09.05.1938
Neðri deild: 69. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1112 í B-deild Alþingistíðinda. (1643)

119. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

*Finnur Jónsson:

Mér þykir rétt að lýsa afstöðu Alþfl. til þessa máls, þótt hún að vísu komi fram með undirskrift minni í nál. meiri hl. n.Alþfl. greiðir þessu frv. að sjálfsögðu atkv., þar sem hann lítur svo á, að gjaldeyrisvandræðin séu að engu núverandi ríkisstj. að kenna, heldur stafi af þeirri miklu rýrnun, sem orðið hefir í saltfisksmarkaðinum. Það er einnig við þessa lántöku að athuga, að með henni er ætlað að greiða niður afborganir og vexti af skuldum ríkissjóðs, bæjar- og sveitarfélaga o. fl., sem nú munu vera látin sitja fyrir með yfirfærslur. Þessi lántaka mun þannig beinlínis, ef gert er ráð fyrir sama útflutningi og á síðasta ári, geta létt fyrir innflutningi á nauðsynjavörum, sem útgerðarmenn og kaupsýslumenn annars ekki gætu fengið yfirfærslur fyrir. Það er því furðulegt, að einmitt þeir, sem hér á Alþ. tala mest um þarfir útgerðarmanna og kaupsýslumanna, skuli beita sér gegn þessu frv. eða hafa slíka afstöðu sem hv. þm. G.-K., að tala í öðru orðinu með frv., en í hinu á móti því, þora sem sagt í hvorugan fótinn að stíga. Það er enginn vafi á því, að ef þetta lán fæst, mundi það létta mikið fyrir um yfirfærslur, ekki einasta fyrir þessi fyrirtæki, heldur einnig fyrir allan almenning.

Hv. frsm. mínni hl., þm. G.- K., kvað svo að orði um annað mál, sem hér var á dagskránni rétt á undan (hitaveitulánið), að við ættum allir að sameinast um það, og að öðru leyti hafði hann það yfirlæti í frammi, að hann lýsti því yfir f. h. bæjarstjórnarinnar í Reykjavík, að hún mundi þiggja ríkisábyrgð fyrir því láni. Þegar um er að ræða að bjarga bæjarstjórnarmeirihlutanum í Rvík. út úr öðrum eins ógöngum og hann hefir komizt í gegnum þær kosningablekkingar, sem hann hafði í frammi við bæjarstjórnarkosningarnar í vetur, þá vill hv. þm. G. K endilega hafa sameiningu og samvinnu við aðra flokka og „þiggja“ til þess ríkisábyrgð. Mikið var! En þegar um er að ræða að létta undir með útgerðinni og kaupsýslumönnum að fá gjaldeyri, þá hefir þessi hv. þm. þá einkennilegu aðstöðu, sennilega f. h. síns flokks, að hann þorir í hvorugan fótinn að stiga, og þá líklega vegna þess, sem hann hefir lýst yfir, að allmargir innan Sjálfstfl. eru þannig gerðir, að þeir mundu vilja stinga úr sér bæði augun, til þess að geta stungið annað augað úr stj.fl.

Hv. þm. G. K. segir í nál. sínu, að „minni hl. hafi ekki verið til kvaddur, þegar teknar voru þær óheillaákvarðanir, er leitt hafi til gjaldeyrisskortsins“. Nú er það vitanlegt, að þær „óheillaákvarðanir“, sem að mestu leyti hafa leitt til gjaldeyrisskortsins, eru auk aflaleysisins borgarastyrjöldin á Spáni, og það er náttúrlega gott að heyra það, að Sjálfstæðisfl. hefir ekki verið til kvaddur, þegar þær ákvarðanir voru teknar á Spáni, að fara út í borgarastyrjöld.

Annars er það svo með þetta nál. hv. þm. G.- K., að það mun vera í rauninni nokkuð einstakt í sinni röð. Hann segir þar m. a., að hér sé um að ræða vanskil ríkisins eða lántöku, og viðurkennir þörf þjóðarinnar fyrir nýtt erlent lánsfé, en þrátt fyrir þessar viðurkenningar kemst hann að þeirri niðurstöðu, að rétt sé af Sjálfstfl. að halda að sér höndum og greiða ekki atkv. M. ö. o., ef ekki einhverjir aðrir vilja taka ábyrgð á því, að þjóðin lendi ekki í vanskilum, þá vill hv. þm. G.-K., hvað sem því liður, halda að sér höndum og leiða yfir þjóðina vanskil og skort á erlendum gjaldeyri. —

Þá er öllum þingheimi vitanlegt, að því fer svo fjarri, að það sé stefna ríkisstj. í gjaldeyrismálum, sem leitt hefir gjaldeyrisvandræðin yfir þjóðina, og hv. þm. G.- K. veit þetta alveg eins vel og hver annar, þótt hann neiti því í þessu dæmalausa nál. sínu. Hann hefir margoft hér á Alþ. gefið yfirlit yfir þá miklu rýrnun, sem orðið hefir á útflutningi saltfiskjar, og er sú rýrnun ein nægjanleg til þess að gefa skýringu á hinum miklu gjaldeyrisvandræðum.

Það er því meira en lítið ábyrgðarleysi af Sjálfstfl. að skerast úr leik með að greiða atkv. með þessu frv., ekki sízt þegar hann þá um leið kemur hér dillandi framan í hv. þm. og biður um 7 millj. kr. ríkisábyrgð, til þess að reyna að hylja ofurlítið yfir þau kosningsvik og blekkingar, sem Sjálfstfl. viðhafði við síðustu bæjarstjórnarkosningar.