv. 1. landsk. næst að trúnaðarmönnunum og vildi gera lítið úr ákvæðinu um þá. Ég verð nú að segja það, að ég hefi ekki séð í blaðsnepli þessa hv. þm., sem allt reynir að rifa og tæta niður, sem gert er af hinum svo kölluðu .,krötum“, skammazt út af því, þegar Dagsbrún kom því ákvæði inn í samninga við atvinnurekendur, að mega setja trúnaðarmenn á vinnustöðvarnar. Þessu var fyrst komið inn í samningana um hið mikla verk við Sogsvirkjunina. Og ef þar hefði valizt annar maður en kommúnistafífl.— sem nú er orðinn nazisti —, þá hefði hann getað unnið þar mjög mikið þarfaverk. Ákvæðin um trúnaðarmennina eru komin inn hjá Norðurlandaþjóðunum, og var lengi barizt um það í Danmörku að fá slíkan trúnaðarmann. Ég minnist þess, að fyrir nokkrum árum, þegar talað var um að fá slíkan mann á siglingaflotann danska, ætluðu atvinnurekendur hreint að rifna. En hvernig er þetta nú. Nú þykir hann sjálfsagður. En mér skildist á hv. 1. landsk., að honum þætti þetta lítils virði. Ég hefi nú samt þá trú, að ef góður maður velst til þess starfa, þá fæst fljótt leiðrétting. Ég hefi bent á, að Dagsbrún hefði lagt mikið upp úr þessu atriði, en þegar við fórum þess á leit við félag ísl. botnvörpuskipaeigenda að fá slíkan trúnaðarmann, fengum við þvert nei. Heldur hv. 1. landsk., að það hafi verið af umhyggju fyrir verkalýðnum? Nú er þetta ákvæði í frv., að trúnaðarmaðurinn á að koma, og ég skal bæta því við, að í Danmörku er trúnaðarmaðurinn valinn á vinnustöðinni. Þetta var líka gert við Sogið, og því var kommúnistafíflið valið þar. Nei, þó að hv. þm. vilji láta líta svo út sem örðugt verði að fá trúnaðarmann í togara, af því að enginn mundi vera öruggur í sínu plássi, þá er það hinn mesti misskilningur. Ef honum er sagt upp starfinu, verða atvinnurekendur að gera grein fyrir því, af hverju hann er látinn fara. Mér er auðvitað kunnugt um, að menn hafa verið látnir fara úr starfi sínu vegna pólitískra skoðana. En með þessu ákvæði, sem hér er um að ræða, er tryggt, að þó að maður hafi jafnvel kommúnistaskoðnir, er ekki hægt að reka hann fyrir það eitt. Það má vel vera, að verkalýðsfélögin noti sér þetta ekki strax, en þau munu gera það.

Það mundi taka mig langan tíma að fara út í það, hverjir hafa mælt með og móti frv., en ég veit. að meiri hluti verkalýðsfélaganna hefir mælt með því. Það skyldi engan undra, þó að félögin óskuðu eftir breyt. Ég þekki enga löggjöf, sem fram hefir verið borin á Alþ., að ekki hafi komið óskir um breyt. frá þeim, sem við löggjöfina áttu að búa. En í samþykktum verkalýðsfélaganna er tónninn sá, að þau vilja, að löggjöfin komist á, og telja mikinn ávinning, ef það gæti orðið.

Hv. þm. talaði eins og einu félögin væru Dagsbrún, Hlíf og Þróttur á Siglufirði. Með allri virðingu fyrir þessum félögum verð ég að segja það, að sem betur fer er verkalýðshreyfingin víðtækari. En hvað skeður þarna? Það hefir ekki verið leitað eftir því hjá 75% af mönnum í Dagsbrún, hvað þeir segðu um vinnulöggjöf. Það er nú eini kostur kommúnistanna, að þeir eru duglegir að smala mönnum á fundi, enda fór þarna hjörðin eftir hirðunum og allir mótmæltu. En hvað segja 75% af Dagsbrúnarmönnum? Og svo fengu kommúnistarnir HV í lið með sér, mann sem allir vita, að var með þessari löggjöf. Á sömu leið fór í Hlíf. Það var boðað til fundar á laun í Hafnarfirði. Þar mættu örfáir menn, og þeir mótmæltu allir. Slíkar samþykktir eins og þetta í víðtæku máli er ekki hægt að byggja neinar höfuðskoðanir á. Félag það, sem ég veiti forstöðu, telur 1200 meðlimi, og mér er kunnugt um, að mikill meiri hluti þeirra telur þessa löggjöf stóran ávinning. En að málið hefir ekki verið tekið fyrir, stafar af því, að meðan deilur voru upp í félaginu í vetur, vildi ég ekki taka fyrir annað eins mál og þetta. Allir vissu, að þegar sú deila var leyst, fór allur þorri félagsmanna á sjó, og því var ekki ástæða til að taka málið fyrir í félaginu. Þetta er sú sanna ástæða. Ég vildi ekki kljúfa hugi manna, á meðan á togaradeilunni stóð, því að ég vissi, að útsendarar hv. 1. landsk. voru þarna tilbúnir til að spilla friðnum.

Ég hefi þá í aðaldráttunum hrakið það, sem hv. 1. landsk. fann að frv. Okkur gefst. kostur á við 2. og 3. umr. að ræða málið nánar, og mun ég þá enn halda fram minni sannfæringu í þessu máli, að hér sé um mikil réttindi að ræða handa verkalýðnum, og reglur frv. sniðnar eftir okkar staðháttum. Það er sannarlega ekki tekinn af mönnum verkfallsrétturinn, því að 7 daga frestur er gefinn. Ég hygg því, að allur þessi hávaði og gauragangur í kommúnistum sé ekki af umhyggju fyrir verkalýðsfélögunum, heldur einungis pólitískir hagsmunir flokksins. Þeirra eina von til að lifa er að nærast á byltingarbrölti og fordæma allar reglur hjá siðmenningarþjóðum, vegna þess að þá telja þeir, að fóðrið sé horfið, sem snakkurinn lifir á.