09.05.1938
Efri deild: 69. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1027 í B-deild Alþingistíðinda. (1368)

95. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Brynjólfur Bjarnason:

Við 1. umr. þessa máls gerði ég nokkuð ýtarlega grein fyrir skoðun minni í þessu máli, og það, sem hv. 3. landsk. hefir nú sagt í sinni löngu ræðu til þess að skýra frv. út frá sínu sjónarmiði, og ennfremur til þess að andmæla mínum skoðunum, var þannig vaxið. að í því kom í rann og veru ekkert nýtt fram.

Hv. 3. landsk. hefir nú í hinni þriðju löngu ræðu, sem hann hefir flutt hér í þessari hv. d., eingöngu talað um þá miklu kosti, sem hann telur, að í þessu frv. felist, og þær miklu og stóru réttarbætur, sem verkalýðnum séu tryggðar með því — að hans dómi. Það er svo að sjá sem þessum hv. þm. þyki mikið við þurfa, til þess að sannfæra hv. þdm. um það, hvað þetta frv. sé mikils virði fyrir verkalýðinn. En ég held nú satt að segja, að hann hefði getað sparað sér þessar löngu ræður, því að allir hv. þdm. hér — að undanteknum einum, sem er ég — eru algerlega sammála um, að þetta frv. sé ákaflega gott fyrir verkalýðinn, eða a. m. k. láta þeir svo. En ef hv. þm. hefir ætlað að sannfæra mig, þá skjátlast honum alveg. ef hann heldur, að þessar ræður hans hafi nokkur áhrif á mig.

Hv. 3. landsk. var enn að ræða mjög ýtarlega kaflann um réttindi og skyldur verkalýðsfélaganna, sem hann segir, að séu algert nýmæli og einhverjar stórkostlegustu réttarbætur, sem verkalýðurinn hafi fengið hér á þessu landi um langt skeið. Ég fór við 1. umr. ýtarlega út í þennan kafla og gagnrýndi þær óskaplegu „réttarbætur“, sem í honum felast. Og ég komst að þeirri niðurstöðu, að allur þessi kafli, eins og hann leggur sig, væri ekkert annað en „húmbúkk“, og ég færði fyrir því gild rök, sem standa ennþá óhögguð. — Hv. 3. landsk. sagði meðal annars, að í þessum kafla væri sú mikilvæga réttarbót. að atvinnurekendur mættu ekki gera sérsamninga við einstaka verkamenn, sem kæmu í bág við samninga stéttarfélags við atvinnurekendann og væru lakari en þeir. Ég hélt nú, að það lægi í hlutarins eðli, að slíkt væri samningsrof. Og svo er hv. þm. að tala um það, hve geysilegar réttarbætur það séu fyrir verkalýðinn, að það skuli standa í lögunum, að atvinnurekendur skuli ekki mega rjúfa samninga. Þetta sýnir nú fyrst og fremst það, hvernig þessi hv. þm. gripur eftir loftbólum, til þess að reyna að finna orðum sínum stað um þessar miklu réttarbætur, sem eiga að felast í þessu frv.

Nákvæmlega sama gildir um það, sem hv. 3. landsk. var að segja um trúnaðarmennina. Það er út af fyrir sig litið með því fengið, þó að í lögunum standi, að verkalýðsfélög megi útnefna trúnaðarmenn, því að það geta þau án laganna. Það, sem fyrst og fremst skiptir máli, er, hvaða réttindi þeir fá, — og hvar eru þau í þessum lögum? Þau eru ekki til, nema þá ef nefna mætti þá brtt., sem samþ. var í hv. Nd., þar sem svo var ákveðið, að ef atvinnurekendur fækkuðu við sig verkamönnum, þá skyldu trúnaðarmenn að öðru jöfnu sitja fyrir með að halda vinnu. En þegar nánar er að gáð, er þetta engin fullnægjandi trygging fyrir trúnaðarmennina, síður en svo, vegna þess að þótt hér standi „að öðru jöfnu“, þá geta atvinnurekendur alltaf haldið því fram, á sama hátt og þeir eru vanir að gera, þegar þeir segja mönnum upp atvinnu, að það sé af öðrum „góðum og gildum ástæðum“. — Þetta læt ég nægja um þennan kafla laganna, því að ég get að öðru leyti vísað til þess, sem ég sagði við 1. umr.

Þá ætla ég að nefna eitt atriði, sem hv. 3. landsk. taldi vera mikla réttarbót í frv., sem sé það, að sáttasemjari geti látið atkvgr. fara fram um till. sína á þann hátt, að aðeins nokkur hluti félagsins, þ. e. a. s. aðeins sá hluti félagsins, sem tilheyrir þeirri starfsgrein, sem till. fjallar um, greiði atkv. um till. Sáttasemjari getur líka samkvæmt þessum lögum ákveðið, að það skuli fara fram atkvgr. samtímis í fleiri en einu félagi, ef þau eiga samtímis í deilum. M. ö. o., sáttasemjari getur ákveðið, hvernig atkvgr. skuli fara fram, hvað margir taki þátt í henni, og þannig hagað henni eins og hann telur mestar líkur til, að till. verði samþ. Og þetta telur hv. 3. landsk. réttarbætur! — Mér er kunnugt um, að einmitt þetta ákvæði hefir verið rætt í mörgum verkalýðsfélögum, og þau hafa öll verið þeirrar skoðunar, að hér sé ekki um réttarbót að ræða, heldur beinlínis réttarskerðingu og stórkostlega hættulegt ákvæði, þannig að hér er ekki einasta verið að telja til réttarbóta það, sem ekki eru annað en loftbólur, heldur er verið að búa til réttarbætur úr því, sem í raun og veru er réttarskerðing.

Mér þótti nú gaman að því, þegar hv. 3. landsk. sagði, að þetta frv. stæði til bóta. Það er nákvæmlega það sama og sjálfstæðismenn segja um þetta mál. Og hv. I. þm. Reykv. endurtók þetta hér áðan og sagði, að frv. stæði til bóta, og hann sagðist vera hv. 3. landsk. sammála um það, að óheppilegt væri að fara harðara í sakirnar til að byrja með heldur en hér væri gert. Hann meinar, að það þurfi að gera ákvæði þessa frv. harðari eða verri heldur en þau eru gagnvart verkalýðnum, og þess vegna segir hann, að þetta sé gott út af fyrir sig og ekki beri að fara lengra í bili, og að þetta standi allt til bóta. Hér hefir hv. 1. þm. Reykv. áreiðanlega rétt að mæla frá sjónarmiði sins flokks. En hvaða líkur eru til þess, að „umbætur“ verði gerðar á frv. og hvernig er líklegt, að þær verði? Við vitum nú það, að sjálfstæðismenn og hægri framsóknarmennirnir er alltaf að nálgast, og það virðist aðeins tímaspursmál, hvenær samvinna verður milli þeirra á Alþ. meiri en nú er, og jafnvel stjórnarsamvinna, og þá verður náttúrlega hægurinn hjá fyrir þessa tvo flokka, að gera „umbætur“ á svona lögum, og hvernig haldið þið, að þær verði? Haldið þið, að þær verði til þess að auka réttindi verkalýðsfélaganna? Eða í þá átt, sem hv. 1. þm. Reykv. var að tala um áðan? Það er svo sem vitanlegt, að það muni verða. En það, sem þessa flokka hefir vantað. til þess að koma slíkri vinnulöggjöf á, sem þeir óska eftir, er að geta fengið verkalýðsfélögin og þeirra samband til þess að sætta sig við svona löggjöf. Og hv. 3. landsk. er einmitt að hjálpa þeim til þess. Hann er að reyna að fá verkalýðshreyfinguna til þess að sætta sig við svona löggjöf, og þess vegna veit hv. 1. þm. Reykv., hvað hann er að segja, þegar hann talar um, að ekki sé heppilegt að ganga lengra heldur en gert er með þessu frv. En þegar verkalýðsfélögin svo eru búin að sætta sig við þessa löggjöf, þá er hægurinn hjá að herða á henni smátt og smátt, og eini möguleikinn til þess, að það verði ekki gert, er, að verkalýðsfélögin sýni það í reyndinni, að ekki sé hægt að framkvæma slíka löggjöf. Það er því nauðsynlegt, að verkalýðsfélögin geri hana að ónýtu pappírsgagni í framkvæmdinni, eins og við höfum dæmi frá annarsstaðar. —

Þegar hv. 3. landsk. var að reyna að verja þetta frv. sitt og félaga sinna, bæði við 1. umr. og eins nú, lét hann sem hefði hann hvorki heyrt né skilið neitt af því, sem ég hafði sagt. Hann hélt áfram að bera fram sín svo kölluðu mótrök, enda þótt ég hefði hrakið þau öll. Ein af fjarstæðum hv. þm. var m. a. sú, að „tugthúslögin“ norsku frá 1927 hefðu verið afnumin vegna þess, að atvinnurekendur hefðu ekki viljað þau. En hvernig liggur nú í þessu máli? Atvinnurekendur í Noregi og fulltrúar þeirra á þingi komu sér saman um að setja þessi lög. Verkalýðsfélögin aftur á móti ákváðu að brjóta þau á bak aftur og hafa þau að engu. Og strax árið eftir hófu tugir þúsunda norskra verkamanna baráttu gegn lögunum undir kjörorðinu: „Tværs gennem Loven“. Foringjar þessarar hreyfingar voru dæmdir til langvinnrar fangelsisvistar, jafnvel í hundraðatali, en verkamenn sigruðu í þessari deilu, eins og kunnugt er. Það voru lögbrjótarnir, sem í þessari deilu báru sigur úr býtum. Atvinnurekendur urðu að gera samninga við verkalýðsfélögin um betri kjör heldur en ákveðin voru í vinnudómnum. Og þar með voru lögin orðin að ónýtu pappírsgagni, og þá var ekkert annað eftir en að afnema þau.

Þessa reynslu höfum við ekki aðeins frá Noregi, heldur og frá fleiri löndum. Í Danmörku eru ólögleg verkföll stundum svo að segja daglegt brauð. Þegar ég var í Danmörku, voru t. d. hin ólöglegu verkföll oft aðalumræðuefni blaðanna. Og það er ekki nóg með það, að þau séu tíð þar, heldur hefir líka hvert á fætur öðru verið leitt til sigurs, og það er þetta, sem er ákaflega þýðingarmikið — ekki einungis fyrir verkalýðinn, heldur og þá þm. sem ætla sér að samþ. þessa löggjöf — að athuga vel. Það er skemmst að minnast sjómanna- og kyndaraverkfallsins 1934, sem var ólöglegt, þar sem það gekk á móti vinnulöggjöfinni dönsku. Hafnarverkamenn gerðu samúðarverkfall, og í Esbjerg var gert allsherjarverkfall, einnig í samúðarskyni. Árangurinn varð sá, að árið eftir fengu kyndarar með samningum ýmsar réttarbætur, sem sumpart ekki tíðkast annarsstaðar í Evrópu. Þeir fengu launahækkun, fæðispeninga, launuð sumarfrí og ókeypis vinnuföt.

En nú vil ég spyrja: Langar hv. þm. til þess, að ólögleg verkföll verði tíð, svo að segja daglegt brauð, hér á landi? Er rétt að sækja slíka fyrirmynd til nágrannalandanna? Og langar hv. þm. til þess, að heilar stéttir telji það siðferðislega skyldu sína að brjóta þau lög, sem Alþ. setur?

Nú var hv. 3. landsk. í síðustu ræðu sinni, og eins við I. umr., að reyna að verja skyndiverkfallabannið, sem í þessum lögum felst. Þar sem hann talaði um 7 daga verkfallsfrestinn aðeins í sambandi við uppsögn samninga, þá kemur það ekki málinu við, vegna þess að um það var ekki verið að ræða, heldur hitt, að í lögunum er svo um hnútana búið, að skyndiverkföll eru í raun og veru bönnuð. Um hitt var alls ekki verið að ræða. Þess vegna gat hv. 3. landsk. sparað sér ómakið við að ræða um það, hvort rétt væri að hafa 7 daga fyrirvara. þegar aðeins er um að ræða uppsögn samninga. Það er nefnilega ekki hv. 3. landsk. né heldur sú mþn., sem hann átti sæti í, sem á að dæma um það, hvað eru t. d. kaup og kjör, heldur er það dómur, sem er þannig skipaður, að trygging er fyrir því, að hann sé fjandsamlegur verðalýðnum. Hv. 3. landsk. fór þarna undan í flæmingi. Hann sagði m. a., að skyndiverkföll hjá einstökum atvinnurekendum um atriði, sem jafnvel væru samningsbundin, t. d. um greiðslu kaupgjalds, væru leyfð, vegna þess að það væri ekki vinnustöðvun, heldur það, sem kallað er á dönsku „Blokkade“. Nú get ég upplýst hv. 3. landsk. um það, að atvinnustöðvun hjá einstökum atvinnurekendum heitir á íslenzku vinnustöðvun. Hvort þetta heitir Blokkade eða annað á dönsku, kemur ekki málinu við. Og ef hv. þm. heldur, að dómstóllinn verði verkamönnum svo vingjarnlegur, að hann dæmi þeim í vil þvert ofan í lögin, þá skjátlast honum alveg. Og þó að hv. þm. komi til þeirra í dómstólnum og segi: „Þetta er ekki vinnustöðvun, heldur heitir þetta Blokkade á dönsku“, — þá skal ég segja honum það, að þeir taka ekkert mark á því. Þeir hafa slíka þýðingu hv. 3. landsk. að engu. Og það, hvað fyrir mþn. vakti, varðar dómstólinn ekkert um, heldur einungis þau lög, sem hún samdi, og eftir þeim verður dæmt.

Ekki fórst hv. 3. landsk. höndulegar, þegar hann var að reyna að verja bannið gegn pólitísku verkföllunum. Hann sagði m. a. í þessari ræðu sinni, að það væri löglegt að gera verkfall gegn gerðardómum, og hann bar þar fyrir sig hæstv. forsrh. En það, sem hæstv. forsrh. hefir sagt, er, að eins og íslenzk löggjöf er nú, séu engin viðurlög gegn vinnustöðvun þrátt fyrir þá gerðardóma, sem nú hafa verið settir af Alþ. En hv. þm. gleymdi því, að það er bara ekki búið að samþ. lögin um stéttarfélög og vinnudeilur ennþá, og samkvæmt þeim liggja allt að 10 þús. kr. sektir og ótakmarkaðar skaðabætur gegn því, að gera slík verkföll. Það er sem sé á tvennan hátt óleyfilegt að gera verkfall gegn gerðardómum samkvæmt þessum lögum. Í fyrsta lagi er það óleyfilegt á þann hátt, að það er verkfall gegn samningi, sem ekki er leyfilegt að gera samkvæmt þessum lögum. Úrskurður gerðardóms, sem skipaður er af Alþ., jafngildir löglega gerðum samningi. Þess vegna er það undir öllum kringumstæðum óleyfilegt og lögbrot að gera verkfall gegn slíkum gerðardómi. Í öðru lagi er verkfall gegn slíkum gerðardómi pólitískt verkfall, sem hefir þann tilgang að hindra framkvæmd l., sem sett hafa verið af Alþ., og varðar því refsiaðgerðum. Hinar barnalegu lagaflækjur hv. 3. landsk. yrðu að engu hafðar fyrir hvaða dómstóli sem væri. Það er einmitt þetta ákvæði um bann gegn pólitískum verkföllum og fyrirmæli l. þar um, sem eru á allt annan hátt en nú gildir, sem er það hættulegasta í frv., því að þar er opnuð leið ekki einungis til að takmarka verkfallsréttinn, heldur afnema hann með öllu.

Á þessu þingi hafa verið samþ. tvenn l. um gerðardóma í vinnudeilum, svo að það eru sýnilega farin að tíðkast hin breiðu spjótin. Eftir framkomu þm. Alþfl. að dæma. verður þess ekki langt að bíða, að þeir fari líka að vera með lögþvinguðum gerðardómum, enda hafa þeir byrjað á að greiða atkv. með slíkum. Þegar það verður meira og meira gert að reglu að samþ. l. um gerðardóma í einstökum tilfellum, og í hvert sinn er borin fyrir sig „þjóðarnauðsyn“, liggur næst fyrir að gera vinnudóm að fastri stofnun í ríkinu. Gildandi vinnulöggjöf yrði þá rammi utan um aðra verri.

Að lokum vil ég drepa á tilraunir hv. 3. landsk. til að afsaka það hneyksli, að minni hl. skuli undir vissum kringumstæðum ráða yfir meiri hl., þ. e. a. s. þegar um till. frá sáttasemjara er að ræða. Hv. 3. landsk. reyndi að afsaka það með því m. a., að þetta gerði ekkert til fyrir hans félag. Mér skildist hann treysta á ákvæðið um, að þeir, sem ekki geta neytt atkvæðisréttar síns, teljist ekki atkvæðisbærir. Ég vil benda honum á, að sönnunarskyldan hvílir á honum um það, hverjir séu atkvæðisbærir og hverjir ekki og hversu margir geti ekki neytt réttar síns af þessum ástæðum. Ætli það stæði ekki í honum að leggja fram sönnunargögn um forföll fleiri hundruð félagsmanna?

Hv. þm. skildi ekki, af hverju ég væri að „gera úlfalda úr mýflugu“ út af ákvæðinu í sambandi við till. sáttasemjara. Ég benti á, að undir vissum kringumstæðum gæti farið svo, að atkvæði sáttasemjara gilti meira en atkv. 300–400 félagsmanna í Dagsbrún t. d. Þetta finnst hv. 3. landsk. svo sjálfsagt, að hann kallar það að gera úlfalda úr mýflugu að minnast á það. Hann var líka að reyna að afsaka þetta með því, að það kæmi aldrei til greina. Þátttakendur væru svo margir. Þá vil ég spyrja: Af hverju er þá verið að setja slíkt ákvæði í l., ef það hefir engan tilgang? Nei, það sjá allir menn, að þetta er gert af því, að gert er ráð fyrir tilfellum eins og ég hefi nefnt. Þetta veit hv. þm. Ég get nefnt t. d. ákveðið ástand. Ég skal viðurkenna, að það er ekki sérlega oft, sem þátttakan er svona lítil. Það getur t. d. verið, að sé ónýt stj. í félagi, sem sé búin að draga svo mjög kjarkinn úr verkamönnum, að allur þorri þeirra álíti baráttuna vonlitla. Slík tilfelli eru til, og ég get nefnt hv. 3. landsk. mörg dæmi þess. Og þarafleiðandi mundi vera fjöldi félagsmanna, sem ekki mundi skipta sér af atkvgr., þó að þeir væru ákveðnir á móti till. sáttasemjara.

Ég hefi með þessum fáu orðum gert alveg full skil öllu því, sem fram hefir komið í málinu. síðan ég talaði síðast, og get því látið þetta nægja í bili.