06.05.1938
Neðri deild: 66. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1068 í B-deild Alþingistíðinda. (1533)

47. mál, laun embætissmanna

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Í þessu frv. er gert ráð fyrir að hækka laun þeirra lækna, sem nú hafa byrjunarlaun, svo þeir fái fulla aldursuppbót þegar í upphafi. Ennfremur er sérstök brtt. frá hv. þm. V.- Sk. og fleiri hv. þm. um að þeir prestar skuli einnig fá hækkun á launum sínum, sem nú hafa byrjunarlaun. Það kann vel að vera, að ekki sé ósanngjarnt, ef hægt væri, að verða við þessum óskum um launahækkun, en ég vil spyrjast fyrir um, vegna þess að ég hefi gleymt því, hafi ég heyrt eitthvað um það frá hv. þm., hversu mikla fjárhagslega þýðingu þetta hvorttveggja muni hafa fyrir ríkissjóð. Ég veit, að hv. þdm. hafa kynnt sér, hvernig fjárl. standa, og ég verð að segja, að ég sé ekki, að kostur sé á að bæta neinum útgjöldum á fjárl. Ég hefði nánast álitið réttast, að þessu máli væri frestað til næsta þings og þá hefði farið fram athugun á, hvort ekki væri hægt að færa til annarsstaðar á launum til að mæta þessu. Ég geri þetta ekki að neinu kappsmáli út af fyrir sig, en óska eftir að fá það upplýst, sem ég hefi spurt um, því ég veit, að hv. frsm. n. muni hafa þær upplýsingar á reiðum höndum.