10.05.1938
Efri deild: 71. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1063 í B-deild Alþingistíðinda. (1515)

89. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Jónas Jónsson:

Ég er ánægður yfir því, að það kemur fram hér í hv. d. nú, eins og það kom fram við 2. umr. þessa máls, að d. var óánægð með það öryggisleysi, sem fólst í frv. eins og það var og er enn. Að því leyti hefir gagnrýni sú, sem kom þá fram hér í hv. d., haft áhrif. Enda var því ekki mótmælt af neinum, að það væri alveg óviðurkvæmilegt og háskalegt, að stjórn síldarverksmiðja ríkisins gæti svo að segja verið eins og skopparakringla, fyrir það að aðrir fimm menn gætu hlaupið inn í hana, þegar þeim þóknaðist, og þessi stjórn gæti svo ráðið stjórn á stærsta atvinnufyrirtæki landsins. Þessi krítik mín við 2. umr. var réttmæt, því að það er fullkomin léttúð í frv. eins og það var og er. Og því óeðlilegri var þessi málflutningur hv. þm. Ísaf., sem er flm. þessa frv. í Nd. um að fá þessa varamenn skipaða á þennan hátt, þar sem hann kallaði aldrei varamann á fund, þegar hann var í tvö ár formaður síldarverksmiðjustjórnarinnar. Þá var það oft, að aðalmaðurinn, Þorsteinn M. Jónsson, gat ekki mætt, af því að hann dar inni á Akureyri, þegar fundur var í stjórn síldarverksmiðjanna á Siglufirði. En varamaður hans, Hannes Jónasson, var búsettur á Siglufirði. En hv. þm. Ísaf. datt aldrei í hug að kalla þennan varamann á fund. Það hafa því orðið meiri háttar stefnuskipti hjá þessum hv. þm. frá því, er hann hafði þennan rétt og notaði hann ekki, og þangað til nú, að hann berst fyrir því, út frá sínum eigin kringumstæðum, að mér er sagt, að þetta ákvæði sé sett inn í l. Mér er sagt, að þessi hv. þm. búist við því að vera langdvölum, vikum eða jafnvel mánuðum saman í burtu frá Siglufirði í sumar. Og þá er eðlilegt, að varamaður komi inn í hans stað. Ég hefði álitið, að það hefði mátt koma með brtt. um það, og ég hefði gert það, ef ég hefði ekki viljað komast hjá því að tefja þingið með því, að varamaður komi ekki inn, nema um lengri tíma væri að ræða, þannig að full alvara sé á því, að varamaður kynnist þessu verki svo, að það megi búast við, að hann geti gert alvarlegar ráðstafanir, ef um það væri að ræða, að þess þyrfti, á meðan hann tæki sæti í stjórninni. Ef brtt. hv. 1. þm. Eyf. verður samþ., þá er a. m. k. ekki hægt að nota þessa undarlegu löggjöf, sem hér er verið með á ferð, til þess að láta menn hlaupa í skarðið í þessari stjórn gegn vilja þeirra manna, sem bera ábyrgð á stjórn síldarverksmiðja ríkisins.

Hv. 3. landsk. reyndi ekki að verja það, sem flokksbróðir hans, hv. þm. Seyðf., hefir gert ráðstafanir til, sem eru þess eðlis, að það getur vel verið, að það verði dómstólamál, ef hann hefir á réttu að standa um það, að varamenn hafi ekki sama ákvörðunarrétt og aðalmenn svo að bindandi séu gerðir þeirra á fundum, þar sem þeir eru til kvaddir til að mæta fyrir aðalmenn.. Það væri því, út frá því máli skoðað, lán fyrir stjórn síldarverksmiðja ríkisins, að hafa þó ekki allt of marga varamenn. A. m. k. er gott fyrir hv. 3. landsk. að athuga það, að hans eigin flokksbróðir hefir a. m. k. verið í vafa um það, hvort heppilegt væri að hafa varamenn. Það var a. m. k. svo loðið í hans huga, að hann hefir í sameinuðu þingi beinlínis beðizt eftir því, að dómstólarnir væru látnir athuga nánar gerðir hans í þessu efni, því að hann sá ekki málið í meiri skimu en það, að hann þarf að láta ljós dómstólanna skína um það.

Hv. 11. landsk. sagði hér dæmisögu um einhvern vondan mann, skildist mér, sem væri á vondum vegi, en hafði verið á betri vegi áður. Ætla ég mér ekki að reyna að þýða þær duldu rúnir. En ég ætla að benda honum á annan mann, sem heldur fer versnandi, sem er hann sjálfur, sem hér fyrr á árum, er hann var yngri, var í betri flokki en hann er í nú. Svo komu einhverjir hugarórar í hann, og hann fór að líta í rauðu áttina, til kommúnista eða slíkra manna, og hefir nú um stund fylgt þeim að málum. Ég vonast eftir því, að hann taki þetta til athugunar, hvort honum sé ekki þörf á einhverjum endurbótum — kannske að komast aftur á þá fyrri skoðun, sem hann var á áður.