10.05.1938
Neðri deild: 70. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1119 í B-deild Alþingistíðinda. (1652)

119. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

*Frsm. 2. minni hl. (Stefán Stefánsson):

Herra forseti! Það eru aðeins örfá orð í sambandi við það nál., sem ég hefi lagt fram sem 2. minni hl. fjhn. Í n. kom ég fram með uppástungu um það, að lántökuheimild hæstv. fjmrh. á þskj. 344 yrði send bönkunum til umsagnar. Ég taldi sjálfsagt að fá yfirlýsingar lánsstofnananna um það, hvort rétt sé að sinna þessari beiðni stj. um lántökuheimild eða ekki. Ég taldi einnig, að með því mætti fá nokkrar upplýsingar um, hve miklu duldar greiðslur nema og hve mikið erlent fé er innifrosið í bönkum landsins. — Meiri hl. fjhn. taldi þessa ekki þörf; fjmrh. mundi vera búinn að kynna sér svo afstöðu bankanna, að ekki þýddi meir. Þetta get ég ekki viðurkennt, meðan ekkert liggur fyrir um það nema óljós ummæli.

Ég mundi geta gengið inn á að samþ. þetta frv., ef felldur væri niður siðari hluti 1. gr. um lántöku á árunum 1939–1940, allt að 7 millj. kr. Meiri hl. taldi þetta ófæra leið og vildi láta málið ganga fram óbreytt. Og sömu afstöðu mundu stjórnarflokkarnir hafa tekið. — En ég tel nægilegt, að ríkisstjórnin fái þá heimild, sem þörf er fyrir á þessu ári. Því að þing kemur eftir þetta þing, og má þá leita lánsheimilda fyrir 1939-1940, ef þess gerist þörf.

En margt getur breytzt á þeim árum, og gjaldeyrisástand þjóðarinnar er allt í óvissu. Bændafl. teldi það enga fjarstæðu að krefjast þess, að rannsókn færi fram á öllu fjármálaástandi ríkisins, áður en nýtt stórlán er tekið. Það er óverjandi ástand, að þegar skuldir landsins eru á sama tíma áætlaðar um 90 millj. af gjaldeyrisnefnd, en virðast vera nær 105 millj. kr. samkv. upplýsingum skipulagsnefndar atvinnumála, þá skuli engin gögn liggja fyrir til að komast að hinu rétta, engin leið fyrir fjhn. og alþingismenn að komast í botn og finna þann grundvöll, sem þeim er óhætt að treysta.

Það hefir komið fram í umr. um lán til hitaveitu Reykjavíkur, að ekki er ómögulegt, að eitthvað fáist þar af gjaldeyri, sem bætt geti greiðsluhag þjóðar og ríkis næstu tvö árin. Og eins og ég hefi tekið fram, get ég því aðeins gengið með frv., að felld verði niður lántökuheimild fyrir ríkisstjórnina tvö næstu ár, en látnar nægja 5 millj. á þessu ári, unz vitað er síðar meir, hvers þörfin krefur.