10.05.1938
Efri deild: 71. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1062 í B-deild Alþingistíðinda. (1511)

89. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Ingvar Pálmason:

Við fyrri umr. hér í hv. d. um þetta litla frv. virtist koma fram nokkur andstaða gegn því. Mér virtist, að aðalrökin fyrir þeirri andstöðu væru þau, að andstæðingar frv. óttuðust, að ef það væri samþ., mundu tylliástæður verða notaðar til þess að láta varamenn mæta á stjórnarfundum í verksmiðjustjórninni. Og ég skal játa, að ef svo færi í reyndinni, þá væri það mjög óheppilegt. Ég skal viðurkenna það, að hvergi minnist ég þess samt sem áður, að það sé í l., þar sem venja er að hafa varamenn, að sérstakar ráðstafanir séu gerðar til þess, að varamenn mæti ekki á fundum nema í löglegum forföllum aðalmanna. En þar sem hér þykir nokkuð mikið í húfi, vil ég ganga inn á, að nokkrar skorður verði settar til tryggingar því, að þetta verði ekki misnotað, og hefi þess vegna flutt brtt. á þskj. 520. Ég sé ekki betur en að með henni sé fyrir það byggt, að aðalmaður geti látið varamann mæta fyrir sig, nema því aðeins, að gildar ástæður séu fyrir hendi. Eftir brtt. er ekki hægt að taka varamann gildan, nema atvmrh. hafi samþ. það. Mér skilst því, ef þessi brtt. er samþ., að þá séu tekin til greina þau rök, sem andstæðingar þessa frv. færðu fram við fyrri umr. Ég geri því ráð fyrir, að þeir, sem hingað til hafa veitt þessu máli andstöðu, geti sætt sig við málið, ef brtt. þessi verður samþ.