11.05.1938
Efri deild: 73. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1083 í B-deild Alþingistíðinda. (1604)

126. mál, vatnalög

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Mál þetta var til 2. umr. í gærkvöldi hér í hv. d., og þá var það, að ég vék mér fram á gang í miðjum umr. um næsta mál á undan, og leit þá ekki út fyrir, að þeirri umr. yrði bráðlega slitið. En þegar ég kom aftur inn eftir 1–2 mín., þá var byrjað á atkvgr. um þetta mál. Ég átti að hafa framsögu í málinu, en umr. hafði þá verið slítið í miðju kafi í næsta máli á undan, og engin tilraun hafði verið gerð til að gera mér aðvart um, að þetta mál yrði tekið fyrir þá strax á eftir. En það hefir verið venja hér, og forseti Nd. hefir líka þá venju jafnan. að gera frsm. viðvart, þegar mál eru tekin fyrir, sem þeir hafa framsögu í. Hæstv. forseta er kunnugt um, að ég fer ekki út úr Alþ. á meðan á fundi stendur í d., nema með leyfi hans. Þó þetta kæmi ekki að baga, þá er það samt búið að svipta mig því öryggi, sem ég áður þóttist hafa um það, að forseti gerði mér sem frsm. aðvart um þau mál, sem ég á að hafa framsögu í, áður en þau eru tekin fyrir. Það má kannske segja, að ég hefði átt að sitja í d. meðan á fundi stæði. En það eru margir, sem syndga í þeim efnum og víkja í burtu.

En svo ég víki mér að frv. sjálfu, þá er um það að segja, að landbn. er sammála um að mæla með því, að það verði samþ. Í raun og veru er þessu máli þannig varið, að sýslunefndum er ekki gert nauðsynlegt að fá sérstakt leyfi stjórnarvalda til þess að ganga í ábyrgð fyrir lánum, sem fengin eru fyrir samáveitur í sýslunni. Ég veit, að þetta er nokkur hjálp og liðlegheit við þessar samáveitur, en það er yfirleitt engin hætta fyrir héraðsstjórnina, því ég geri ráð fyrir, að flestar héraðsstjórnir gæti sín jafnan um þessar ábyrgðir sem aðrar, enda er það í flestum atvikum og ef það er sæmilega undirbúið, að þessar áveitur lífga upp héraðið og hjálpa því. Það er sízt ástæða fyrir löggjafann að hindra það, að þetta sé gert sem liðlegast, og þess vegna teljum við rétt að samþ. þetta frv. óbreytt.