10.05.1938
Neðri deild: 70. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1120 í B-deild Alþingistíðinda. (1653)

119. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Út af orðum hv. frsm. 2. minni hl. fjhn. vildi ég segja, að ekki var tími til að senda málið bönkunum til umsagnar, eins og hann leggur til, og var frá því horfið. Enda hefði það verið óþarfi, því að ríkisstj. hefir oft haft umræður við alla þá bankastjóra, sem vegna daglegra starfa við gjaldeyrismálin eru þeim kunnugastir. Rannsókn, áður en þetta lán er tekið, er líka óþörf, því að bæði gegnum bankana og hagstofuna hefir rannsókn farið fram, svo að ekki verður lengra komizt í þeim efnum að sinni. Enda hygg ég, að þær upplýsingar, sem þegar hafa verið gefnar um málið, sýni fullkomlega þörfina.

Hv. frsm. 2. minni hl. segist vera á þeirri skoðun, að. nóg sé að veita heimild fyrir 5 millj. lántöku fyrir árið 1938. Fljótt á litið gæti mönnum sýnzt þetta svo. Það væri miklu einfaldara fyrir ríkisstjórnina eða sérstaklega fyrir mig að fara fram á 5 millj. heimild; það er minna í munni andstæðinga en 12 millj. En eins og þeir vita, sem þessum málum eru kunnugir, er ekki varlegt að gera ráð fyrir því á næstu árum, að hægt sé að greiða niður skuldir, án þess að lánsfé flytjist inn í staðinn. Og þá er miklu hollara fyrir alla aðilja, að það sé heimilað strax. Það er betra, þegar farið er að tala við erlenda lánveitendur um þessi mál í heild, að geta sýnt þeim, hvað muni verða reynt að gera 1939–1940, ef brýn nauðsyn rekur til, heldur en ef það er látið hanga í óvissu. Þó að það væri einfaldara fyrir ríkisstjórnina að láta þarna hverjum degi nægja sína þjáningu, hefir þörf landsins verið látin sitja í fyrirrúmi fyrir því, sem var pólitískt léttara.

Hv. frsm. 2. minni hl. minntist á, að ef hitaveitan fengi framgang, mundi mega hugsa sér mikinn gjaldeyri þaðan. Nú er ekki ætlazt til að taka nema rúmar 4 millj. að láni til þess fyrst um sinn, og verkinu verður ekki lokið fyrr en eftir nokkur ár. Talið er, að 55% af láninu fari fyrir efni og kostnað erlendis. En af þeim 45%, sem ganga til að auka atvinnu innanlands, má ætla, að nokkur hluti, eða 20%, verði innanlandslán, með því að ríkisábyrgðin verði miðuð við 80%. Þá eru eftir 25% af fjórum millj., eða ein millj. kr., sem frjáls gjaldeyrir. Það er engin afgerandi upphæð í þessu sambandi, þótt hægt væri kannske að hafa gjaldeyrislánið eitthvað lengra, ef af hitaveitu- og Akureyrarlántökunni yrði.

Hér liggur fyrir brtt. á þskj. 523 frá hv. 5. þm. Reykv. ásamt öðrum hv. þm. og segir svo: „Leitazt skal við að taka lán þessi annarsstaðar en þar, sem skuldir landsins eru mestar nú“. — Ég ætla ekki að fara út í það við umræður hér, hvar lánið muni verða tekið. Jafnvel þó að allir væru kannske sammála um það, að efni till. væri rétt, þá hljóta hv. þdm. að vera sammála um hitt, að það er gersamlega ótækt að hafa slík takmörkunarákvæði í frv. um heimild fyrir lántöku. Ég vildi mælast til þess við hv. flm. till., að þeir tækju hana aftur og létu sér nægja að láta þetta koma fram við umræðurnar. — Ég þarf væntanlega ekki að rökstyðja það, hvers vegna þessi fyrirmæli væru gersamlega óhæf í lántökuheimildinni.