28.04.1938
Neðri deild: 56. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1104 í B-deild Alþingistíðinda. (1638)

119. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég býst ekki við því, að við hv. þm. G.-K. getum orðið sammála um þessi mál. Og ef ætti að ræða þau til þrautar, tæki það langan tíma. En ég vil aðeins benda hv. þm. á, að það er vitanlega ekki alveg afgerandi um þessi mál, þótt fjárlögin hafi hækkað, og má segja, að það sé afleiðing af erfiðleikum atvinnuveganna. Það hefir verið varið stórum fjárupphæðum til skuldaskila og til beinnar aðstoðar við atvinnuvegina.

Þá vil ég álíta, að það þurfi ekki alltaf að skapa erfiðleika í gjaldeyrismálum, þótt fjárlögin hækki, ef í raun og veru er aflað tekna á móti þeim gjöldum. En þetta geri ég ráð fyrir, að við munum hafa tækifæri til að ræða síðar.

Ef hv. þm. telur, að árið 1926 hafi verið óhagstætt. — hvað má þá segja um undanfarin ár? Þó að verðlag á fiski hafi ekki verið nema 100 –120 kr. skp. 1926, þá hefir það nú undanfarið verið aðeins 70–80 kr. og afli þar að auki minni.

Annars ætla ég ekki að orðlengja frekar um þetta að þessu sinni.