25.04.1938
Neðri deild: 53. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1048 í B-deild Alþingistíðinda. (1490)

89. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Frsm. (Finnur Jónsson):

Ég get ekki orðið algerlega sammála hv. 6. þm. Reykv. og öðrum hv. samnm. mínum. Ég er samþykkur því, að bæði þessi ákvæði, sem hér ræðir um í frv., séu sett inn í lögin. En auk þess vildi bæði ég og hann setja inn ýmis önnur ákvæði, sem samkomulags varð ekki auðið um með okkur. hinn bóginn leggur meiri hl. til, að 2. gr. frv. falli niður. Ég get ekki fallizt á það, því að ég tel það mjög mikils virði fyrir verksmiðjurnar, að ríkið standi í ábyrgð fyrir skuldbindingum þeirra, og engu síður fyrir sjómenn og útgerðarmenn. Síldveiðin byggist að mjög miklu leyti á verksmiðjunum. Ef rekstur þeirra stöðvast fyrir óhöpp eitthvert árið og fyrir það, að missir ríkisábyrgðarinnar rýrir lánstraust þeirra, er ekki aðeins hagur sjálfra verksmiðjanna í hættu, heldur útgerðin öll í voða.

Nú hefir verið rætt talsvert um það opinberlega að taka ætti upp þann sið, að greiða aðeins 85% af síldarverði við móttöku, en afganginn, ef nokkur yrði, einhvern tíma seinna. Ríkisábyrgðin er afnumin um leið, og má gera ráð fyrir, að útvegun rekstrarfjár verði þá þeim mun erfiðari, að verksmiðjurnar geti ekki greitt síldina að fullu við afhendingu. Af því geta hlotizt mikil vandræði fyrir útgerðarmenn og sjómenn og verksmiðjurnar, eins og flestum er nú orðið ljóst. Með því móti er hætta á, að þær nái ekki tilgangi sínum. Verksmiðjustjórnin talaði á sínum tíma við stjórn Landsbankans um þessi mál. Landsbankastjórnin lét í ljós, að vitanlega breytti það mjög miklu um möguleika verksmiðjanna til að fá rekstrarfé, að ríkið ábyrgðist það ekki.

Um það atriði að kjósa varamenn í verksmiðjustjórnina, jafnmarga og aðalmenn, er sjútvn. öll sammála og leggur til, að það verði samþykkt.