09.05.1938
Neðri deild: 69. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1113 í B-deild Alþingistíðinda. (1644)

119. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Frsm. meiri hl. (Steingrímur Steinþórsson):

Þetta verða aðeins örfá orð út af ræðu hv. frsm. mínni hl. — Hann hafði mörg orð um það, að mín framkoma hefði verið mjög ógætileg í minni framsöguræðu. Ég þarf ekki að taka neinum fyrirsögnum frá hv. þm. G.-K. um það, hvernig ég eigi að haga mér. Ég býst við, að við séum báðir nokkurn veginn jafnfærir eða ófærir í þeim efnum.

Það virðist hafa farið nokkuð í taugarnar á hv. þm. G.-K., að ég talaði um það, að mér þætti ekki stórmannlegt af Sjálfstfl. að ætla sér að sitja hjá við atkvgr. þessa máls, og hv. þm. gaf það í skyn, að svo kynni að fara, að flokkurinn skipti um skoðun vegna þessara ummæla minna og greiddi atkv. móti málinu. Ég verð nú að játa, að mér finnst þetta kynleg yfirlýsing af formanni Sjálfstfl., þegar verið er að ræða eitt af stærstu málum þingsins, að flokkurinn muni kannske vippa við, eftir því bara, sem einn þm. — og það ekki neinn af stærri spámönnunum hér á Alþ. — segir. Það má því vel vera, að ég hefði getað hagað orðum mínum þannig, að Sjálfstfl. greiddi atkv. með málinu. En ég vil endurtaka það, að þessi afstaða er ekki stórmannleg, þótt ekki sé nema frá þessu sjónarmiði séð, og ætla ég ekki að taka neitt aftur af því, sem ég sagði um þetta áðan.

Hv. þm. G. K. sagði, að ég hefði sagt í ræðu minni hér áðan, að Sjálfstfl. hefði aldrei látið orð um það falla, að stefna ríkisstj. í fjármálum væri röng. Þetta voru ekki mín orð, enda er mér það vitanlega kunnugt, að Sjálfstfl. hefir einmitt oft látið falla stór og mikil orð um það, að stefnan væri röng. En ég hélt því hinsvegar fram, að frá Sjálfstfl. hefðu aldrei komið fram rökstuddar till. hvorki um niðurskurð á fjárl. né heldur aðra stefnu í fjármálum almennt, og ég vitna bara í nál. mínni hl. þessu máli mínu til sönnunar. Þar hefði það sannarlega átt við að ræða slíkt í stórum dráttum, þegar verið er að ganga gegn því, að tekið sé stórlán, sem eingöngu á að fara til þess að greiða afborganir af erlendum lánum, en ekki á að nota í innanlandsframkvæmdir. Mér finnst ekki til of mikils mælzt af Sjálfstfl., þegar hann gengur gegn þessari lántöku, sem hann þó viðurkennir, að þörf sé fyrir, að hann bendi á höfuðlínurnar í þeirri fjármálastefnu, sem hann hafi barizt fyrir, en sem hundsaðar hafi verið af stj.fl. — Hv. þm. G.-K. gat í þessu sambandi um það, að einhverntíma hefðu af Sjálfstfl. verið bornar fram till. um 700 þús. kr. niðurskurð, og í annað skipti hefði verið samið við Framsfl. um 1 millj. kr. niðurskurð á fjárl., og þetta hefði allt verið svíkið. Þetta er alls ekki rétt. Að vísu sat ég ekki á þingi um þetta leyti, en mér er samt kunnugt um það, að framinn var allmyndarlegur niðurskurður á fjárl., og hann var framkvæmdur eftir því sem hægt var, en hinsvegar samþ. svo Alþ. ýms nýmæli, sem vitanlega þurfti fjárveitingar til, og stóð Sjálfstfl. að samþykkt þeirra till. Hér var því alls ekki um svik að ræða, þar sem einmitt Sjálfstfl. var með í því að samþ. ýmsar nýjar till., sem fjárveitingar þurftu úr ríkissjóði. — Svo vil ég geta þess, að einn flokksbróðir hv. þm. G.-K. bar einu sinni fram till. um að auka atvinnubótaféð upp í 1 millj. kr. Þetta sýnir, hver festa er í fjármálastefnu Sjálfstfl.!

Hv. þm. G. K. var að tala um það, að Sjálfstfl. hefði ekki risið harðara gegn innflutningshöftunum heldur en raun væri á, vegna þess að það hefði sýnt sig, að þau væru nauðsynleg vegna samninga okkar við önnur ríki. Já, það er nú svo, að Sjálfstæðismenn hafa alltaf orðið að viðurkenna, að innflutningshöftin væru nauðsynleg, þrátt fyrir það þótt þeir alltaf í blöðum sínum séu að hamra gegn þeim. Og ekki einu sinni Sjálfstæðismönnum — hvað þá öðrum — dettur í hug að halda því fram, að innflutningshöftin hafi ekki komið að miklum notum, þótt þau ekki hafi getað leyst allt, sem þurfti.

Mér virtist sem hv. þm. G.-K. væri mér sammála um, að ekki væri líklegt, að við gætum greitt upp skuldir okkar á 20 árum. En má ég þá spyrja hv. þm.: Hvernig ætlar hann sér þá að leysa þetta? Við munum nú eiga að greiða 41/2 millj. kr. á ári af erlendum skuldum. Hv. þm. segir, að við munum ekki geta það, en samt vill hann ekki, að tekið sé gjaldeyrislán. Ég skil ekki þessa afstöðu. En það má vel vera af því, að ég sé eitthvað sérstaklega treggáfaður, eins og mér virtist hv. þm. G.-K. vera að gefa í skyn.

Hv. frsm. minni hl., þm. G.-K., segir í nál. sínu: „Minni hl. telur því vel fara á því, að þeir séu hér einir að verki um úrræðin, sem vandræðunum valda, og að bezt sómi sér, að þeir, sem samfylkt hafa á ógæfubrautinni, hefji nú á eigin ábyrgð gönguna á fund lánardrottnana,“. Þetta er slagorð og ekkert annað, því að eins og ég tók fram áðan, þá bendir minni hl. hvergi á, hverskonar röng stefna það er, sem stjfl. hafa fylgt á undanförnum árum í þessum efnum. Það er öllum þingheimi kunnugt, að það, sem vandræðunum veldur, byggist fyrst og fremst á þrem atriðum. Og skal þá fyrst telja markaðstapið. Ég hygg nú einmitt, að flokkur hv. þm. G.-K. hafi verið þar til kvaddur. Ég veit ekki betur en að menn, nákomnir honum, hafi verið kvaddir út um lönd, einmitt til okkar helztu markaðsþjóða, til þess að reyna að semja um bættan murkað. — Annað má nefna í þessu sambandi, og það er aflaleysið. Ég veit nú ekki, hvernig hægt hefði verið að kveðja saman Sjálfstfl. til þess að afstýra því. Kannske hefði mátt halda þing með þorskunum í sjónum og kveðja þá saman og láta hv. þm. G.-K mælast til við þá, að þeir fylktu sér tugum þúsunda saman í botnvörpurnar. Ég veit ekki, hvort það er slík tilkvaðning, sem hv. þm. óskar eftir. Stæði mér þá líklega næst að smala saman pestarrollunum og fyrirskipa þeim að mótmæla mæðiveikinni. — Það er einmitt þetta þrennt, markaðstapið. aflaleysið og mæðiveikin, sem hefir gert það að verkum framar öðru, að gjaldeyrisvandræðin hafa skapazt. Og ég skil ekki, á hvern hátt hefði átt að kveðja Sjálfstfl. til þess að reyna að afstýra aflaleysinu, fjárpest og öðru slíku, en hinu held ég fram, að til þess, sem í okkar valdi var að gera tilraunir um, hefir Sjálfstfl. verið til kvaddur á sama hátt og aðrir flokkar. —

Hv. þm. G.-K. var að lýsa því yfir. að margir Sjálfstæðismenn, a. m. k. utan þingheims, mundu vera andvígir þessu frv., og mundu jafnvel krefjast þess, að þingflokkurinn greiddi atkv. á móti því. Ég ætla ekki að blanda mér í þá hluti. Það er þeirra fjölskyldumál- — En ég verð bara að segja það, að mér finnst hv. frsm. ekki hafa verið svo varkár í orðalagi í sínu nál., að hann þurfi að stökkva upp á nef sér, þótt ég hafi bent á það, að framkoma Sjálfstfl. í þessu máli gæti frá mínu sjónarmiði ekki talizt stórmannleg.

Ég get svo látið þessum orðum mínum lokið, því að gott væri, ef umr. lengdust ekki mjög mikið.