10.05.1938
Efri deild: 71. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1062 í B-deild Alþingistíðinda. (1512)

89. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Bernharð Stefánsson:

Ég fyrir mitt leyti lít svo á, eins og hér hefir komið fram í d., að það sé mjög óheppilegt, ef farið væri að kveðja varamenn til starfa í stjórn síldarverksmiðja ríkisins út af smámunum eða í stundarforföllum aðalmanna, og skal ég ekki orðlengja meira um það.

Nú hefir komið hér fram brtt. um það að takmarka þetta nokkuð. En þó þykir mér það á skorta, að stjórn síldarverksmiðja ríkisins mundi eftir þessum till. geta kallað varamanninn, án þess að hlutaðeigandi aðalmaður óskaði þess. Þætti mér því réttara, að það væri skýrt ákveðið, að þetta kæmi ekki til greina, þannig að ákveðið væri, að varamaður væri ekki kallaður, nema hlutaðeigandi aðalmaður hefði sérstaklega um það beðið. Það mætti t. d. hugsa sér, að aðalmaður í stjórninni væri fjarverandi af einhverjum ástæðum og gæti ekki mætt á fundi, en hinir stjórnarnefndarmennirnir vildu gjarnan nota tækifærið og halda fund og gera ráðstafanir, að aðalmanni fjarstöddum, með hans varamanni. — Auk þess er í þessari brtt., sem fram er komin frá hv. 2. þm. S.-M., ekkert minnzt á það, sem þó virtist eiginlega liggja næst, að varamaður ætti að koma inn við fráfall aðalmanns. Ég teldi því, að þessi brtt., sem fram er komin við frv., væri e. t. v. heppilegar orðuð á annan hátt, þannig að eigi skildi kveðja varamann til starfa, nema aðalmaður óskaði þess eða hefði fallið frá. Þetta er náttúrlega ekki mikil breyt., en ég hugsa þó, að með því móti að breyta þessu svona, væri náð þeim tilgangi, sem hv. 2. þm. S.-M. hefir nú viljað ná og hér hefir verið hreyft, að ekkí sé að ástæðulausu verið að kveðja varamenn til starfa í stjórn síldarverksmiðja ríkisins. Vil ég því leyfa mér að bera fram skrifl. brtt. við frv., sem ég vænti, að hæstv. forseti vilja leita afbrigða fyrir. Vil ég vona, að hv. 2. þm. S.-M. geti fallizt á, að hún geti komið í staðinn fyrir hans brtt. Skrifl. brtt. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„.Aftan við 1. grein bætist: Eigi skal þó kveðja varamann til starfa, nema aðalmaður óski þess eða hafi fallið frá.“