19.04.1938
Efri deild: 49. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1133 í B-deild Alþingistíðinda. (1676)

102. mál, skattgreiðsla útgerðarfyrirtækja botnvörpuskipa

Flm. (Magnús Jónsson):

Þetta frv. okkar hv. þm. Hafnf. lýtur að einu alvarlegasta vandamáli, sem nú er uppi í þjóðfélagi okkar, sem er það, að botnvörpuskipaútgerðin er nú svo komin, að hún er yfirleitt rekin með tapi, og eru ekki líkur til annars en að hún lognist út af, ef ekki eru gerðar ráðstafanir til, að hún geti haldið áfram. Þessi fyrirtæki, sem voru áður þau öflugustu hér á landi og höfðu safnað allmiklum auði á okkar mælikvarða, eru nú komin í mjög miklar skuldir, svo að afkoma þeirra er nú orðin með erfiðasta móti. Eitt af því, sem hægt er að gera þessum atvinnuvegi til bjargar, er, að ríki og bæir. sem fengið hafa miklar tekjur af þessum fyrirtækjum, hlaupi undir bagga með þeim, á meðan þessir erfiðleikatímar standa yfir, og slaki á þeim gjöldum, er þau hafa áður þurft að greiða. Alþingi hefir að nokkru orðið við þessum óskum, með því að á haustþinginu voru sett ákvæði í l. um bráðabirgðatekjuöflun bæjar- og sveitarfélaga og um jöfnunarsjóð, þar sem ríkisstj. var heimilað að gefa eftir toll af salti og kolum. Var þetta góðra gjalda vert. En þetta var því skilyrði bundið, að bæirnir kæmu með ívilnanir á móti, og var ekki nema eðlilegt, að ríkissjóður byndi þetta því skilyrði. Lægi þá ekki fjarri fyrir bæjarfélögin að létta af þeim sköttum, sem þau hafa lagt á gegnum hafnarsjóðina. Þetta hefir verið gert í Reykjavík og Hafnarfirði. Þessir bæir hafa samþ. verulega lækkun á gjöldum þeim, sem tekin hafa verið af þessum skipum. Þá hefir verið slakað á nokkrum öðrum gjöldum, sem ef til vill hafa ekki að öllu leyti runnið í hafnarsjóði, svo sem borgun fyrir vatn o. fl.

Með þessu hafa þó þessir bæir viljað koma til móts við ríkið um stuðning við togaraútgerðina.

En þetta er ekki nóg. Eina von þessara fyrirtækja um að komast aftur á réttan kjöl er fólgin í því, að verulega batni í ári, svo að þau geti aftur fengið verulegan gróða. Ef vel aflast og aflinn verkast og selst vel, eru togarafélög, eins og kunnugt er, mikil gróðafyrirtæki, sem geta svo að segja rótað inn peningum. Og það er engin von um, að togaraútgerðin komist yfir þessa örðugleika, nema slík góðæri komi á ný.

Nú er það ekki á valdi ríkis eða bæja eða yfirleitt nokkurra manna að gefa góðæri, nema að mjög litlu leyti. Því ræður afli og markaðsástæður, sem eru ekki nema að litlu leyti á valdi íslenzkra stjórnarvalda. Á slíka hluti er ekkí hægt að hafa áhrif með stjórnarráðstöfunum, og er hér því í rauninni ekki um annað að ræða en frómar óskir um, að úr kunni að rakna. En þetta er þá líka eina vonin. Komi ekki slík góðæri, eru engin líkindi til, að þessi atvinnuvegur rétti við. og er þá ekki stjórnarvöldunum um að kenna. En ef góðæri kemur — og það hefir maður þó rétt til að vona þá ríður á, að ríki og bæjarfélög gripi ekki þegar fram í og varni fyrirtækjunum að komast á réttan kjöl. Til þess er þetta frv. fram borið. Það ætlast til, að ríki og bæjarfélög lýsi yfir því, að þau afsali sér um 5 ára bil þeim tekjum, sem annars myndu fljóta til ríkisins í tekjuskatti og til bæjanna í aukaútsvörum. En í 3. gr. er svo sett undir þann leka, að þeir, sem eiga í fyrirtækjunum, reikni sér ekki arð á þessu tímabili, svo að loku sé fyrir það skotið, að gróðinn fari til annars en að bæta hag fyrirtækjanna.

Á því er reyndar ekki vafi, að ef góðæri kæmi nú þegar, þá væri það allmikið fé, sem ríki og bæir gæfu þannig eftir. En þetta fé væri þó engan veginn týnt og tapað, heldur myndi það skila sér síðar, beint og óbeint, í auknum tekjum ríkis og bæja af útgerðinni. Og þá er það einnig víst, að af góðærinu mundu fljóta til þess opinbera tekjur, sem gerðu því vel kleift, að sjá af þessum tekjum.

Hvernig nú er komið fyrir þessum fyrirtækjum, sést af því, að á undanförnum 5 árum hefir tekjuskattur, er þau hafa greitt, verið alveg hverfandi, — ég hefi reyndar ekki tölur við hendina um þetta, en það er áreiðanlegt, að þessu er svona farið. Er því einskis í misst að þessu leyti, þó að frv. þetta sé samþ., nema þá ef guð og lukkan skyldu gefa góðærið, og væri þá vel.

Bæirnir eru óbundnari um aðferðir til að ná tekjum af þessum fyrirtækjum, en þó hafa skattar, sem þeir hafa getað lagt á þau, farið síminnkandi, og sérstaklega þó það af þeim, sem náðst hefir inn. Um Hafnarförð má segja, að það nemur alimiklu, sem þar er lagt á þessi fyrirtæki, sem stafar af því, að bæjarsjóðurinn hefir verið í miklum kröggum, en ég býst þó við, að afföll séu þar meira en lítil. Munu vera dæmi til, að lagður hefir verið skattur á útgerðarfyrirtæki, sem um var vitað fyrirfram, að enginn eyrir næðist af, fyrirtæki, sem einmitt hefðu þurft opinbers styrks við.

Má því segja, að hvorki ríki né bæir fórni miklu með því að veita það skattfrelsi, sem hér er farið fram á. Þau myndu í rauninni ekki fórna öðru en von í tekjum, sem hér er ætlazt til, að renni til fyrirtækjanna sjálfra, til þess að gera þau sterkari sem fjárhagslega undirstöðu afkomu þeirra bæja, þar sem þau eru rekin.

Fyrrnefndir bæir hafa báðir fyrir sitt leyti samþ. eftirgjöf á aukaútsvari, en það er þó ekki að öllu leyti á valdi bæjarfélaganna, og þarf þingheimild að koma til. Verður að telja sjálfsagt að veita þessa heimild.

Ég mun svo ekki fjölyrða um þetta mál. Óska ég, að það fái að fara til hv. sjútvn., án þess að þurfa að tefjast mikið á þessu stigi.