10.05.1938
Efri deild: 70. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1046 í B-deild Alþingistíðinda. (1477)

32. mál, lífeyrissjóður ljósmæðra

*Frsm. (Erlendur Þorsteinsson):

Herra forseti! Fjhn. hefir haft þetta mál til athugunar á nokkrum fundum og einnig fengið umsögn um það frá tryggingarstofnun ríksins. N. hefir farið allýtarlega yfir frv. og leggur til, að það verði samþ. með þeim breyt., sem bornar eru fram á þskj. 498.

Þar er fyrst brtt. við 2. gr. — Hún hefir misprentazt og stendur „við 1. gr.“, og má lagfæra það með skrifl. brtt., ef hæstv. forseti telur það rétt. — Þessi brtt. er hækkun á framlagi til sjóðsins, úr 10 þús. kr. í 15 þús. Í frv. er tekið fram, að ljósmæður, sem nú fá sérstakan styrk á fjárlögum, eigi að fá hann framvegis úr sjóðnum. Nú hefir hv. fjvn. tekið nokkru fleiri ljósmæður upp í fjárlög, og vegna þess verður sjóðurinn að fá auknar tekjur, svo að hann biði ekki halla af.

Þá er brtt. við 8. gr., um breytt orðalag. til þess að slá því alveg föstu, hvernig þessi eftirlaun skulu veitt, og einnig því, að ljósmæður, sem fá eftirlaun samkv. fjárlögum úr sjóðnum, fái þó ekki hærri upphæð en þeim bæri samkv. 10.–13. gr. frv., „miðað við núverandi launakjör ljósmæðra“. Síðustu orðin eru til að tryggja rétt þeirra, sem nú eru kallaðar „júbil-ljósmæður“.

Loks er bætt við 18. gr. því nauðsynlega ákvæði, að 5. gr. ljósmæðralaga frá 1933 falli niður, því að annars mundu lögin rekast á, þegar þetta frv. hefir verið samþ.

Um þetta þarf ekki fleiri orð. N. mælir með því, að frv. fái hér skjóta afgreiðslu, þar sem það á eftir að koma aftur fyrir hv. Nd. og stuttur tími til þess, að það fái afgreiðslu á þessu þingi.