10.05.1938
Efri deild: 71. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1075 í B-deild Alþingistíðinda. (1559)

47. mál, laun embætissmanna

Páll Zóphóníasson:

Herra forsetil Ég vil gjarnan, áður en frv. fer til atkv., gera grein fyrir minni afstöðu til þessa máls; og hún er sú, að ég er á móti því. Það stafar af þremur meginástæðum. Fyrst og fremst af því, að ég tel, eftir þeim fjárhagshorfum, sem nú eru hjá ríkinu og möguleikum okkar hér á Alþingi til að veita úr ríkissjóði til ýmissa hluta, þá sé mjög margt, sem frekar hefði átt að láta þessar ca. 30 þús. kr. í, sem þetta frv. kostar. Þetta er fyrsta ástæðan; þó ekki sú veigamesta.

Önnur ástæðan er, að ég er algerlega á móti því að ganga inn á þá stefnu, sem slegið er fastri í frv., að hver, sem fer í embætti hér á landi, skuli þegar fá fulla launahæð. Ég tel alveg rétta stefnu eins og verið hefir, að launin hækki upp í hámark eftir visst árabil í þjónustu. Frá þessari stefnu er horfið í frv., bæði að því er lækna í fámennari héruðum snertir og svo um prestana almennt.

Í þriðja lagi lít ég og hefi litið svo á, að sjálfsagt sé að stefna að því að fækka prestum — og fækka þeim verulega. Samgöngurnar alstaðar í landinu hafa breytzt þannig, að það eru orðin allt önnur skilyrði, sem prestar hafa til þess að geta veitt sína prestþjónustu, heldur en áður var. Og þar að auki hafa kröfur manna í landinu í heild breytzt hvað þetta snertir. Nú er að vísu svo mælt fyrir í 2. gr. þessa frv., að það eigi um leið að athuga möguleika fyrir samsteypu prestakalla, jafnframt því að ákveðið er að láta presta fara í hæstu laun í embætti beint frá prófborðinu, — en gera það í samráði við hlutaðeigandi söfnuði. Nú vita það allir menn, að þegar rætt er við einstaka söfnuði um það, hvort þeir vilji missa embættismann úr sókninni, sem borgar helmingi hærra útsvar en fjöldinn, og ýmislegt fleira í því sambandi, þá segir viðkomandi söfnuður alltaf nei. Ekki að honum sé ekki sama um prestþjónustuna, sem viðkomandi prestur veitir, heldur er þar ýmislegt annað, sem blandast inn í. og þess vegna er þessi fyrirhugaði sparnaður með samsteypu prestakalla, sem frv. fjallar um, = 0, og kemur ekki til greina. Við horfumst í augu við veruleikann, og hann er sá, að um leið og þessi gr. er samþ., er gengið út frá því, að prestaköllin verði yfirleitt eins og þau eru nú, en fækkun presta engin, að prestarnir komist í byrjun á full laun, bæði þeir, sem eru nú, og þeir, sem bætast við. Svo að þetta kostar alltaf full 20 þús. kr. aukalaun fyrir presta, í stað þess, að við með hægu móti getum sparað svo mikla presta, að þetta hefði getað náðst upp og laun prestanna orðið sæmileg, hefði verið horfið að því ráði að fækka þeim. En nú er því þvert á móti slegið föstu, að prestarnir skuli vera jafnmargir hér eftir og hingað til.

Af þessum þremur ástæðum er ég á móti frv. Ég vil ekki ganga inn á þá braut, að láta mann frá prófborðinu ganga í embætti með hæstu launum. Ég vil láta hann áður geta þroskazt og vaxið í starfinu. Og í öðru lagi vil ég láta það liggja opið fyrir, að Alþingi geti fækkað prestum í landinu og steypt saman prestaköllum, án þess að þurfa að bera það undir hvern einstakan söfnuð; því að með því móti fæst það aldrei.

Máli þessu er sýnilega ætlað að ganga fram, með því að því er hraðað svo mjög á síðustu dögum þingsins, — en var saltað allan fyrri hl. þings. Ég mun ekki kæra mig um að tefja fyrir málinu með umræðum, en greiði atkv. á móti því.