28.04.1938
Neðri deild: 56. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1092 í B-deild Alþingistíðinda. (1634)

119. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Einar Olgeirsson:

Í sambandi við frv. það, sem hér liggur fyrir, hygg ég, að það komi nokkuð fram, hvaða afstöðu þingflokkarnir hafa gagnvart okkar erlendu skuldum og þeirri pólitík, sem eigi að reka í því sambandi. Því að það er í raun og veru eitthvert alvarlegasta sjálfstæðismál okkar, hvernig viðhorfið er um skuldirnar við útlönd. Þessar miklu skuldir, sem við erum í nú, álít ég sérstaklega tilkomnar fyrir tvennt. Í fyrsta lagi á tímabilinu frá 1917 til 1922, eins og skipulagsn. atvinnumála hefir skýrt vel, söfnuðust skuldir vegna þess, að 1917 var togaraflotinn seldur, útflutningur minnkaði stórum, en innflutningur óx að krónutali, og skapast „undirballansinn“ þá af því. Sumpart stafar hann þá líka af stríðinu og sumpart af yfirgangi Bandamanna í sambandi við togarasöluna. Í öðru lagi skapast á árunum milli 1920 og 1930 mikið af okkar skuldum, vegna þeirra tapa, sem stórútgerðin verður fyrir, og sumpart vegna þeirrar óstjórnar, sem frá hendi bankanna á þeim tíma á sér stað, Landsbankans og Íslandsbanka. Í þriðja lagi ber því ekki að neita, að allmiklar skuldir sem Ísland er í, hafa skapazt fyrir þær framkvæmdir, sem unnar hafa verið hér á síðasta mannsaldri, þar sem landið hefir verið byggt upp frá því fyrir 20 til 30 árum, er á Íslandi var tiltölulega lítið til af mörgu því, sem nú er til hér og lyft hefir atvinnuvegunum og aukið atvinnu í landinu.

En okkur stafar mikil hætta af skuldunum við útlönd. Ekki mest fyrir það. hvað þær eru miklar. Ég er ekkert hræddur við það út af fyrir sig, því að ég býst við, að Ísland, ef möguleikar þess eru notaðir vei, stæði vel undir þessum skuldum. En sérstaklega er það hitt, sem ástæða væri fremur að óttast að skuldir þessar eru að mestu leyti, eða um 3/4 hlutar þeirra, á einum stað, þ. e. við England. Af því stafar tiltölulega mikil hætta, atvinnulega og fjárhagslega. Sérstaklega álít ég þessa hættu alvarlega, þegar tekið er tillit til þess, að í áhrifamiklum stöðum, eins og stjórn Landsbankans, eru menn, sem taka mikið tillit til þeirra skoðana, sem ríkjandi eru hjá stjórnendum hinna ensku banka. Ég tel aðalhættuna liggja í því viðvíkjandi okkar skuldum. hvað þeir menn, sem valdamestir eru í okkar fjármálum (ég á þar með ekki við hæstv. fjmrh.), virðast standa í nánu sambandi við þá, sem fara með enska fjármálavaldið, eins og nokkurskonar undirtyllur þeirra.

Þegar athugað er frv. það, sem hæstv. fjmrh. leggur hér fram um 12 millj. kr. lántöku á yfirstandandi ári og næstu árum, þá er nauðsynlegt, að hv. þm. geri sér grein fyrir því, á hvern hátt við getum tekið þetta lán án þess að auka þá hættu, sem nú liggur fyrir viðvíkjandi sjálfstæði landsins út á við, og verði sammála um þau skilyrði, sem þyrfti að setja fyrir því, að þetta lán verði tekið á þann hátt, að sjálfstæði landsins stafaði ekki sérstök hætta af. Ég býst við, að það sé almenn skoðun hjá þm., og við kommúnistar erum líka þeirrar skoðunar, að nauðsynlegt sé fyrir landið að fá lán. og að ekki verði komizt út úr þeim örðugleikum, sem fyrir hendi eru, hvorki afborgunum skuldu né að afla fjár til nauðsynlegra framkvæmda á næstunni, án þess að fá lánsfé inn í landið. Spurningin er þá: Með hvaða skilyrðum megum við taka lánið? Hvernig eigum við að taka lán, án þess að aukast þurfi hættan fyrir okkar sjálfstæði með vaxandi skuldum við útlönd? Fyrst og fremst þarf að leita fyrir sér um að fá þetta lán til annara landa en Englands. Ég álít, að það væri líka mjög heppilegt, að sú skoðun kæmi fram í þinginu, að það hefði mikla þýðingu fyrir okkur í sambandi við okkar lán erlendis, að þeim væri meira dreift, en þau ekki látin vera við eitt land að mestu leyti. Það er ekki vafi á því, að það er hættulegt fyrir áhrifin á fjármálapólitík landsins, að eitt stórveldi — því að við vitum, hversu náið samband er á milli ensku bankanna og ensku ríkisstjórnarinnar — hafi svo að segja úrslitaáhrifin í sambandi við okkar skuldir. Og nú er það vitanlegt, að í einu landi ætti að vera mun þægilegra fyrir okkur að skulda en í Englandi, það er í Svíþjóð. Það mundi vera tiltölulega lítil hætta á, að reynt yrði að nota sér það beinlinis pólitískt, þó að við værum þar í miklum skuldum, og hinsvegar er þar líka afarmikið framboð á lánsfé. Þar að auki höfum við tekið lán í Svíþjóð á sama tíma sem það hefir ekki reynzt mögulegt fyrir okkur að fá lán frá Englandi. Fleiri lönd geta einnig komið til greina, sérstaklega I3amlaríkin. En ég held, að það væri sérstaklega nauðsynlegt fyrir okkur í þessu sambandi að leitast við að fá lán annarsstaðar en í Englandi. Og ég vildi beina þeirri fyrirspurn til hæstv . fjmrh., ef hann hefir ekki á móti því að gefa upplýsingar um það, eins og málið liggur fyrir nú, hvort það sé ekki haft fyrir augum að leitast við að fá lán annarsstaðar en í Englandi. Ég held, að það þurfi að breyta til frá þeirri fjármálaeinangrun, sem við höfum verið í, og leita fjármálasambanda annarsstaðar.

Þá held ég í öðru lagi, að í sambandi við þetta þurfi að athuga það mjög vel, hverjir það verða, sem fengin er stjórnin á þessu lánsfé, þegar það kemur inn í landið. Nú sé ég það á grg. frv., að það er tilætlun hæstv. fjmrh., að það sé ríkisstjórnin sem slík. sem hafi sem mest með þetta lánsfé að gera sjálf, en ekki bankarnir, og ríkisstjórnin láni svo beinlinis út til bankanna, svo framarlega sem þeir standa í skilum með sínar afborganir. Ég álít þetta heppilegt, en hitt óheppilegt, að sérstaklega sá aðili, sem mest hefir haft að gera með lánveitingar undanfarið, Landsbankinn, hafi yfirstjórn þessa lánsfjár. Ég álít, að þau tiltölulega miklu völd, sent Landsbankinn hefir haft um stjórn Lánsfjár, eigi að minnka, þeim eigi að hnekkja, en að það eigi að vera ríkisstjórnin sjálf, þ. e. a s. Alþingi, sem eigi að hafa þessi völd. Ég álít mjög gott, að það kæmi skýrt fram hér á Alþ., að þetta væri vilji þess. Reynslan er ekki svo glæsileg af því, hvernig fjármálastjórn Landsbankastjórnarinnar hafi verið að undanförnu, að óskandi sé. að sú stjórn fari með þetta lánsfé.

Ég held, að það sé ekki úr vegi, þó að það heyri ekki beint undir þessar umr., að það sé athugað, hvernig farið sé með þann gjaldeyri, sem við nú ráðum yfir, og hvernig tilætlunin sé, að við fórum með þann gjaldeyri, sem við munum hafa yfir að ráða. Eftirlitið með okkar gjaldeyri nú er afarslæmt. Ég kom með fyrirspurn til hæstv. fjmrh., sem hann hefir ekki haft tíma til að svara. Ég vil nú beina því til hans, hvort hann vilji ekki upplýsa okkur um það, hve mikill gjaldeyrir hefir komið til bankanna á síðasta ári. Það er í raun og veru engin stofnun í landinu, sem hefir eftirlit með því, að gjaldeyrir sá, sem kemur inn til bankanna eða á að koma það eftir lögunum, komi aliur þangað, né heldur, sem gefur út nokkuð um það, hvernig gjaldeyririnn, sem inn kemur, er notaður, svo nokkuð nákvæmlega sé. Ég vil nú spyrja hæstv. fjmrh.: Hve mikið hefir komið inn til bankanna, Landsbankans og Útvegsbankans, af þeim millj.. sem flutt var út fyrir á síðasta ári? Og hvað stendur inni á hinum lokuðu „contórum“ Íslands í Ítalíu og í Þýzkalandi? Og hve mikið hefir verið afhent til þeirra, sem nota meira sinn erlenda gjaldeyri sjálf, til S. Í. S. og annara slíkra félaga? Ef ekki fæst svar við þessu, mun ég koma með fyrirspurn um tölur viðvíkjandi þessum atriðum.

Hv. þm. SjálfstfI. halda því fram, að það sé mjög mikið núverandi hæstv. ríkisstj. að kenna, hvað skuldirnar hafa vaxið. Þetta mun vera aðeins einn liður í þeirri viðleitni Íhaldsins um að bera sífellt blak af bankavaldinu hér á landi og reyna að skjóta því undan þeirri réttlátu gagnrýni, sem eðlilegt er, að það verði fyrir fyrir sína stjórn og afskipti öll af fjármálum landsins. Ég býst við, að aðalsök ríkisstjórnarinnar, hvað snertir afskipti fjármálanna út á við, sé sú, að hún hafi látið bankastjórn Landsbankans verða allt of einráða um fjármál landsins. En vegna þess að hv. þm. G.- K. sagði, að afstaða Sjálfstfl. mundi koma fram við 2. umr. gagnvart þessu máli, ætla ég að geyma mér frekari umr. um þetta.

Viðkomandi því að taka 12 millj. kr. lán á 3 árum fremur en á einu ári vil ég segja það, að margt mælir með því, að það sé búið að taka lánið áður en kreppa skellur á, sem búast má við, áður en langt liður, eða styrjöld, sem einnig er veruleg hætta á. Ef víðtækt stríð brýzt út, er áreiðanlega betra, að búið sé að taka lánið áður. Nú höfum við kommúnistar komið með till. um það, að kosin verði n.; sem skipuð sé mönnum úr öllum fl. þingsins, til þess í samráði við ríkisstjórnina að gera undirbúning í sambandi við að mæta slíkri kreppu eða styrjöld. Ég álít alveg sérstaklega heppilegt, að ríkisstjórnin hefði um þetta mál meiri samvinnu við þingflokkana alla eða n., sem þeir ættu allir fulltrúa í, heldur en annars hefir tíðkazt. Ég held, ef úr því yrði, að farið væri að taka 12 millj. kr. lán, að sérstaklega heppilegt væri, að allir þingfl. fengju að leggja orð í belg um það, hvar lánið yrði tekið og hvernig því yrði varið. Hæstv. fjmrh. kom fram með þá aths., að e. t. v. væri það ekki praktískt að láta það af þessu fé allt liggja í sjóði, sem ekki yrði notað strax. Ég álit einnig, að ef við tækjum 12 millj. kr. lán, þá væri ekki heppilegt að láta það liggja þar með lágum vöxtum, en borga svo af því hærri vexti til lánardrottna eða lánardrottins. Það yrði því þýðingarmikið þjóðhagslegt spursmál, hvernig því fé yrði strax varið. Þá kemur til greina, hvort ekki ætti að verja því í allstórar framkvæmdir innanlands, sem ætla mætti, að gæfu nokkuð öruggar tekjur í erlendum gjaldeyri, þannig að hægt væri að hjálpa til með gjaldeyris-„ballansinn“ og um leið að auka atvinnu innanlands og tryggja afkomu þjóðarinnar.

Ég hygg, að í sambandi við þessa væntanlegu lántöku ætti þó athuga það sérstaklega vel, hvort ekki sé hægt að komast að góðum lánsskilyrðum annarsstaðar en í Englandi til þess að borga upp sem mest af lánum, sem tekin hafa verið í Englandi. Ég hygg, að það sé ekki nægilega athugað, hvort við getum ekki í þessu efni farið að dæmi annara þjóða, sem taka ný lán til að borga upp erlend lán, sem greiða þarf háa vexti af, og bæta þannig lánakjör sin. Ef um sérstaklega mikið lán væri að ræða, væri ekki fjarri að fá það í Svíþjóð. En gera má ráð fyrir e. t. v., að það komi kannske til greina af hálfu erlendra lánardrottna, að þeim muni þykja erfitt að lána hingað til landsins, þegar við höfum að skipta við jafn hlutfallslega stóran lánardrottin eins og England er fyrir okkur. Það mundi t. d. vera miklu þægilegra fyrir sænska banka gagnvart sænsku ríkisstjórninni að lána okkur, ef Svíþjóð hefði þar með hlutfallslega stóran hluta af skuldum Íslands hjá sér, en væri ekki eins og bara smávægilegur aðili í því sambandi, samanborið við Bretland. Þessi möguleiki á að færa til skuldir okkar ætti að vera mikill, eins og nú standa sakir. Fjöldi landa í Evrópu hafa ekki staðið í skilum með greiðslu sinna skulda. Ísland er eitt af þeim fáu löndum, sem hafa gert það. Það ættu því að vera tiltölulega miklir möguleikar á að afla slíku landi lánsfjár. Ég hefi ekki reiknað það út, en býst við, að hæstv. fjmrh. hafi gert það, hve miklu það munar okkur, ef hugsanlegt væri að fá lán með lægri vöxtum en við þurfum nú að borga af okkar lánum. Sjálfsagt gæti það munað okkur miklu. Ég álít nauðsynlegt í sambandi við þetta mál að athuga, hvernig því láni skuli varið, ekki sízt á þeim tíma, meðan ekki er búið að nota það allt til þess að greiða þær afborganir, sem fyrir liggur að greiða, og ég álit, að þá sé sérstaklega þýðingarmikið, að athugað verði nú þegar, hvernig það skuli sett fast, í hverskonar uppbyggingu eða hverskonar fyrirtækjum, og annað slíkt. Nú hefir hæstv. fjmrh. minnzt á það, að komið geti til mála að setja hér fram annað frv. um það, hvernig þessu láni skuli varið. Verði það gert, mun ég við komandi umr. þess máls koma fram með till. um það, að annaðhvort nefnd frá þingflokkunum eða þingflokkarnir á annan hátt gæti haft eitthvað um það að segja, hvar þetta lán yrði tekið og hvenær og hvernig það sérstaklega yrði notað. Með tilliti til framtíðarinnar álít ég heppilegast að hafa samkomulag milli þingflokkanna um þetta. Og þar sem þetta mál skiptir miklu út á við, álít ég æskilegt, að hægt væri að skapa sem mesta einingu um það á hæstv. Alþ.

Ég mun greiða atkv. með þessu frv. til 2. umr., en leggja fram við þá umr. till. okkar kommúnista um það, hvernig varið skuli þessu láni o. fl. því viðkomandi.