01.03.1938
Neðri deild: 11. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1042 í B-deild Alþingistíðinda. (1457)

32. mál, lífeyrissjóður ljósmæðra

Flm. (Vilmundur Jónsson):

Þetta frv. er flutt fyrir tilmæli Ljósmæðrafélags Íslands og hefir áður verið flutt á þinginu 1933. síðan hefir að vísu verið stofnaður almennur Lífeyrissjóður Íslands. En ljósmæðurnar kjósa nú engu síður að eiga sérstakan sjóð, sem veiti þeim nokkur réttindi fram yfir það, sem hinn almenni lífeyrissjóður gerir. Sérstaklega er þeim í mun að geta tryggt sér styrkinn fyrr. Þær eru margar búnar að láta af störfum löngu fyrr en þær fá rétt til almenns lífeyris. Og það er í rauninni líka í þágu þjóðfélagsins, að þær gegni ekki sínum störfum lengur en þær hafa þrek og hæfni til.

Sjóðurinn verður, samkv. frv., byggður upp af 10 þús. kr. árlegu framlagi úr ríkissjóði og iðgjöldum ljósmæðra, 4%, sem á að halda eftir aflaunum þeirra. Með þessu á að mega gera hvorttveggja, að greiða þeim ljósmæðrum, sem nú þegar njóta eftirlauna á fjárlögum, og að byggja upp lífeyrissjóð til að risa undir þeim byrðum, sem frv. ætlar honum í framtíðinni.

Við flm. frv. berum ekki ábyrgð á útreikningum þess, en góður er að þeim nauturinn. þar sem er Brynjólfur Stefánsson tryggingafræðingur. Ég tel sjálfsagt, að nefnd láti athuga útreikningana. Og ef það kemur í ljós, að áætlanir frv. muni standast, hljóta menn að sjá, að hér er ekki kostnaðaraukinn til fyrirstöðu, því að eins og segir í niðurlagi grg. frv., greiðir ríkið nú fullar 10 þús. króna á fjárlögum til eftirlauna ljósmæðra. En það fé kemur miklu ójafnlegar niður en verða mundi, ef frv. verður að lögum.

Ég óska eftir, að málinu verði vísað til fjhn. að lokinni þessari umr.