05.05.1938
Neðri deild: 62. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1067 í B-deild Alþingistíðinda. (1531)

47. mál, laun embætissmanna

*Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Það er óþarfi að fara mörgum orðum um þetta mál, svo kunnugt er það. hað var borið fram á síðasta þingi og nú aftur, og hefir legið frá byrjun þings, svo að segja, í n. Að lokum hefir fjhn. orðið sammála um afgreiðsluna, og er vonandi, að það geti gengið greiðlega í gegn.

Frv. gengur út á það, að þar, sem læknar eru svo lágt launaðir í sveitum, að ekki hefir fengizt læknir í héraðið fyrir það, hversu þar er fámennt og því lítið að gera, þ. e. þar, sem íbúar eru færri en 1000, sé ráðherra heimilt að ákveða, að launin skuli þegar greiðast frá upphafi með fullri aldursuppbót. Það munu nú vera tvö læknishéruð, sem alls ekki fæst læknir í af þessari ástæðu. Þar á læknir að byrja með 1000 kr. lægri laun en þau verða siðar með fullri aldursuppbót.

Nú eru 15 prestaköll laus, og eru þessum embættismönnum ætlaðar 2 þús. kr. árstekjur eftir sitt 10–12 ára nám. N. flytur brtt. um það, að þeir, sem fara í þessi prestaköll, fái strax fulla aldursuppbót, eða 3 þús. kr. Er ekki hægt að segja, að það séu glæsileg kjör, a. m. k. ekki miðað við stýrimennina, sem fá allt upp í 9 þús. kr. laun eftir 2 ára nám. Og það er vafasamt, að það fáist embættismenn til að ganga að þessum embættum í sveit. En til þess að þetta verði ekki baggi á ríkinu, hefir fjhn. lagt til, að athugaðir séu möguleikar fyrir því að steypa saman prestaköllum, sem svarar þeirri upphæð, sem till. hefir í för með sér fyrir ríkissjóðinn. Það er nú kominn tími til að athuga eitthvað þessi launakjör áður en svo er komið, að ekki fæst nokkur maður til að fara út í sveitir landsins til að vera prestur eða læknir. Ég hygg, að það sé alls ekki stefna, sem Alþingi vill styðja til lengdar. Það er bersýnilegt, að allt er á hraðri leið í þá átt. Ég tel ekki líklegt, að þetta nægi til að bæta úr því ástandi, sem nú er í þessum efnum, þó að ég telji líklegt, að það hjálpi eitthvað frá því, sem er.

Þá hafa bv. þm. V.- Sk. og hv. þm. Dal. borið fram brtt. um það, að samsteypa prestakalla verði athuguð í samráði við hlutaðeigandi söfnuði. Vitanlega er slíkt sjálfsagt. Þannig á athugunin að fara fram, að athugaðir verði möguleikar fyrir því, að samsteypa komist á. En ég geri ráð fyrir, að fólk sjái, að það er miklu alvarlegra, ef enginn embættismaður fæst til að gegna embættunum, vegna þess að þeir geti ekki lifað, og leggist því embættin niður, eins og þau eru nú á hraðri leið að gera.