28.04.1938
Neðri deild: 56. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1096 í B-deild Alþingistíðinda. (1635)

119. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

*Þorsteinn Briem:

Það leiðir af sjálfu sér, að menn eru ekki við því búnir að taka endanlega afstöðu til þessa máls, sem hér liggur fyrir, þessari lántöku, þar sem ekki er hægt að lita svo á, að sú grg., sem frv. fylgir, sé fullnægjandi. Grg., sem ég skal annars ekki fara inn á einstök atriði í, er meira samin í algengum blaðamannastíl, í stað þess sem hún hefði þurft að vera vel undirbyggð; og a. m. k. hefði þurft að fylgja henni rækilegar skýrslur um hið raunverulega fjármálaástand. En þar sem svo er nú ekki gengið frá grg., nema að því er snertir afborganir af samningsbundnum föstum lánum með ríkisábyrgð, þá verð ég að beina þeirri ósk til hæstv. fjmrh., að hann gefi í þessu máli nánari skýrslu. Ég verð að fara þess á leit við hæstv. ráðh., að hann m. a. láti þinginu í té sundurliðaða skýrslu um allar lausaskuldir ríkissjóðs fyrst og fremst, og það því fremur sem ríkisreikningurinn fyrir árið 1936 er ekki kominn enn þá. Var honum þó lofað í upphafi síðasta þings. Þar næst vildi ég fara þess á leit við hæstv. fjmrh., að hann léti þinginu í té nákvæma skýrslu um skuldir allra ríkisstofnana, heildarskuldir þeirra eldri og nýrri, og upplýsingar um, hvað af þeim skuldum eru samningsbundnar skuldir og hverjar ósamningsbundnar, hverjar gamlar og hverjar nýjar. Jafnframt hefði ég viljað óska eftir nákvæmum skýrslum um lán, sem ríkið er í ábyrgðum fyrir. Fyrst og fremst. með hvaða kjörum þau eru tekin, hvað þau nema miklu í erlendri mynt og hvað miklu í innlendri mynt. Hvort staðið hefir verið í skilum með þau, eða hvort nokkuð er í vanskilum. Ég legg áherzlu á að fá skýrslur um þetta, og einnig um þau erlend lán, sem tekin eru í innlendri mynt.; því að þó að það heiti svo, að þau séu í innlendri mynt tekin, er vitað, að mikill hluti þeirra er í raun og veru erlendar skuldir, þ. e. a. s. skuldir við tryggingarstofnanir, við olíufélög og önnur stórfyrirtæki. Einmitt vegna þess, hvernig slíkum lánum er hagað, skiptir það miklu að fá skýrslur um þau. Einnig verð ég að óska eftir frekari upplýsingum og sundurliðaðri skýrslu um heildarskuldir þjóðarinnar út á við, því að tölum, sem fram hafa komið um það efni, ber ekki saman. Skipulagsnefnd atvinnumála taldi, að erlendu skuldirnar 1935 væru um 100 millj. Þar á eftir var tekið Sogslánið 61/2 millj., og það er ætlun margra, að síðan hafi frosið inni mikið fé í bönkunum. Hinsvegar ræð ég það af grg. þessa frv. — þó að það sé hvergi nærri skýrt fram tekið —, að hæstv. ráðh. telur skuldirnar ekki nema 90 millj. Vegna þessa ósamræmis í opinberum skýrslum verð ég að óska eftir, að hér komi fram nánari skýrslugerð, ekki aðeins um ríkisskuldirnar og bankanna, heldur og skuldir annara stofnana, firma og einstaklinga, og þá jafnframt grg. um, frá hvaða tíma þessar skuldir eru.

Ég bið um allt þetta, því að ég verð að álita, að þar sem ekki er nýtilkomið um erfiðleika þjóðarinnar, hafi ríkisstj. séð svo um, að bankarnir, hagstofan og aðrir aðiljar hafi unnið undirbúningsvinnu að því að afla þeirra skýrslna, sem ég nú hefi nefnt. En í sambandi við þessar skýrslur vil ég jafnframt spyrjast fyrir um það, hvort kannaðir hafa verið möguleikar einstakra fyrirtækja til þess að komast að greiðslusamningum á annan hátt en þann, að ríkið hlaupi undir bagga og taki sjálft lán. Ég heyri sagt. að stofnun ein, sem heyrir undir ríkið, hafi gert greiðslusamning um sínar erlendu skuldir. Ég veit ekki, hvort svo er um fleiri, en það væri æskilegt að vita það.

Þá kemst ég ekki hjá því að fara þess á leit í sambandi við það mál, sem hér liggur fyrir, að fá upplýsingar um, hvað opinberir aðiljar, sem hafa kynnt sér það efni, telji um hinar svonefndu „duldu greiðslur“. Þetta atriði er nátengt lausn málsins, sem fyrir liggur, en ég hygg, að opinberar skoðanir séu þar nokkuð á reiki. Því var lýst yfir af fjmrh. 1933, að duldu greiðslurnar væru 8–9 millj., en síðar hefir verið lýst yfir hærri tölu. Þessi ruglingur í opinberum yfirlýsingum gefur mér tilefni til að óska eftir fullkomnari grg. en fyrir liggur. í því sambandi óska ég sérstaklega eftir, að ríkisstj. láti þinginu í té álit Landsbankans um duldu greiðslurnar.

Þá vil ég einnig í sambandi við þetta mál óska eftir fullkominni skýrslu um, hvað hið svonefnda „innifrosna“ fé er mikið. Ég hefi nefnt einn liðinn, lán hjá tryggingarstofnunum og slíkt, en það er vitað mál, að innifrosið fé er meira en því nemur. Þess vegna verður ekki hjá því komizt að óska eftir svo fullkominni skýrslu um þetta sem unnt er að gefa. Verður að telja, að hið opinbera hljóti að hafa haft svo glögga gát á þessu, að það ætti að vera unnt að gefa slíka skýrslu. Ég geri ráð fyrir, að að því hafi verið unnið sem undanfara að flutningi þessa frv. —Jafnframt verð ég að telja nauðsynlegt, til glöggvunar á því raunverulega ástandi, og einnig til glöggvunar á möguleikunum til að standa undir skuldbindingum okkar, að látin verði í té nákvæm skýrsla um vörubirgðirnar í landinu. einkum vörubirgðirnar um síðustu áramót, birgðir af útflutningsvörum og af erlendum innflutningsvörum. Menn fá ekki gert sér nógu glögga grein fyrir hinu raunverulega fjármálaástandi, nema þetta liggi fyrir. Þessar skýrslur geri ég ráð fyrir, að séu fyrir hendi, en þær hafa ekki verið aðgengilegar fyrir einstaka þm.

Ég hefi óskað eftir þessum skýrslum m. a. vegna þess, að það er vitað, að skýrslur hagstofunnar um erlendar skuldir hafa ekki verið tæmandi. Það hefir vantað flestar erl. skuldir, sem eru taldar veittar í innl. mynt. Ef ekki eru fyrir hendi nægileg gögn til þess að gera að öllu leyti skýrslur um skuldir einstakra fyrirtækja, er hægt að setja þau viðurlög, sem duga, til þess að fá þau fljótlega. Ef látið er skina í, að óvíst sé um gjaldeyrisleyfi, nema skýrslurnar séu sendar, munu menn hraða sér með þær. Það er óhjákvæmileg nauðsyn, til þess að geta gert sér glögga hugmynd um, hvað gera á, að vita nákvæmlega, hvernig fjármálaástandið er í raun og veru.

Út í það, sem ýmsir aðrir þm. hafa talað um í þessu sambandi, hversu gæta skuli þess fjár, sem hér er um að ræða, og fjár, sem safnast kann fyrir hér, vegna þess, að hér verði greidd inn lán á ísl. reikning, sé ég ekki ástæðu til að fara, þó að það skipti mjög miklu í þessu sambandi, og ekki sízt það, hvort hætta getur verið á, að sú sjóðmyndun í ísl. gjaldeyri, sem ekki er hægt að færa út nema með góðærisskilyrðum. geti orðið til þess að skapa hættulega ólgu hér innanlands. Það er mál, sem þarf að ræða alveg sérstaklega, en ekki er ástæða til að fara nánar út í nú við 1. umr. En það þarf að gæta þess, að við sköpum ekki svo að segja ný skilyrði, sem herða á eða auka kröfur um innflutning og geri gjaldeyrisráðstafanirnar enn örðugri. Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. hafi tekið það atriði sérstaklega til umhugsunar og hafi sérstakar till. fram að bera í því efni.