09.05.1938
Neðri deild: 69. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1108 í B-deild Alþingistíðinda. (1642)

119. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Frsm. 1. minni hl. (Ólafur Thors):

Ræða hv. 2. þm. Skagf. (StgrSt) vekur undrun mína, og tel ég hann tala furðu óhyggilega um málið, ekki sízt fyrir það, að hann gæti átt á hættu, að einhver gerði hæstv. fjmrh. ábyrgan orða hans. Myndi margur ætla, að ráðh. kysi heldur unnan dag og annað mál til þess að gera upp misklíðina við undstæðingana, enda væri slíkt að vonum.

Við sjálfstæðismenn höfum ákveðið að beita okkur ekki gegn lántöku þessari, heldur sitja hjá við atkvgr. En ég sé nú það, að sú afstaða hefir orðið hv. frsm. nokkuð torskilin, og það er sjálfsagt af því, að hefði hann verið í mínum sporum, mundi hann hafa hagað sér öðruvísi heldur en ég hefi gert, — og þá greitt atkv. á móti frv.

Ég hefi hinsvegar talið, að ef treysta má fyrirheitunum í grg. frv., þá sé það rétt, að hér standi nokkuð öðruvísi á um þessa lántöku heldur en verið hefir um aðrar lántökur síðari ára. Það er, eftir grg. að dæma, tilgangur valdhafanna að verja þessu láni eingöngu til afborgana af lánum ríkisins, bæjarfélaga, stofnana og annara, sem ríkisábyrgð hafa. Ég hefi getið um það í mínu nál., að vitanlega er engin trygging fyrir því, þó þessi sé tilgangurinn í dag, að frá því verði ekki brugðið, þegar nýjar þrengingar kunna að steðja að. En ég hefi talið, að öryggið í þessum efnum sé alveg það sama, hvort heldur sem byggt er á fyrirheitum hæstv. fjmrh. í grg. eða sett væri um þetta sérstök löggjöf. Og það er af þeim ástæðum, að sérhver ríkisstj., sem út af þessu vildi bregða, getur að sjálfsögðu alltaf látið breyta slíkum lögum, ef hún teldi, að nauðir ræki til þess, og mundi engu siður gera það heldur en að taka á sig þá ábyrgð að rifta bæði fyrirheit þau, sem gefin eru í grg. frv. og við umr. um málið á Alþ.

Mér dettur heldur ekki í hug að fara dult með það, að ég tel, að þjóðin eigi við hin mestu gjaldeyrisvandræði að búa. Annars kæmi vitanlega ekki annað til mála en að Sjálfstfl. risi alveg öndverður gegn þessari lántöku. En ég fullyrði, að það hafi ekkert komið fram, hvorki í nál. hv. meiri hl. né ræðu hv. frsm., sem raski þeirri skoðun okkar sjálfstæðismanna, að ef stefna okkar hefði ráðið hér á landi, þá hefði þessi þörf ekkí verið fyrir hendi nú, því að einstaklingsframtakið hefði þá verið miklu tápmeira og því skapað meiri gjaldeyrir, alveg eins og hitt er líka víst, að við hefðum reynt að draga úr útgjöldum ríkisins, og þá hefði gjaldeyrisþörfin orðið minni.

Hv. frsm. meiri hl. dró í efa þessa fullyrðingu mína og vildi fyrir því færa þau rök, að Sjálfstfl. hefði aldrei látið orð um það falla, að hann óskaði eftir annari stefnu í fjármálum. En þessum hv. þm. hlýtur að vera það kunnugt, að á hverju einasta þingi síðan þessi stj. tók við völdum, hefir Sjálfstfl. viljað hafa samkomulag við hana um stórvægilegan niðurskurð á fjárl. Það er rétt, að hæstv. fjmrh. hefir krafizt þess af Sjálfstfl., að hann tæki sérstaklega til, hvar ætti að skera niður, en Sjálfstfl. hefir svarað því, að það sé skylda fjmrh. að taka á sig þá erfiðleika að benda á, hvar niðurskurðurinn ætti að koma niður, en eigi hinsvegar að taka feginsamlega yfirlýsingum frá hendi andstöðuflokks um það, að hann vilji afgreiða tekjuhallalaus fjárl., enda þótt verulegur niðurskurður sé á gerður. Sjálfstfl. hefir líka sýnt þetta í verkinu. Mig minnir, að það hafi verið á þinginu 1934, sem hann gerði till. um 700 þús. kr. niðurskurð, og gaf þá yfirlýsingu, að hér væri aðeins um tilraunir að ræða, sem hann ætlaði að halda áfram, ef sæmilegar undirtektir fengjust. En þessar till. voru allar drepnar, og svo var meira að segja sú ósanngirni og óskammfeilni höfð í frammi, að eftir að búið var að drepa þær till. til niðurskurðar, tóku stjórnarblöðin sig til og töldu allar þær brtt. við fjárl., sem sjálfstæðismenn höfðu flutt, lögðu þær saman og töldu svo, að sjálfstæðismenn hefðu viljað afgreiða fjárl. með þeim halla, sem á þeim hefði orðið, ef till. ríkisstj. hefðu fyrst verið samþ. og svo till. sjálfstæðismanna. En það liggur í augum uppi, að þegar sjálfstæðismenn gátu ekki fengið neitt samkomulag um niðurskurð, bar þeim að benda á þarfir sinna héraða með því að leggja fyrir þingið uppástungur þeim héruðum til framdráttar, en auðvitað var það ætlunin, að stjórnarliðið gæti valið og hafnað, hverjum af þeim till. Sjálfstfl. þeir gætu fylgt og hverjum ekki. — Það er ennfremur á allra vitorði, að á þinginu 1936, þegar núverandi formaður Framsfl. átti sæti í fjvn., var gert samkomulag milli framsóknarmanna og sjálfstæðimanna um niðurskurð á fjárl., sem nam heilli millj., en á meðan gerðu framsóknarmenn jafnframt samkomulag við jafnaðarmenn um að hækka útgjöld fjárl. — Það hefir því ekki farið leynt, að Sjálfstfl. hefir verið reiðubúinn til þess að semja við ríkisstj. um verulegan niðurskurð, en um það hefir aldrei getað náðst samkomulag.

Hitt er svo öllum vitanlegt, sem um þessi mál fjalla. að þess er enginn kostur, að tryggja gjaldeyrisþörf þjóðarinnar eingöngu með því annarsvegar að beita þungum skattaálögum, þannig að ríkissjóður hafi handbært fé til sinna þarfa, og svo hinsvegar með því að beita innflutningshöftum með hörku. Þetta vita framsóknarmenn nú, að ekki er hægt. Enda kom það greinilega fram hjá hv. frsm. meiri hl., því að hann var að lýsa því yfir, að þrátt fyrir röggsamlega beitingu innflutningshaftanna og þrátt fyrir „ágætan greiðslujöfnuð“, þá væri nú svo komið, að gjaldeyrisskorturinn væri sífellt varandi. Það er hægt fyrir þá, sem trúa á ágæti innflutningshaftanna, að segja, að hið bága atvinnuárferði gæti valdið því, þrátt fyrir innflutningshöftin, að greiðslujöfnuður hefði ekki náðst. En þeir, sem tala sérstaklega um það, eins og hv. frsm. meiri hl. gerði, að þrátt fyrir þennan góða greiðslujöfnuð fari gjaldeyrisskorturinn vaxandi, eru að benda á það, að innflutningshöftin séu ekki einhlít. Og það er rétt. Það er ekki hægt að tryggja gjaldeyrisþörf þjóðarinnar, allra sízt í erfiðu árferði, þegar ekki er fyrst og fremst lögð áherzla á það að skera niður útgjöld ríkis og bæjarfélaga og yfirleitt opinber útgjöld, og svo hinsvegar að reyna að koma fótum undir atvinnulíf landsmanna, þannig að framleiðslan sé rekin tekjuhallalaus og helzt með sæmilegum afrakstri. Við hliðina á þessum ráðstöfunum kemur svo náttúrlega til athugunar beiting innflutningshaftanna, sem undir vissum kringumstæðum geta verið hagkvæm, þó að það sé í langtum minni mæli heldur en almennt er talið af flokki hv. frsm. meiri hl. Og að við sjálfstæðismenn þó ekki höfum risið harðar gegn innflutningshöftunum heldur en við höfum gert, stafar sumpart af því, að vegna verzlunarsamninga okkar við önnur ríki hefir a. m. k. verið erfitt að komast hjá því að innflutningshöftum væri að meira eða minna leyti beitt.

Ég hefi í nál. mínu gert alveg eðlilega grein fyrir afstöðu minni til þessa máls. Ég hefi sagt, að ég viðurkenni, að lánsþörf sé fyrir hendi. En hinsvegar er það vitað, að við sjálfstæðismenn lítum svo á, að ef stefna núverandi ríkisstj. í fjármálum og atvinnumálum verður óbreytt frá því, sem hún hefir verið undanfarin ár, því verði slík lántaka aðeins til þess að tjalda til einnar nætur, en komi ekki að haldi. Það er þess vegna eðlilegt, að við sjálfstæðismenn eigum í nokkru stríði milli holds og anda, þar sem við annarsvegar sjáum, að það orkar a. m. k. tvímælis, hvort þjóðin kemst af án lánsins, en treystum því hinsvegar ekki, að lánið komi að haldi, nema ríkisstj. breyti um stefnu. Af þessum ástæðum viljum við að vísu ekki greiða atkv. með þessu frv., en hinsvegar ekki beinlínis setja okkur á móti því. En ég ætla að leyfa mér að draga í efa, eftir því sem hv. frsm. meiri hl. talaði um þetta mál, að hann hefði í stj.andstöðu neitað sér um að taka þá afstöðu, að vera alveg á móti þessari lántöku. Ég hefi aldrei heyrt frsm. meiri hl., sem talar í umboði fjmrh., telja sér hag í því eða sinni skynsemi samboðið að ögra minni hl. eða eiginlega skora á hann að kasta fyrir borð sinni ábyrgðartilfinningu og reyna að reisa öldurnar sem hæst til djöfulskapar.

Ég veit að meðal margra stj.andstæðinga, sérstaklega þeirra, sem minni þekkingu hafa á landsmálunum, eru uppi óskir um það, að þingflokkur Sjálfstfl. risi alveg öndverður gegn þessari lántöku. Og þessum mönnum er vorkunn, svo lengi sem þeir eru búnir að horfa upp á fjármálastefnu núverandi valdhafa, og ég er ekki í vafa um, að þingflokkur sjálfstæðismanna leggst undir ámæli hjá mörgum þessara manna fyrir að taka þá afstöðu til þessa máls, að láta atkvgr. afskiptalausa. En að þingflokkurinn samt sem áður tekur afstöðu, stafar af því, að hann hefir meiri kunnugleika um það, hvernig komið er hag ríkis og þjóðar, heldur en almennt má ætla, að kjósendur landsins hafi í hvaða flokki sem er. Og við höfum talið það ábyrga afstöðu frá okkar hendi til slíks máls, að reyna að forðast að þetta mál verði til þess að vekja stórar deilur í þjóðfélaginu. Er það af minni hendi ekki af neinni linkind í garð ríkisstj., heldur af því, að ég viðurkenni, að eins og komið er hag þjóðarinnar, er ég ekki ugglaus um það, að hún sigli ómeidd út úr erfiðleikunum, ef Alþ. neitar ríkisstj. um þessa lántökuheimild. Og það er ekki samboðið talsmanni hæstv. fjmrh. í þessu máli að vera að ögra mér og mínum flokki út af slíkri afstöðu. En ég get vel lýst því yfir, til þess að létta raunir hv. frsm., því að ég þykist vita, að hann hafi haft þetta að lítt yfirveguðu máli, að ég læt þetta ekki hafa mikil áhrif á mig, en þetta er óheppileg framkoma, og gæti verið að þeir, sem eru meiri skapmenn en ég, létu þetta hafa einhver áhrif á sig.

Ég vil svo að öðru leyti, út af ræðu hv. frsm., drepa á örfá minni atriði, en skal ekki verða langorður.

Ég held, að það sé ekki rétt hjá bv. frsm., að þetta sé í fyrsta skipti, sem ekki hafi náðst fullt samkomulag um lántöku milli stærri flokka þingsins. Ég man ekki betur en að Sjálfstfl. greiddi ekki atkv. með lántökunni 1935.

Og út af því, hvort það verði þjóðinni ofraun að greiða skuldir sinar á næstu 20 árum, vil ég segja það, að ég dreg það í efa. En það snertir ekki þetta mál, sem hér liggur fyrir, því að ég er þeirrar skoðunar, að okkur verði það eins og sakir standa í ár, vegna þeirra erfiðleika, sem við eigum við að stríða, ekki mögulegt að greiða af skuldum, nema betur úr rætist en á horfir. En ég er samt ekki úrkula vonar um, að við megum ætla okkur þetta á næstu 20 árum. Hitt er svo annað mál, að við tökum á þeim tíma að sjálfsögðu ný lán, væntanlega til nýrra framkvæmda í landinu.

Út af hugleiðingum hv. frsm. meiri hl. um það, hve mikill missir það sé fyrir þjóðarbúið, hvað saltfiskveiðarnar hafa brugðizt, annarsvegar, og svo hinsvegar, hver kostnaður hafi orðið af síldveiðiaukningunni, þá vil ég aðeins leyfa mér að leiða athygli að því, að eins og það er að vísu rétt, að við höfum orðið að leggja út í kostnað vegna aukinna síldveiða, þá er hitt líka rétt, að þorskurinn hleypur heldur ekki kostnaðarlaust niður í lest skipanna, og náttúrlega því meiri sem þorskveiðarnar eru, því meira þarf alla jafna af kolum, olíu, veiðarfærum o. s. frv. Og saltfisksaflinn er nú, eins og réttilega hefir verið tekið fram, mínni, ekki eingöngu vegna þess, hvað afli hefir verið tregur, heldur líka, að vegna tregs afla hefir útgerðartíminn verið styttri.

Ég ætla ekki að tefja tímann með miklum umr. um það, hvers vegna fjárl. hafi hækkað. En það er sá stóri stefnumunur milli stj.andstæðinga og stjórnarliða, sem þar liggur til grundvallar. Ríkisstj. hefir talið sér skylt, þegar eitthvað hefir bjátað á um framtak einstaklingsins, að taka þar við, sem einstaklingnum lauk, en hefir svo rekið sig á, að þetta kostaði peninga, og til þess að standast þann kostnað, hefir hún lagt á nýja skatta, en ekki gætt þess, að sumpart hefir niður fallið framtak einstaklingsins vegna hinna þungu klyfja þess opinbera. Þannig hefir ein syndin boðið annari heim. Þessi stefna er frá sjónarmiði Sjálfstfl. óheppileg og hefir leitt út í ógöngur. Hér er um málefnalegan ágreining að ræða milli Sjálfstfl. og stjórnarliða. sem ég að öðru leyti skal ekki fara út í að þessu sinni.

Skal ég svo láta þessum málflutningi mínum lukið að þessu sinni, en að sjálfsögðu verður ekki hjá því komizt að taka eitthvað frekar til máls áður en umr. slítur.