09.05.1938
Efri deild: 69. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1018 í B-deild Alþingistíðinda. (1366)

95. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

*Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Herra forseti! Allshn. hefir haft þetta mál til meðferðar á nokkrum fundum og lesið frv. rækilega, ásamt grg. þeim, er því fylgja. Brtt. við frv. hefir n. ekki gert. Þó kom það fram hjá hv. sjálfstæðismönnum í n.. að þeir vildu hafa óbundnar hendur í því efni, og geri ég ráð fyrir, að þeir flytji einhverjar brtt. við þessa eða 3. umr. Hinsvegar töldu þeir sig mundu geta fylgt málinu, þó að það yrði að ganga fram breytingalaust. Aftur telja hinir þrír nm. ekki rétt að vera að leggja fram brtt., þar sem vitanlegt er, að málinu er ætlað að ganga fram á þessu þingi, en brtt. myndu hinsvegar verða því til tafar. Enda er svo frá málinu gengið af hálfu þeirra flokka, er að því standa, að ekki ern líkur til, að samkomulag gæti orðið um brtt., er fram kynnu að koma. Því hefir n. fyrir sitt leyti lagt til, að frv. verði samþ. óbreytt.

Ég hygg, að ég hafi ekki fleira að segja fyrir n. hönd. En eins og kunnugt er, hefir þetta mál vakið mikið umtal og að vissu marki nokkurn andróður. Ég gerði grein fyrir því við 1. umr., á hverjum rökum sá andróður væri byggður. En ég vil þó hér stikla á efni frv. í aðalatriðum.

I. kafli er um réttindi stéttarfélaga og afstöðu þeirra til vinnuveitenda. Í 13. gr. er fjallað um þau atriði, er snerta réttindi félaganna. Hér eru ýms nýmæli á ferðinni, sem ekki hafa áður verið til í íslenzkum l., og veita þau þessum félögum fyllri réttindi en þau hafa áður búið við. Það má reyndar segja, að sú hefð sé komin á, að menn eigi rétt á því að mynda stéttarfélög til hagsmunabaráttu, en hins ber að gæta, að ávallt er hægt að koma í veg fyrir það, t. d. með því að setja löggjöf á móti því, eða með því, að atvinnurekendur beiti öllu bolmagni sínu til þess á annan hátt að koma í veg fyrir þetta. Eru dæmi þessa til meðal erlendra þjóða, og jafnvel hér á landi, að atvinnurekendur hafi reynt slíkt.

Það liggur í hlutarins eðli, að slík stéttarfélög eigi að hafa rúm fyrir alla menn, sem tilheyra hlutaðeigandi starfsgrein. Hefir það alltaf þótt mikill ávinningur, að allir vinnandi menn ákveðinnar starfsgreinar væru í einu verklýðsfélagi. Er því gert ráð fyrir, að sú venja gildi, að félögin verði opin öllum vinnandi mönnum á sama félagssvæði.

Þá er 4. gr. þannig, að ég hygg hana ekki hvað minnsta réttarbót fyrir verklýðsfélögin, eins og til háttar hjá okkur. Ég rek ekki dæmi þess, við hvað ég á með þessu. En reynsla mín er sú, sérstaklega hin síðari árin, eftir að atvinnuleysi tók að aukast, að vald atvinnurekenda hefir verið þannig, að þeir hafa getað drottnað yfir hverju handtaki verkamanna og hafa þeir þá ekki hvað sízt beitt þessu valdi til að hafa áhrif á stjórnmálaskoðanir manna.

Í 5. gr. er gert ráð fyrir, að stéttarfélagið sé hinn eini rétti aðili til að semja um kaup og kjör, og er gr. bein afleiðing af því, sem á undan er gengið.

Í 6. gr. er gert ráð fyrir, að allir samningar milli atvinnurekenda og verkamanna skuli vera skriflegir. Er það að miklu leyti í samræmi við þá venju, er skapazt hefir í þessu hin síðari ár, og er þetta ófrávíkjanleg regla meðal nágrannaþjóðanna. Hér er ekkert til tekið um það, hve langur samningstíminn skuli vera, nema það, að hann skuli vera 3 mánuðir, ef ekki er öðruvísi ákveðið.

Samkvæmt 7. gr. eru slíkir samningar, sem verklýðsfélög gera við atvinnurekendur, löghelgaðir, svo að ekki mega einstakir verkamenn gera sérstaka samninga. Eru til mörg dæmi þess, að slíkir baksamningar hafi verið gerðir, t. d. gerði eitt iðnfyrirtæki hér í bæ nýlega þannig lagaða samninga, þvert ofan í samning, sem gerður hafði verið við hlutaðeigandi verkalýðsfélag. Er mér sagt, að út af því muni risa málaferli.

Síðar í þessum kafla koma gr., sem að sjálfsögðu leggja nokkrar skyldur á herðar verkalýðsfélögunum, eins og t. d. 8. gr., en svo er ætíð um gagnkvæm réttindi, að menn verða líka að taka á sig nokkrar skyldur. Eins og 8. gr. ber með sér. er gert ráð fyrir, að verkalýðsfélögin beri ábyrgð á þeim samningsrofum, sem gerð eru, hvort heldur sem þeim valda félögin sjálf eða trúnaðarmenn þeirra, en undanteknir eru einstaka meðlimir félaganna, nema félagið valdi samningsrofunum. Að öðru leyti verður hver einstaklingur að bera sjálfur ábyrgð á gerðum sínum.

9. gr. fjallar um hina margumræddu trúnaðarmenn, sem gert er ráð fyrir á vinnustöðvunum, og eiga þeir að gæta þess, að fylgt sé í öllum atriðum samningum þeim, sem gerðir hafa verið milli verkamanna og atvinnurekenda, svo og framfylgt öllum samþykktum. sem félögin hafa gert, því að félögin þurfa oft að gera samþykktir um ýmislegt, þótt það sé ekki í samningum. Öllu þessu er trúnaðarmönnunum ætlað að fylgjast með á hverjum vinnustað. Eins og ég drap á við I. umr., hafa verkalýðsfélög hér á landi þegar byrjað að koma trúnaðarmönnum inn í samninga sína við atvinnurekendur, og var fyrsti trúnaðarmaður hér á landi við Sogsvirkjunina. Þessi regla er komin til okkar frá öðrum þjóðum. Í Danmörku t. d. hefir það tekið mjög langan tíma fyrir verkamenn að fá þessa trúnaðarmenn viðurkennda. Var það talin af atvinnurekendum hin mestu goðgá, að fara fram á slíkt. Töldu þeir það í fyrsta lagi rýra vald verkstjóranna og á skipunum vald skipstjóranna, o. s. frv. Eftir að verkalýðsfélögunum tókst að koma þessu á á Norðurlöndum, þykir þetta einhver mesta réttarbót, sem þau hafa fengið. Með aðstoð trúnaðarmannanna er oft hægt að komast hjá deilum og árekstrum, sem annars hefðu orðið, ef trúnaðarmaðurinn er fær í sínu starfi og rækir það eins og félögunum bezt gegnir. Hann er verkamönnunum öryggi fyrir, að ekki verði gengið á rétt þeirra, og hjálpar til að koma í veg fyrir deilur. Þetta ákvæði er ekki í vinnulöggjöfum Norðurlanda, en sjálfsagt þótti að setja það hér, þar sem atvinnurekendur hér á landi virðast ekki vera eins hagstæðir verkalýðnum og annarsstaðar á Norðurlöndum. Ég veit t. d. að sjómannastéttinni hér í bænum hefir ekki þýtt að nefna það að fá trúnaðarmenn á skipunum. Álít ég þetta mikla réttarbót, og framtíðin mun sýna, að hér hefir það eitt verið lagt til, sem verkamönnunum má að gagni verða.

10. gr. er viðbót við 9. gr. Þar eru settar reglur um, hvernig trúnaðarmaður á að vinna, og eins um, hvernig fara skal með ágreining milli hans og stéttarfélaganna eða milli stéttarfélaga, atvinnurekenda og trúnaðarmanns. Þessu var breytt nokkuð í hv. Nd., og er nú tryggilegar frá gengið, að ekki megi hegna trúnaðarmanni fyrir störf hans í þágu félagsins. Reynslan verður að sýna, hvort hér er ekki nógu tryggilega frá gengið.

11. gr. er í samræmi við og í áframhaldi af hinum gr., og sama má segja um 12. gr.

Í 13. gr. er heimild fyrir stéttarfélög eða stéttarsambönd til að gera á milli sín gagnkvæma vináttusamninga, ef svo mætti kalla það. Til að skýra hvað við er átt, skal ég taka nærtækt dæmi. Hér í bæ er verkstjórafélag, sem ekki er, að því ég veit bezt, í neinu stéttarsambandi. Verkstjórar eru venjulega skoðaðir sem nánir trúnaðarmenn atvinnurekenda, en þeir hafa sínar kröfur og óskir um, hvernig að þeim er búið. Þeir hafa myndað sinn félagsskap, sem hefir átt örðugt uppdráttar með að fá óskum sínum framgengt við atvinnurekendur. Var myndaður gagnkvæmur samningur millí Alþýðusambands Íslands og verkstjórafélagsins um, að hvert styðji annað að vissu marki, t. d. að verkstjórar séu í verkstjórafélaginu, og að verkstjórar geti svo aftur neitað að taka menn í vinnu, ef þeir eru ekki í verkalýðsfélagi. Er mér kunnugt um, að atvinnurekendum hér var þessi samningur mikill þyrnir í augum, og var um tíma útlit fyrir, að verkstjórarnir yrðu hræddir með hótunum til að nema þessa samþykkt úr gildi. Því var óskað eftir að þetta yrði sett í frv., því að fleiri félög, sem geta verið verkamannastéttinni vinsamleg. þótt þau standi fyrir utan hana, geta þá gert slíka samninga um gagnkvæman stuðning að vissu marki, og er með þessu verkalýðnum tryggt meira lýðræði en áður.

Ég hefi stiklað á stóru um I. kafla frv. Þau andmæli, sem fram hafa komið eru flest lítils virði. Hefir t. d. verið sagt, að ýms þessara réttinda væru áður lögfest eða stjórnarskrárvernduð, en það fer eftir viðhorfi þjóðfélagsins á hverjum tíma, hve mikið af því er skoðað réttur hins vinnandi manns. Þótt löngu sé búið að lögfesta vinnulög á Norðurlöndum, þá er ekkert til svipað þessu í þeim löggjöfum, og ég hefi fengið tækifæri til að sjá, að verkamenn þeirra landa telja þessa löggjöf svo mikla réttarbót, að þeir myndu telja það mikinn vinning fyrir þá sjálfa að fá slík l. sem l. kafla þessa frv. Þótt ekki sé þar fleira fram tekið, þá stendur þessi löggjöf sem aðrar til bóta á næstu árum. Hér er búið að byggja þá réttu undirstöðu, og ég mun gleðjast yfir hverri nýrri réttarbót, sem fæst á næstu árum.

Um II. kafla hefir verið rætt nokkuð mikið. Hann felur það í sér, sem e. t. v. er aðaltilefni þessara l. Hann er um verkföll og verkbönn. Um þau höfum við þá reynslu, að í ýmsum tilfellum hafa verið hafnar deilur, sem þeir, sem eiga að vera forsjón verkalýðsfélaganna, hefðu e. t. v. átt að gæta betur að, hvort rétt væri að hefja á þeirri stundu eða annari. Meðal annars eru þess vegna settar reglur um, hvernig deilur skuli hafnar og hvaða undirbúning verði að hafa milli atvinnurekenda og verkamanna. Hefir sú krafa komið frá atvinnurekendum, að nauðsynlegt væri að setja reglur þar að lútandi. Er efni þessa kafla sóti í vinnulöggjöf Norðurlanda að mestu leyti. Eins og ég tók fram við 1. umr., hygg ég, að ekki séu þau tilfelli í deilum milli atvinnurekenda og verkamanna, sem ekki eru hér settar reglugerðir eða l. um, hvort sem það er kallað verkfall eða verkbann. Nú er það auðvitað, að þetta frv. setur strangari reglur þar að lútandi en þeir menn vilja, sem helzt vilja engin lög eða reglur hafa. Hér hefir verið flutt frv. af sjálfstæðismönnum, þar sem vitanlegt var, að tekin voru upp ákvæði þau, sem ströngust eru í l. Norðurlanda. Il. kafli er svo vægur, að ákvæði hans eru ekki nema svipur hjá sjón, samanborið við frv. sjálfstæðismanna. Í þessu frv. hefir n. sett reglur um þær deilur, sem fjalla um kaup og kjör. Ég undirstrika hér með sérstaklega, að það er skilningur mþn., sem samdi frv., að hér sé átt við allt það, sem felst í venjulegum kaupsamningum, um kaup, vinnuskilyrði o. s. frv. Þá hefir því verið haldið fram. að skyndiverkföll, sem komið geta fram undir vissum skilyrðum, væru bönnuð með þessu frv. Það er rangt. Samkvæmt skilningi n. er ekki hægt að heimfæra það, sem hér er talið upp, undir skyndiverkföll. Ég verð að mótmæla því, sem andmælendur þessa frv. hafa sagt, að þegar talað sé um vinnustöðvanir hér, þá séu það vinnustöðvanir, sem eingöngu séu um kaup og kjör, og að þá þurfi 24 klst. frest um atkvgr. Einmitt í sambandi við 7 daga frestinn vil ég taka það fram, að hans þarf ekki með, þegar samningar eru útrunnir, og ég vil upplýsa, að verkamenn hér í bænum hafa sjálfir tekið upp að hafa þennan frest. T. d. kaupdeila sú, sem átti sér stað síðasta vor. hún var ekki gerð án fyrirvara. Þetta er regla, sem verkalýðurinn er að skapa sér af frjálsum vilja.

Þá vil ég benda á í sambandi við þetta, að félagsstj. geta komið á vinnustöðvun, ef félagið fær þeim umboð til þess. Venjulega er það svo með þessar deilur, að þær koma ekki eins og þruma úr heiðskíru lofti. Venjulega er að þeim langur aðdragandi, og félagsstj. getur aflað sér þessa umboðs frá félagsmönnum. Einnig þarf ekki annað en að hafa fulltrúaráð, sem ég hygg, að verkamannafélagið Dagsbrún hafi fyrst komið upp. Þar er fáeinum félagsmönnum fengið vald til þess að fara með mál félagsins á milli funda.

Hér er gert ráð fyrir, að hvert félag geti myndað slíkt trúnaðarmannaráð, og engar hömlur settar á, hve margir þurfi að vera í því. Er gert ráð fyrir. að 3/4 trúnaðarmannaráðs þurfi að vera fylgjandi þeim ráðstöfunum, sem það gerir, og má það ekki minna vera, þegar svo litlum hl. félagsmanna er fengið slíkt vald. Þá verður að tryggja, að aðeins mikill meiri hl. geti ráðstafað hagsmunamálum allra hinna félagsmannanna. Hér er opnuð leið fyrir félög, þar sem óhægt er um fundasókn og atkvgr., til að láta lítinn hóp manna ráða fram úr vissri tegund mála, jafnvel vinnudeilum. Ég tel það kost fyrir verkalýðinn að eiga slíka löggjöf.

Ég hefi þegar minnzt lauslega á 16. gr. og 7 daga fyrirvarann og við hvað hann á. Þeir, sem vilja andmæla löggjöfinni, geta sagt, að það megi skilja hana á annan veg en hún er hugsuð, og þeir geta haldið þessum skýringum sínum fram við fólkið.

Um 17. gr. erum við hv. 1. landsk. og ég búnir að ræða allmikið við 1. umr.gr. fjallar um, að ekki er hægt að ganga út í verkföll undir vissum kringumstæðum, ef meiri hl. verkalýðsfélaganna telur það mjög varhugavert.

Um III. kafla frv., sem er aðallega um sáttaumleitanir, er sú veigamikla breyting gerð, að í stað þess að hafa allt landið eitt umdæmi, sem einn maður gæti alis ekki komizt yfir, eru sáttaumdæmin gerð 4, og landinu skipt eins og 19. gr. hermir. Þrír af sáttasemjurunum eru einskonar undirsáttasemjarar, og eiga þeir að hafa sem yfirmann aðalsáttasemjarann. sem ætlazt er til, að hafi sæti og heimili í Reykjavík, en það er sá hluti landsins, þar sem verkalýðsfélögin eru stærst og deilur tíðari en annarsstaðar. Skil ég ekki í, að nokkur hafi á móti þeirri till., að fjölga sáttasemjurunum. Það er borgaraleg skylda að taka við þessu starfi sáttasemjara. Verður hver og einn að rækja það, eftir því sem efni standa til. en sáttasemjari verður að vera þeim kostum búinn, að hann geti mælt milli deilandi manna. Frá núgildandi l. eru ekki miklar efnisbreytingar, að þessu undanteknu, nema hvað gert er ráð fyrir, að allt skuli fara fram í fastara formi og að allt, sem fram fer á sáttafundum, skuli bókað. Er sú regla sjálfsögð og nauðsynleg, svo að sjá megi, hvað hver hefir lagt til á hverjum tíma, og svo að menn geti ekki komið seinna og sagt, að þeir hafi aldrei sagt þetta eða hitt. Hér er gert ráð fyrir, að fundirnir séu fyrir luktum dyrum. Þótt svo væri tekið fram í l. áður, þá voru aldrei aðrir viðstaddir á þessum fundum en þeir, sem þangað voru kallaðir. Einnig er ýtarlegar kveðið á en áður um, að sáttasemjari skuli fyrr grípa til að reyna að sætta, ef stéttir þær, sem deila, geta ekki komið sér saman. Skal ég nefna sem dæmi, að í deilunni, sem Sjómannafélag Reykjavíkur átti í í vetur, hefði sáttasemjari verið skyldur til að leita um sættir um miðjan nóvember, í stað þess að hann kom ekki til greina fyrr en um áramót.

Þá er hér nokkru nánar búið um hnútana við atkvgr. Í flestum tilfellum er það aðeins samkomulagsatriði milli deiluaðilja og sáttasemjara, hvernig þeim skuli hagað. Ég skal skýra þetta með dæmum. Í ýmsum félögum hér, þar á meðal Sjómannafélaginu, eru ýmsar starfsgreinar, sem eiga sumt sameiginlegt og sumt ekki. Við höfum t. d. innan okkar félags farmenn, sem eingöngu sigla á flutningaskipunum. Þeir hafa sérstakt kaup og kjör. Þeirra samningar hljóða öðruvísi en samningar fiskimanna. Ef um deilu væri að ræða við þessa menn, þá þarf ekki að láta atkvgr. um till. sáttasemjara fara yfir á félagsheildina alla, heldur næði hún aðeins til farmanna. Þetta minnkar þann mannfjölda, sem greiðir atkv., og þá er meiri trygging fyrir því, að hinn lögmælti meiri hl. sé fyrir hendi, þegar um slíkar atkvgr. er að ræða. — Þetta getur einnig komið fyrir meðal verkamannafélaga. Deila kann að standa um eina deild félagsins, t. d. vörubílstjóradeild, og þá er hægt að láta atkvgr. fara fram aðeins innan deildarinnar. Ég tel, að þetta sé kostur, að þurfa ekki að bera undir atkv., kannske 12–18 hundruð félagsmanna, atriði, sem aðeins snertir ákveðna deild félagsins. Þetta er ekki til í núgildandi löggjöf, en er sett til þess, að félög geti látið slíkar atkvgr. fara fram eins og hér er gert ráð fyrir.

Ennfremur er gert ráð fyrir því, að félög, sem eigi saman í deilu, geti látið málið ganga til atkvgr. í félagi, þannig að ekki komi neitt það fram, sem sýni sérstöðu hvers einstaks félags í deilunni. Dæmi: Sjómannafélagið í Reykjavík, Hafnarfirði og vestur á Patreksfirði, sem öll eiga menn á togurum, eiga sameiginlega í kaupdellu. og þá geta öll þessi þrjú félög, ef þau óska þess, greitt sameiginlega atkv. án þess að sérstaða félaganna komi fram. Þetta er ein af breyt. í kaflanum um sáttasemjara, og ég er ekki í nokkrum vafa um, að þetta verður talinn kostur á fyrirkomulaginu, þegar deilur yfirleitt eiga sér stað.

Þá er eitt í kaflanum um sáttasemjara, sem er nýmæli, og það er, að þegar á að reikna fjölda í einu félagi, þá er hægt að draga frá sjúka menn, sem ekki geta greitt atkv. á fundarstað, og fjarstadda menn, sem ekki myndu geta komið til greina. Við þetta aukast líkurnar fyrir því, að löglegar ákvarðanir verði teknar.

Nú hefir það verið fundið þessu frv. til foráttu, að það þyrfti að skapa einhvern vissan meiri hl. fyrir till. sáttasemjara. Ef minna en 20% taka þátt í atkvgr., þá er till. samþ. Þetta hefir verið gagnrýnt og vítt, en nú er því til að svara, að á Norðurlöndum er gengið miklu lengra um kröfu til þátttöku í atkvgr. en hér er ætlazt til. Við erum hér svo langt fjarri þeim reglum, sem gilda yfirleitt á Norðurlöndum, og ég minnist þess, að í frv. sjálfstæðismanna var þessi regla tekin upp óbreytt eins og hún er ströngust bæði í löggjöf Dana og Norðmanna. Hvað þýðir þetta? Ef deila er orðin það hörð, að sáttasemjari er yfirleitt kominn inn í málið og farinn að skipta sér af því til sátta, þá liggur það í hlutarins eðli, að það hlýtur að vera vöknuð almenn hreyfing meðal meðlimanna um að samþ. eða hafna því, sem fram kann að koma, — og eru þá miklar líkur til þess, að minna en 20% félaganna séu svo áhugalausir, að þeir taki ekki þátt í atkvgr.? Við skulum segja. að það væri 21%, og hvað þarf þá marga menn til að fella till.? Það eru 14 af 20 í 100 manna félagi, og að hér sé nokkur hætta á ferðinni fyrir verklýðsfélögin, það get ég ekki skilið. Öðru nær. Ég get ekki skilið, hvers vegna menn eru að búa til úlfalda úr mýflugunni, þó að svona lágmark sé sett, eins og hér er farið fram á.

Ég hirði ekki um að fara frekar út í kaflann um sáttasemjara, því að hann er að mörgu leyti mjög líkur því, sem nú gildir, að því undanskildu, sem ég nú hefi lýst. Ég hygg, að enginn neiti því, að l. frá 1925, um sáttasemjara, hafi gert sitt mikla gagn í okkar verklýðsbaráttu í landinu. Ég þykist tala hér af fullkominni reynslu, því að þó að menn séu í ýmsum tilfeilum óánægðir yfir þeim till., sem sáttasemjari hefir borið fram, þá hefir hann þó með þátttöku sinni komið aðiljum til þess að tala saman og þannig komið í veg fyrir, að deilurnar rynnu út í sandinn, enda hefi ég ekki heyrt, að ákvæðin um sáttasemjara væru verulegur þyrnir í augum manna. En ég bendi á þetta. Ég minnist þess, að fyrst í stað voru raddir, sem töldu óþarft og óheppilegt að blanda því opinbera inn í þessar deilur, en nú hygg ég, að það séu fáir, sem segi, að sáttasemjari sé gagnslaus í þessum málum, og eins spái ég, að dómur verkalýðsins í landinu verði sá einmitt um þessa löggjöf, sem nú er í frumvarpsformi, að hún sé til gagns, en ekki til ógagns.

Um IV. kafla þessa frv. get ég verið frekar stuttorður, því að hann fjallar um það, sem kallað er félagsdómur og á, eins og stendur í 44. gr. að dæma í málum, sem risa út af kærum um brot á l. þessum og tjóni, sem orðið hefir vegna ólögmætra vinnustöðvana, svo og í málum, sem risa út af kærum um brot á vinnusamningi eða út af ágreiningi um skilning á vinnusamningi eða gildi hans, svo og í öðrum málum milli verkamanna og atvinnurekenda, sem aðiljar hafa samið um að leggja fyrir dóminn, enda séu a. m. k. 3 af dómendunum því meðmæltir. Þetta er höfuðverkefni dómsins. Við komumst lítilsháttar inn á það við 1. umr. málsins, ég og hv. 1. landsk., hvaða þýðingu það hefði fyrir verkalýðinn að geta lagt í ýmsum tilfellum minni ágreining undir dóm, og ég tel það eitt af réttarbótunum. að slíkur dómur skuli vera settur á stofn til þess að skera úr slíkum ágreiningi, bæði fyrir einstaka verkamenn og verklýðsfélögin í heild. Þessi mál eru réttargjaldafri. Það þarf ekki að kosta neinu til til þess að fá skorið úr þessum málum. Ég þykist hafa þar nokkra reynslu um, að því miður leggi menn niður kröfur, af því að það kostar stundum miklu meira að fara í mál út af þeim en það, sem hugsanlegt væri, að fengist með því að vinna málið, og þess vegna gefa menn oft þessar litlu kröfur eftir af ótta við, að það sé kannske í mörgum tilfellum svo dýrt að ná þessum kröfum, í öðrum tilfellum vafasamt, hvort þær náist. Nú er búið að tryggja það, að félagsdómur á tvímælalaust að skera úr um þessi efni.

Því hefir verið blandað saman við þennan félagsdóm, sem sumir hafa nefnt vinnudóm, og það hefir verið reynt að blása það út, að félagsdómur ætti að ákveða fólkinu kaup og kjör. Um þetta atriði er fyrst og fremst sú n., sem samdi þetta, og ég hygg þeir flokkar, sem að frv. standa, svo hjartanlega sammála, að það sé ekki hyggilegt eða heppilegt að láta dómstól eins og þennan dæma í hagsmunaágreiningi, um kaup og kjör. Og það merkilega í þessu er, að á Norðurlöndum hefir þetta verið reynt. Í Noregi hafði vinnudómstóll það hlutverk, að dæma kaup og kjör, og það skal játað, eins og hv. 1. landsk. minntist á, að verkamennirnir neituðu 1921 að beygja sig undir þennan dóm. En það merkilega fyrirbrigði skeði, að bæði atvinnurekendur og verkamenn í Noregi voru sammála um að fella það ákvæði niður úr l., að þessi dómstóil dæmdi í hagsmunaágreiningi. Á Norðurlöndum og þar, sem lýðræði ríkir, er yfirleitt sá skilningur, að þessir dómstólar eigi ekki að dæma í slíkum ágreiningi. Þær undantekningar, sem gerðar eru í þessu efni, eru sérstaks eðlis, því að eins og vitað er, hefir það komið fyrir bæði í Danmörku og í Noregi, og í okkar landi líka, að í vissum undantekningartilfellum hafi þótt heppilegt að leysa deilu með gerðardómi. — Ég geri þetta að umtalsefni af því, að það hefir verið reynt að læða því út til verkalýðsins, að þetta frv. til vinnulöggjafar hafi í sér fólgið það ákvæði, að það eigi að dæma fólkinu kaup og kjör, en það er það, sem verkamenn hér sem annarsstaðar eru andvígir. Ég skal geta þess, að jafnvel áður en þessir vinnudómstólar voru komnir á Norðurlöndum, var það farið að tíðkast, að félög og stéttarfélagasambönd hefðu það að samningsatriði, að gerðardómur skæri úr um það, hvað væri rétt eða rangt samkv. samningi. Þó hefir það verið talið til hagsbótaákvæða í samningi, að það þyrfti ekki að vera að slást um hvert smádeiluatriði, sem upp kæmi. Nú heyrir þetta allt undir gerðardóminn í Danmörku og undir félagsdóm hjá okkur.

Þá er annað, sem hér hefir verið gagnrýnt, og það er skipun dómsins. Og ég verð að lýsa því yfir fyrir mig persónulega, að þegar fleiri en einn eru um eitt mál, þá verða menn oft að brjóta sig til samkomulags, og það samkomulag, sem fekkst, er eins og sjá má í frv. Það skal játað, að það er hæstiréttur, sem hefir oddaaðstöðuna, þar sem hann skipar tvo og tilnefnir þrjá, en ráðh. ryður tveimur af þeim. Það má segja, að hinir tveir, fulltrúi verkalýðsins og fulltrúi atvinnurekenda, verði nokkurskonar málflytjendur í dómnum. En þetta er ekki ólík skipun eins og er í Noregi, þar sem það er ríkisstj., sem skipar þrjá í dóminn, og býst ég við, að menn deili ekki svo mjög um, að það sé réttara, að það sé hæstiréttur, heldur en ríkisstj., sem tilnefni þrjá í dóminn. — Aðrar reglur, sem í þessum kafla felast, eru svo sérfræðilegs eðlis, að ég get ekki farið út í það sérstaklega, en hinsvegar má sjá það í grg. fyrir frv., hvað meint er með hverju einstöku atriði.

Ég tel, að ég hafi gert, eftir því sem efni standa til, grein fyrir aðalefni þessa frv., eins og það nú liggur fyrir. Og eins og ég marg oft hefi sagt, þá er ég með þá sannfæringu í hjarta mínu, að þar sem það er óumflýjanlegt, að settar verði reglur hér á þessu landi um viðskipti atvinnurekenda og verkamanna, þá sé þetta frv. til vinnulöggjafar, sem hér er á ferðinni, svo gott og hagkvæmt fyrir verkalýðinn, að á tímum eins og þessum sé þess ekki að vænta, að hægt sé að fá betri löggjöf en þessa. Eins er mér það ljóst, að ef frv. eins og þetta væri fellt, því yrði sett með fylgi meiri hl. þingsins miklu óhentugri löggjöf fyrir verkalýðinn, því að það er hægt að skapa þær reglur í þessum málum, sem eru til ófarnaðar og trafala fyrir þróun verkalýðsfélaganna, en þessi löggjöf gerir það ekki.

Ég skal að síðustu benda á það, að á Norðurlöndum, þar sem slík löggjöf hefir gilt um margra ára skeið og þar sem ákvörðunarréttur félaganna er að mörgu leyti þröngur, miðað við þessa löggjöf, hefir það sýnt sig, að þróun verkalýðshreyfingarinnar hefir verið hvað mest síðan þessi löggjöf kom. Við vitum, að verkalýðurinn er hvergi betur skipaður og þroskaðri í meðferð sinna mála en einmitt á Norðurlöndum, og ef verkalýðurinn þar hefir getað þroskazt þrátt fyrir þessa löggjöf, hversu miklar líkur eru þá til, að verkalýðurinn á Íslandi muni ekki geta unnið áfram í sama anda og hann hefir unnið og þroskazt á sama hátt og hann hefir gert á Norðurlöndum? Ég hygg, að þessi löggjöf verði einmitt nýtt vopn í höndum verkalýðsins til þess að skipuleggja sig betur en hann hefir nokkru sinni áður verið til þeirrar baráttu, sem hann verður að heyja í nútíð og framtíð.