09.04.1938
Neðri deild: 45. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1043 í B-deild Alþingistíðinda. (1462)

32. mál, lífeyrissjóður ljósmæðra

Pétur Ottesen:

Ég býst við, að það eigi að skilja þetta frv. þannig, að þegar til þess kemur að greiða eftirlaun úr sjóði þessum, sem mér skilst vera fyrst 1940. þá sé eftirlaunahæðin miðuð við starfsárafjölda og ekki annað. Ég hafði og skilið það svo, að með samþykkt þessa frv. féllu niður í fjárl. fjárveitingar til einstakra ljósmæðra og heyrðu þær þá algerlega undir ákvæði þessara l., og starfsárafjöldi lagður til grundvallar. En samkv. 9. gr. virðast þær ljósmæður, sem eftirlaun hafa á fjárl., eiga að fá áfram sömu upphæð úr ríkissjóði, sem þær hafa nú. Þetta virðist mér í fljótu bragði rekast á. Ef ég misskil þetta, veit ég, að hv. flm. leiðréttir mig. En þetta þarf að vera skýrt og ótvírætt. Mér er kunnugt, að fyrir fjhn. liggja umsóknir frá ljósmæðrum, sem þegar hafa látið af embætti og eru búnar að starfa mjög langt árabil. Mér skilst, að samkv. þessu frv. eigi þær einskis að vænta fyrr en á árinu 1940. Og til þess, að þær njóti þeirrar viðurkenningar og stuðnings, sem ljósmæður hafa notið undanfarið, virðist réttmætt að taka upp í fjárl. fyrir 1939 einhverja fjárveitingu til þeirra. Þær ljósmæður, sem samkv. 9. gr. geta ekki komizt undir ákvæði þessara l. en eru nú á fjárlögum, býst ég við, að beri nokkru minna úr býtum en ef þær kæmu undir þessi l., t. d. þær, sem lengst hafa starfað.