07.05.1938
Neðri deild: 67. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1071 í B-deild Alþingistíðinda. (1544)

47. mál, laun embætissmanna

*Jörundur Brynjólfsson:

Ég ætla aðeins að segja örfá orð, og þar sem fundartíminn er senn úti, ætla ég að hafa þau mjög fá og vænti, að það verði ekki til þess, að málið fái ekki afgreiðslu á þessum fundi.

Ég er satt að segja hálfhissa á gerðum þessarar hv. d. í þessu máli. Hér hefir áður verið haft á orði að fækka prestum allverulega, í því skyni ekki sízt að bæta launakjör þeirra, sem eru bágborin, svo að þeir menn, sem þessi störf vinna, gætu gefið sig að þeim óskiptir og aflað sér þess bókakosts og annars, sem þarf til þess að þeir geti rækt þessi störf eins og þjóðin hefir þörf fyrir, því aðalatriðið er vitanlega það, að við höfum góða kennimenn, en ekki, að þeir séu sem flestir að tölu, en skorti margt til þeirra hluta, sem þeim fyrst og fremst er ætlað að vinna.

Það hefir legið við borð undanfarið, að d. hafi fallizt á að bæta kjör presta og fækka þeim að verulegu leyti, en nú lítur út fyrir, að Alþ. ætli að binda hendur sínar í þessu máli, ef þetta frv. verður að l., og það þykir mér furðuleg meðferð. Það er ekkert, þó að Alþ. vilji bæta kjör presta. Ég hefi borið fram till. um það og sýnt með till., að ég vilji bæta þeirra hag, en þetta hefir verið virt að vettugi.

Í 2. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir því, að það megi einhverntíma síðar meir athuga, hvort ekki mætti fækka prestum, sem svaraði þeim auknu gjöldum, sem af frv. leiðir, sem mun svara til 4 prestsembætta yfir landið allt. En svo þótti þetta ekki nóg, því tveimur hv. þm. — ég ætla að það hafi verið kirkjuráðsmennirnir í þessari hv. d. — þótti ekki nógu vel um hnútana búið og fluttu brtt. um, að það skyldi þó aðeins gert í samráði við hlutaðeigandi söfnuði, og þó þarf ekki að efast um, hvernig það mál yrði túlkað í söfnuðinum, þegar til fækkunarinnar kæmi. Maður hefir séð dálítinn spegil af því, hvernig hefir verið hagað sér á meðal safnaðanna. Það hefir farið fram smalamennska til þess að fá fólkið til að mótmæla fækkuninni, og fólkið hefir verið að skrifa upp á hlöð til þess að þægjast þeim mönnum, sem að smalamennskunni hafa staðið.

Við höfum á annað hundrað presta, og það er á fimmta hundrað þús. kr., sem fer beinlínis til launagreiðslu til þeirra; auk þess er ekki talið það opinbera fé, sem lagt er til þessara mála, eins og til prestsetra, sem hvergi nærri eru greiddir vextir af. En látum þetta nú vera. Þetta væri fyrir sig, ef þjóðin hefði ráð á að greiða svona mikið til embættismannahalds. — Nú hefir verið talað fagurlega um það meðal kjósenda, að það þyrfti að fækka embættismönnum, en nú virðist Alþ. ætla að binda svo hendur sínar, að þetta kemur ekki til mála, eins og þetta er sett fram í 2. gr. frv.

Fyrir alllöngu var afgr. frá þessari hv. d. frv. um hækkun á launum hreppstjóra. Þessi launahækkun nam alls 14 þús. kr. En þetta þótti hreinasta goðgá. Þó eru þetta gagnleg störf, sem þessir menn verða að inna af hendi. Þeir hafa t. d. mikla fjárhagslega ábyrgð, verða að innheimta stórar fjárhæðir og margir verða að greiða úr eigin vasa þessi gjöld til þess að standa skil á þeim til hlutaðeigandi yfirvalds. Þetta mál mun nú eiga að drepa í hv. Ed., allt til þess að spara ríkissjóði þau útgjöld, sem þarna er gert ráð fyrir. Hreppstjórarnir eru þó á þriðja hundrað, og það eru aðeins 14 þús. kr., sem gert er ráð fyrir, að falli í þeirra hlut, en prestarnir liðlega hundrað; en þetta er samkvæmni í þessum gerðum, sem sýnir, hvers þeir mega vænta, sem verst eru settir, en vinna þó mikil nytjastörf í þágu landsins.

Ég hirði svo ekki um að hafa þessi orð fleiri, en ég vildi benda á þetta, svo að þeir hv. dm., sem greiða atkv. með frv., viti vel, um hvað þeir greiða atkv., ef þeir hafa ekki veitt því athygli, því ef þeir hafa athugað, um hvað 2., gr. frv. hljóðar, sýna þeir, að þeir hafa sér það ekki til afsökunar, hvernig þeir ætla að binda hendur þingsins. Ég býst nú við, að þetta mál komist í höfn, en vænti þó, að hv. þdm. telji sinni andlegu velferð eins vel borgið hinumegin, þó að þeir samþ. ekki frv. með þessum halaklepp aftan í.