06.05.1938
Efri deild: 66. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1137 í B-deild Alþingistíðinda. (1682)

102. mál, skattgreiðsla útgerðarfyrirtækja botnvörpuskipa

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti ! Enda þótt þetta frv., sem hér liggur fyrir, sé nú með þeim breyt., sem fjhn. vill á því gera, orðið nokkru skárra og ekki út af eins ósvífið og það var frá hendi hv. flm., þá er ákaflega langt frá því, að ég geti fylgt því í þeim búningi, sem það hefir nú.

Hér er farið fram á að veita vissum aðiljum ákveðinn rétt fram yfir alla aðra menn í þessu landi, þann rétt, að þurfa ekki að borga af eignum sínum eftir sömu reglum og aðrir menn. Þetta á að réttlæta með því, að þessi félög séu svo illa stæð, að þau geti ekki lengur borgað þetta. Það er því kallað, að þetta eigi að vera styrkur til þeirra, sem stunda þessa atvinnu, sjávarútveginn. Í frv. var Alþingi ætlað að gripa inn í og banna bæjarfélögunum að leggja útsvar á þennan rekstur. Nú hafa þeir þó séð sóma sinn í því að falla frá þessu og leyfa bæjar- og sveitarfélögunum eftir öllum l. og rétti að ráða, hvernig þau jafna niður útsvörum, og er það spor í rétta átt.

Nú skulum við gá að því, hvað þessi útvegur er illa stæður. Alþingi hefir nú skipað n. til þess að rannsaka hag þessara fyrirtækja. Hér í Reykjavík mun líklega vera um 11 félög að ræða í þessu sambandi. Það er sagt, að þau séu ákaflega illa stæð og því verður ekki neitað, að eins og þeirra reikningar liggja fyrir, þá er það svo, að 1936 greiddu 2 af þessum 11 félögum eignarskatt, annað 153 kr., en hitt 22,50 kr. 1937 borgaði eitt félag eignarskatt, 57,90 kr., og þessi 2 síðustu ár borgar eitt af þessum félögum tekjuskatt, og er það annað þeirra félaga, sem eignarskattinn borgaði. Það gæti því litið svo út, að eitthvað væri satt í því, hvað þessi félög séu illa stæð. Nú liggja ekki fyrir neinar tölur frá þessari n., sem á að rannsaka hag þessara félaga og gera till. um, hvernig útgerðin verði rekin á heilbrigðum grundvelli. En það liggur fyrir, að flestir þeirra, sem að þessu frv. standa, eiga tugi og hundruð þúsunda kr., sem þeir hafa dregið út úr fyrirtækjunum á góðu árunum, sett það á nöfn barna sinna, konu sinnar og allskonar nöfn, til þess að hafa það ekki í hættu, ef eitthvað bjátaði á. Í fyrra svarf Alþingi það að einu þessara félaga, að það kom aftur inn með verulegan hluta af því fé, sem það hafði dregið út úr rekstrinum, og setti sem veð fyrir þeim skuldum, sem það var í. Ekkert annað félag hefir gert þetta. Hinir liggja á gullinu, sem þeir hafa dregið úr félögunum, eins og ormarnir á gullinu í gamla daga, og svo á Alþingi að segja: „Gott og vel, þið megið hafa þetta í friði; nú eiga fátæku mennirnir í landinu að hjálpa ykkur, til þess að þið getið haldið áfram að ráða yfir því gulli, sem þið hafið dregið út úr félögunum, og þið þurfið ekki að láta neitt af því aftur inn í reksturinn“. — Þá hefði málið legið öðruvísi fyrir. Það er reynt að smeygja þessu inn nú, áður en þm. er ljóst, hvers vegna hag útgerðarinnar er svona komið. Ef ekki hefði verið komið fram með þetta fyrr en að ári og beðið eftir niðurstöðum þeirrar n., sem er að rannsaka hag útgerðarinnar, hefði mönnum sjálfsagt ekki dottið í hug að flytja svona frv., a. m. k. ekki þeim, sem eru prófessorar í guðfræði og ættu að hafa ríkari siðferðistilfinningu en menn hafa almennt hér á landi og hugsa meira um það, sem rétt er og sanngjarnt. Og það er ekki nóg með það, að Alþingi eigi að hlaupa undir baggann, heldur eiga sveitarfélögin líka að gera það. Nú er vitað, að Hafnarfjarðarbær hefir okrað á útgerðinni með útsvarsálagningunni. Hann hefir reynt að sjúga útgerðina eins og mögulegt hefir verið. Hafnarfjörður leggur 4. kr. á hverja tunnu af lifur og 2% á allan ísfisk, sem togararnir selja. Þetta er margfalt við það, sem gert er í Reykjavik, og stafar það m. a. af því, að í Hafnarfirði eru lögð lægri útsvör á þá menn, sem eru dálítið hátt uppi. Í Reykjavík hafa aftur á móti útsvörin á þessum fyrirtækjum farið lækkandi ár frá ári og eru nú komin undir 40 þús. Árið 1937 hvíldu 40400 kr. á öllum þessum fyrirtækjum, sem hér er um að ræða. Og þó að yfirleitt hafi verið fylgt sama skala og áður, hefir veltan og tekjur manna í bænum orðið það meiri nú en undanfarið, að þessi hér um bil 400 þús. kr., sem þurfa að nást inn í aukaútsvörum, hafa komið inn án þess að meira hafi þurft að leggja á útgerðina. Ég álít þess vegna, að það sé bókstaflega ekki sæmandi fyrir Alþingi að semja l. eins og þessi, á meðan n. situr á rökstólum, sem á að rannsaka hag útgerðarinnar,rannsaka hvaða leiðir það eru, sem útgerðarmenn hafa alltaf haft til þess að draga fé út úr útgerðinni og inn í aðrar stofnanir, rannsaka, hvar hefir lekið, svo að peningarnir hafa ekki komið inn í reksturinn nema að litlu leyti. Þegar það liggur fyrir og búið er að setja undir þann leka er hægt að tala um, hvað eigi að gera á þessu sviði, en fyrr ekki. Ég mun þess vegna greiða atkv. á móti frv. og tel ekki sæmandi af þinginu að taka fram með l., að bæjarstj. og sveitarstj. megi ekki leggja á einstök fyrirtæki í landinu, eins og hér er gert.

Ef ég vildi fara út fyrir Reykjavík, gætum við t. d. athugað, hvernig ástatt er á Patreksfirði. Þar hagar svo til, að mikill meiri hl. útsvaranna hvílir á togaraútgerðinni, og er hún svo að segja eina driftin á þeim stað. Í sambandi við útgerðina hefir svo verið komið á fót ýmsri annari drift, og er þetta allt rekið í einni heild. Mér skilst, að ekkert sé hugsað um, hvernig fer fyrir sveitarfélögum eins og þessu, þegar þau mega ekki leggja á aðaldrift staðarins. Ég held þess vegna, að ef n. er sammála um, að koma frv. í gegn og það er vilji alls þingsins, sé a. m. k. rétt að taka tillit til þeirrar aðstöðu, sem þarna er, en algerlega er gengið framhjá í frv. Þörfina á þessu að öðru leyti, t. d. fyrir Hafnarfjörð, sé ég ekki. Reykjavíkurbæ munar það tiltölulega litlu, hvort hann sleppir þessu alveg, þar sem það mun ekki vera nema 1% af útsvörunum. Hafnarfjarðarbæ munar þetta miklu meiru og það er af þessu, að hann miðar útsvörin á togarana við brúttó-ísfisksölu og tekur 2% af henni í bæjarsjóð og 4 kr af hverju lifrarfati.

Maður hefir þessi ólíku viðhorf eftir því, í hvaða bæjarfélagi togararnir eru, og til þeirra ólíku viðhorfa hefir ekkert tillit verið tekið við samningu þessa frv. Ef Patreksfjörður er tekinn, lítur út fyrir, að frv. sé stílað með það fyrir augum, að hreppurinn komist á landið. Ef miðað er við Hafnarfjörð, virðist það gert til þess að létta einhverju af útgerðinni, og getur vel verið, að þess þurfi. En þegar litið er til Reykjavíkur, hefir það enga þýðingu, hvort Reykjavík tekur þessa vellu af útgerðinni eða ekki.

Ég er sem sagt algerlega á móti þessu frv. og tel, að það eigi enga afgreiðslu að fá, fyrr en liggur fyrir nál. frá þeirri n., sem á að rannsaka hag útgerðarinnar. Þá fyrst, þegar sýnt er, hvar lekur og hvernig gullið fer að vaxa, sem ormurinn liggur á, og sem hann hefir fengið sem egg út úr útgerðinni, getum við farið að tala um, hvernig það verður fyrirbyggt, og hvað gera á til þess að koma útgerðinni á sæmilega heilbrigðan grundvöll, þannig að hún standi undir sér og þeim mönnum, sem að henni vinna, en ekki undir einhverjum öðrum, sem lítið eða ekkert koma að henni.