06.05.1938
Neðri deild: 66. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1069 í B-deild Alþingistíðinda. (1534)

47. mál, laun embætissmanna

*Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Út af fyrirspurn hæstv. fjmrh. um, hve mikil aukin útgjöld mundu stafa af frv. og brtt., má geta þess, að eftir því, sem landlæknir hefir gefið upp, vantar lækna í tvö læknishéruð, sem engir hafa fengizt í nú og mundu því koma undir þetta ákvæði. Mundi það nema 2 þús. kr. Um hækkun til prestanna, ef frv. yrði þegar framkvæmt, mundi það nema 20 þús. kr. En ég veit, að hæstv. fjmrh. hefir tekið eftir því, að gert er ráð fyrir í till. fjhn., að þessum 20 þús. kr. sé mætt með því að steypa saman prestaköllum, sem þessu svarar, eða að möguleikar fyrir því verði athugaðir, svo ekki yrðu af þessu meiri útgjöld fyrir það opinbera en sem svarar því, sem læknarnir þyrftu hærri laun, og það myndi verða 2 til 3 þús. kr. Ég hygg, að oft hafi verið samþ. frv-. hér á Alþ., sem haft hafa í för með sér meiri fjárhagslegar byrðar fyrir ríkissjóð, án þess að fram færi rannsókn milli þinga um, hve miklu upphæðin næmi. Þar sem það er álit mitt og fleiri hér, að hér sé um þýðingarmikið mál að ræða fyrir sveitirnar, þar sem menn fást ekki til að gegna þessum störfum fyrir svo lágt kaup, tel ég ekki, að löng bið megi verða á þessum framkvæmdum. En draga má saman prestaköll, svo að engin aukaútgjöld verði að þessu fyrir ríkissjóð, og því er þessi till. borin fram af n., að við álítum, að þetta mál mætti alls ekki bíða.