23.02.1938
Sameinað þing: 4. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í B-deild Alþingistíðinda. (17)

1. mál, fjárlög 1939

Þar sem nú vinstri öfl Framsfl. hafa ætið verið og eru mjög ginnkeypt fyrir samvinnu og samstarfi við þjóðnýtingarflokkana — enda eru mörkin þar á milli næsta óskýr, — þá má ætla, að núverandi ríkisstjórn fari áfram með völdin. Og hvers má þjóðin af þessum flokkum vænta? Öruggasti dómur þar um fæst með því að líta á ávextina af samstarfi þessara flokka undanfarin ár. Hverjir hafa þeir ávextir orðið? Þeir hafa m. a. orðið þessir:

1. Að atvinnuvegir landsmanna, sjávarútvegur og landbúnaður, hafa sífellt verið reknir með tapi.

2. Að skuldirnar við útlönd hafa farið hækkandi með ári hverju.

3. Að ríkisskuldirnar hafa einnig vaxið.

4. Að kjör verkalýðsins hafa farið versnandi.

5. Að fátækrabyrðin hefir stóraukizt.

6. Að atvinnuleysið hefir farið vaxandi.

7. Að sjálfsbjargarhvöt einstaklinganna hefir verið lömuð.

8. Að tollar og skaftar hafa farið hækkandi og þrengt hefir verið meir og meir að gjaldþoli landsmanna til opinberra þarfa.

9. Að gjaldeyris- og yfirfærsluvandræði fara vaxandi með hverju ári.

10. Að fólkið streymir ár sveitum landsins að kaupstöðum og sjávarþorpum.

Þetta eru nú sýnishorn af árangri stjórnarsamvinnunnar. Þegar sú samvinna hófst árið 1934, var það ekkert smáræði, sem gera átti. Meðal annars átti að útrýma öllu atvinnuleysi. Það átti að lækka tolla og létta af mönnum sköttum og skyldum, lækka vexti og útrýma afleiðingum kreppunnar og færa nýtt fjör í alla atvinnuvegi þjóðarinnar o. s. frv. Hefir farið svo um þessa hluti sem flesta aðra, er framkvæma átti, að reynslan virðist vera þveröfug við það, sem ætlað var. Hvaða framleiðendur til lands eða sjávar hafa orðið varir fjörsins, sem stjórnarflokkarnir ætluðu að færa í atvinnulíf þjóðarinnar? Hvaða einstaklingar hafa orðið varir við tollalækkanir eða að skattar hafi farið minnkandi? Því miður engir.

Alvarlegra en allt annað með þjóð vorri er þó áframhaldandi taprekstur atvinnuveganna, einkum sjávarútvegsins. Liggur fyrir ýtarleg skýrsla um ástand og afkomu útvegsins, gerð af trúnaðarmönnum hans. Er svo komið, að útgerðarmenn, stjórn Sölusambands íslenzkra fiskframleiðenda, aðalbankastjórn Landsbankans og Útvegsbankans hafa gefið yfirlýsingu um, að allsherjarhrun sé fyrir dyrum í útveginum, verði hlutur hans ekki eitthvað réttur af þingi og stjórn.

Í sambandi við þær skýrslur, sem ég drap á, vil ég fara með nokkrar tölur heiðruðum hlustendum til athugunar, enda þótt hv. þm. og hæstv. ríkisstjórn muni vera þær kunnar.

Skal þá fyrst athuguð afkoma togaraútgerðarinnar árið 1936 og 1937. Miðað er við meðalafla samkvæmt skýrslu Fiskifélagsins, og afkoma ársins 1937 er að nokkru áætlun. Árið 1936 hefir rekstrarhalli hvers einstaks togara orðið 76523,36 kr., er sundurliðist þannig: Rekstrarhalli á saltfisksveiðum 31055,25 kr., rekstrarhalli á síldveiðum 28984,00 kr., rekstrarhalli á ísfisksveiðum 10409,11 kr., samtals 70528,36 kr. Árið 1937 er rekstrarhallinn nokkru minni eða 49132,72 kr. á hvern togara, er sundurliðast þannig: rekstrarhalli á saltfisksveiðum 18770,26 kr., rekstrarhagnaður á síldveiðum 8257,76 kr., rekstrarhalli á ísfisksveiðum 28730,22 kr., rekstrarhalli samtals 49132,72 kr.

Þá hefir verið áætluð afkoma ársins 1938, og þá miðað við aflamagn ársins 1937 og til grundvallar lagðar þær kaupgreiðslur, er sjómenn hafa gert kröfu um. Samkvæmt því verður rekstrarhalli á saltfisksveiðum 51864.26 kr., á síldarveiðum 16240,22 kr., á ísfisksveiðum 41436,82 kr., eða samtals 109639,30 kr.

Svo sem áður getur, er þetta síðasta yfirlit áætlun, og færi betur, að reynslan yrði á annan veg, en því miður virðist engar líkur benda til að svo verði. Erfiðlega lítur út með sölu á saltfiski og lítil eða engin von um hækkun, frá því sem er. Verð á hrognum og lýsi er talið, að muni verða lakara en á síðastl. ári. Fari saman erfiðir markaðir, verðfali afurða og aukinn tilkostnaður á öllum sviðum, getur hver og einn sagt sér sjálfur, hvernig útkoman muni verða.

Um rekstrarafkomu mótorbáta við Faxaflóa og Vestmannaeyjar er svipað að segja, en ekki tími til að rekja það hér. En yfirleitt má fullyrða, að undantekningarlítið hafi þeir verið reknir undanfarin ár með mörg þúsund króna rekstrarhalla á ári hverju allt fram til ársins 1937, en þá reyndist nokkur hagnaður á þeim bátum, sem voru á herpinótaveiðum fyrir Norðurlandi og þar sem einn bátur var um nót.

Útlitið er ískyggilegt fyrir útveginn, enda hefir „stjórn hinna vinnandi stétta“, er svo kallar sig (svo sem engir aðrir vinnandi menn væru með þjóð vorri), verið næsta hirðulaus um útgerðarmálin. Því að það, sem hefir verið gefið með annari hendinni, hefir verið tekið aftur með hinni, sbr. afnám útflutningsgjalds af saltfiski, sem tekið var aftur af útgerðinni með auknum tollum og sköttum.

Því miður liggja eigi fyrir skýrslur um afkomu landbúnaðarins. Ég vildi vona, að ef þær skýrslur lægju fyrir, væru þær eigi jafnskuggalegar sem skýrslur útvegsins. En því miður mun afkoma þar einnig næsta erfið.

Fyrir bæjarstjórnarkosningarnar taldi Framsfl. sig þegar hafa svo margt og mikið gert fyrir sveitir landsins og landbúnaðinn, að nú væri tími til kominn að láta málefni kaupstaðanna aðallega til sín taka, svo sem verkefnum flokksins væri nú þegar lokið í sveitunum. Skal fyllilega játað, að flokkurinn hefir áður fyrr gert margt og mikið fyrir byggðir landsins, en hin síðari ár hefir hann einnig margt miður gert. Og verkefnin eru svo mörg og ótæmandi í sveitunum, að ég tel ekki tímabært af flokknum að snúa sér frá málefnum sveitanna.

Fjöldi þeirra manna, sem fylgja flokknum í kaupstöðum landsins, og þá einkum í Reykjavík, fylgja honum af bitlingahneigð. Það er ekki af áhuga eða umhyggju fyrir sveitum landsins, landbúnaðinum, bændunum, heldur af því, að þeir telja sig geta haft eitthvað gott af því. Það er vonin um einhverja bitlinga, einhver bein. Fyrir þetta fylgja þeir honum að málum. Frá þessu eru að sjálfsögðu margar undantekningar, en því miður er það svo með fjöldann.

Lánsstofnanir landsins, og þá fyrst og fremst Búnaðarbanki Íslands í Reykjavík, myndu geta gefið mörg vottorð um þrengingar, erfiðleika og vanskil bænda. Það er mikið um það talað, að bændur standi í skilum við kaupfélög úti um landið. Sem betur fer mun það vera svo. En það er í raun og veru veikur mælikvarði á getu þeirra og afkomu. Margir fá lán hjá lánstofnunum eða einstaklingum til þess að greiða upp skuldir sínar við félögin við hver áramót. Slíkt er þeim nauðsynlegt, þar sem þeir ella eiga á hættu að fá ekki út. En bændur láta að vonum nauðsynlega úttekt til heimilanna ganga fyrir öllu öðru, en geta svo eigi, eða þá fyrst þegar í ótíma er komið, innt af höndum skatt og skyldur, vexti og afborganir af lánum. Og á hverju ári gefast margir upp við erfiðleikana, afhenda lánsstofnunum jarðirnar og flytja í dýrtíðina, þrengslin og atvinnuleysið í kaupstöðum. Bankarnir reyna síðan að selja jarðirnar, sem oft gengur mjög erfiðlega. Margar þeirra leggjast í eyði. Ríkisvaldið verður að styrkja þá bændur til að halda jörðum sínum, sem vilja við búskap vera, en eru að hrekjast frá þeim vegna áhvilandi skulda. Ég veit vel, að á þessu eru margir erfiðleikar og annmarkar. Það er dýrt, og það er lítið um fé, en dýrara verður þjóðinni, að bændur flosni upp, og þurfa síðan að meira eða minna leyti að ala önn fyrir þeim og fjölskyldum þeirra með atvinnubótafé og framfærslustyrkjum. Annars mun það vera svo um sveitir landsins, að skuldlausir og ómagalitlir einyrkjar eða þeir, sem búa með börnum sínum, er þá vinna heimilinu kauplaust, munu bjargast sæmilega. En þeir, sem reka búskap með aðkeyptum vinnukrafti og meiri og minni skuldum, þeir geta ekki eða eiga mjög erfitt með að standa í skilum.

Þetta mun af ýmsum vera kallað svartsýni og barlómur, og læt ég mig það litlu skipta. En svo mun bezt að skýra hvern hlut sem hann er. Ekkert þýðir að glamra um batnandi afkomu til lands og sjávar. Það er öllum vitanlegt, sem berjast við hina erfiðu framleiðslu, að ástandið er svo sem ég nú hefi skýrt, — að allir eða flestir þeirra, sem framleiðslu stunda með þjóðinni, eiga við meiri eða minni erfiðleika að búa, — erfiðleika sem fara vaxandi með ári hverju.

Ég hefi dvalið alllengi við þessa tvo okkar höfuðatvinnuvegi. Er það sökum þess, að allt ástand og alla afkomu þjóðarinnar má ráða af gangi og rekstri framleiðslunnar, þar sem allt er henni órjúfanlega bundið: afkoma bóndans, útvegsmannsins, sjómannsins, verkamannsins og allrar þjóðarinnar.

Einn ávöxtur af samstarfi stjórnarflokkanna er hin sívaxandi tolla og skattabyrði. Síðasta þing lagði á tolla og skatta, sem námu milljónum. Átti þetta aðeins að vera til bráðabirgða. og væntu því margir, að þeim mundi af létt. En svo er þó eigi. Öll bráðabirgðatekjuöflunarfrumvörp undanfarinna þinga hafa þegar verið lögð fram á yfirstandandi þingi, og mun sízt af veita, þar sem ríkisútgjöldin fara vaxandi með ári hverju.

Hver fimm manna fjölskylda greiddi sem næst til ríkisþarfa:

1913 .................... 100 kr.

1935 .................... 650 –

1936 .................... 700 –

1937 .................... 750 –

Svo mun það fara vaxandi áfram. Tollar og skattar eru með öllu að sliga einstaklinga og þjóðina, en eftir því sem afkoma þjóðarinnar fer versnandi, er hert á álögunum. Það er eins og með sjúklinginn, sem er að dauða kominn og líður sárustu kvalir. Læknirinn eykur eiturskammtinn til þess að lina þjáningarnar. Þannig er það um hv. þingmeirihluta, að hann herðir á álögunum, eftir því sem komið er nær hinum efnalega dauða. En hvernig fer þá, er efnin þrjóta með öllu, — þegar menn eru fjárhagslega dauðir? Hvar ætlar þá hv. þingmeirihluti að taka skatta og álögur?

Hin síaukna fátækrabyrði hlýtur að vera hverjum manni hið mesta áhyggjuefni. En hún er að sjálfsögðu bein afleiðing af vaxandi atvinnuleysi, sem aftur á rót sína að rekja til þess, hve öll framleiðsla stendur með litlum blóma. Til fátækraframfærslunnar fara nú fleiri milljónir árlega til viðbótar því, sem gengur til atvinnubóta. Þetta er næsta alvarlegt. Fátækrabyrðin fer vaxandi með ári hverju:

1933 ............... 1976400 kr.

1934 .............. 2313300 –

1935 ................ 2845500 –

1936 ................ 3811000 –

Fátækrabyrðin hefir með öðrum orðum aukizt um 100% eða tvöfaldast á árunum 1933 til ársins 1936.

Skuldir þjóðarinnar við útlönd fara einnig hækkandi með ári hverju. Árið 1933 námu þær 74,6 millj., 1934 83,5 millj., 1935 99 millj., 1936 104,3 millj. Á sama tíma hafa skuldir ríkisins aukizt á 4. millj. kr. Það er hæstv. ríkisstjórn og hv. þingmeirihluti, sem ber ábyrgð á þessu ástandi. Játað skal, að erfiðleikarnir eru og hafa verið margir, en því meir reynir á mátt þeirra, sem með völdin fara, um að ráða fram úr erfiðleikunum. Hæstv. fjármrh. hefir sett stolt sitt í það að ná hagkvæmum verzlunarjöfnuði við útlönd. Slíkt verðskuldar fullkomlega viðurkenningu. En geta verður þess, að verzlunarjöfnuðurinn einn er ekki allra meina bót. Mér dettur í hug frétt, er þulur erlendra frétta flutti nýlega í útvarpið um verzlunarjöfnuð Norðmanna síðastl. ár. Var hann óhagstæður um fleiri hundruð millj., en eigi að síður var síðastl. ár hið bezta fyrir þjóðina, er komið hefir síðastl. 20 ár eða allt frá stríðstímanum. Hvers virði er nú verzlunarjöfnuðurinn, þegar atvinnuvegirnir eru í rústum, þegar fólkið flýr framleiðsluna, skuldir fara vaxandi, tollar og álögur síhækkandi, fátækrabyrði og atvinnuleysi færist í aukana og gjaldeyris- og yfirfærsluvandræði aukast með ári hverju? Nei, verzlunarjöfnuðurinn er ekki einhlítur, það þarf fleira til.

Ég mun nú drepa á nokkur atriði, sem framkvæma þarf að mínu áliti til þess að ráða nokkra bót á erfiðleikunum.

1. Það þarf að skrá rétt gengi íslenzkrar kr. til eflingar athafna- og atvinnulífi í landinu. Til slíkra ráða hefir verið gripið af mörgum þjóðum í erfiðleikum, og gefizt vel. Vil ég þar minna á bæði Danmörku og Frakkland. Í þessum löndum fara með völd skoðanabræður hæstv. ríkisstjórnar. Að dómi Alþýðublaðsins var gengislækkunin í Frakklandi fyrsta stóra sporið út úr kreppunni. Ætli það myndi ekki einnig verða svo hjá oss?

2. Setja þarf vinnulöggjöf og þannig tryggja vinnufriðinn í landinu. Og ríkisvaldið þarf að tryggja það á einn eða annan hátt, að settri vinnulöggjöf verði fylgt. Þetta segi ég fyrst og fremst vegna þess, að á síðastl. þingi lét hv. 3. landsk. þm. þau orð falla, að verkalýðurinn myndi hafa slíka löggjöf að engu. Má því telja líklegt, að Kommfl. muni gera tilraun til að bera ríkisvaldið ofurliði, hvað sem allri slíkri löggjöf líður. Hvernig hyggst ríkisvaldið að ráða fram úr slíku, ef Kommfl. gerir alvöru úr hótunum sínum?

3. Það verður að leita allra ráða til að lækka útgjöldin til alls annars en þess, sem lýtur að nauðsynlegum stuðningi við framleiðsluna.

4. Létta þarf af tollum og sköttum svo sem verða má.

5. Vinna þarf að því að vekja hjá þjóðinni trú á framleiðsluna og möguleika hennar og efla sjálfsbjargarhvötina hjá mönnum, en forðast hvers konar þjóðnýtingu.

6. Samræma þarf launagreiðslur hins opinbera og færa þær til meiri jöfnunar, fyrirbyggja allt fjársukk við ríkisstofnanir og margfaldar launagreiðslur til einstakra manna eða heimila. Vil ég í því sambandi minna á upplýsingar þær, sem hv. þm. A.-Húnv. gaf í útvarpinu viðkomandi launagreiðslum við þá stofnun, þar sem hann gat þess, að Sigurður Einarsson núverandi dósent hefði haft í laun hjá útvarpinu síðastl. ár ásamt konu sinni um 8 þús. kr., en að Sigurður hefði þó haft annað aðalstarf með höndum og tekið fyrir það full laun. Slík margföld laun eru óverjandi, og fyrir þau þarf að taka þegar í stað. Væri nú ekki tilhlýðilegt, að hæstv. kennslumálaráðherra riði á vaðið og kenndi Sig. Ein. að láta sér nægja önnur launin.

Enda þótt Sigurður Einarsson sé tekinn hér aðeins sem dæmi um margfaldar launagreiðslur til einstakra manna, þá eru að sjálfsögðu margir undir sömu sökina seldir, enda muna menn það, að útvarpsstjóri kvartaði yfir því, þá er rætt var um fjársukkið í útvarpinu, að þessi eina stofnun væri tekin út úr. Meðal annara mætti nefna marga háttv. þm. Í sambandi við launagreiðslur vildi ég annars leyfa mér að drepa á það hér, að á síðastl. þingi voru samþykkt lög um, að bankastjóri Búnaðarbankans skyldi hafa laun kr. 12 þús., og ennfremur, að landbúnaðarráðherra skyldi heimilt að greiða honum dýrtíðaruppbót, allt að 10 þús. kr. í viðbót. Formælandi frv., sem mun í Nd. hafa verið hv. 2. þm. Skagf., taldi það metnað íslenzkum bændum, að bankastjóri við lánsstofnun þeirra hefði eigi minni laun en bankastjórar Landsbankans. Þvílíkur metnaður, að greiða hærri laun en nokkur maður hefir þörf fyrir eða þjóðin efni á? Væri hægt að ræða um metnað í þessu samhandi, þá ætti það að vera metnaður íslenzkum bændum, að bankastjóri við þeirra eigin bankastofnun hafi eigi meiri laun en þjóðin hefir sæmilega efni á að greiða, og væri eitthvað sambærileg við laun bændanna sjálfra. Slíkar samþykktir um launagreiðslur til einstakra manna eru óverjandi, um leið og virtar eru að vettugi hæverskar óskir lágt launaðra starfsmanna ríkisins um einhverjar launauppbætur.

Tími minn mun nú á þrotum. Ég geri ráð fyrir, ef að vanda lætur, að hæstv. fjmrh. komi fram á eftir með dylgjur um það, að fulltrúar Bændafl. hafi ekki rétt til að taka þátt í útvarpsumræðum sem sjálfstæðir flokksmenn. Byggði hann dylgjur sínar á því, að við síðustu kosningar var Bændafl. í kosningabandalagi við Sjálfstfl. í nokkrum kjördæmum. Ég vil nú upplýsa hæstv. ráðherra um það, að Bændafl. ætti, miðað við Framsfl., að hafa 4–5 fulltrúa á Alþingi eftir atkvæðamagni.

Við síðastl. kosningar skiptist Framsfl. á atkvæðum við Kommfl. og þáði frá þeim atkvæði, án þess að flokknum yrði nokkuð bumbult af. Vill hæstv. ráðh. gefa þjóðinni þá yfirlýsingu; að hann telji sig og aðra þingmenn Framsfl. þm. fyrir Kommfl., þar sem þessir flokkar skiptust á atkvæðum? Annars má hæstv. ráðh. og þm. Framsfl. vita, að á meðan hæstv. ríkisstj. situr á sínum veldisstóli fyrir atbeina Kommfl., og svo lengi sem hún liggur þar við kommúnistiskt akkeri, þá mun gengi og framtíð Bændafl. vel borgið. Annars væri ekki úr vegi fyrir hæstv. fjmrh. að spyrjast fyrir um það hjá samstarfsráðherra sínum, Haraldi Guðmundssyni, er væntanlega kemur hér fram á eftir, fyrir hvaða flokk hann komi hér fram, og jafnframt, fyrir hvaða flokk hann eigi sæti í hinu virðulega ráðuneyti, þar sem vitað er, að þm. Alþfl. eru nú rúnir fylgi og að það er gengið yfir til hv. 3. þm. Reykv., er vísað hefir verið úr Alþfl.

Eins og ég hefi sýnt fram á hér á undan miðar hér öllu eða flestu aftur á bak fremur en nokkuð á leið á sviði atvinnulífsins og fjármála.

Hæstv. ríkisstjórn og þingmeirihluti standa ráðþrota andspænis erfiðleikunum, því alvarlega ástandi, er nú ríkir með þjóðinni á sviði athafna- og atvinnulífs og í fjármálum og gjaldeyrismálum. En þrátt fyrir allt situr hæstv. ríkisstjórn sem fastast, enda þótt hún hafi aðeins 1/4 af kjósendum þjóðarinnar á bak við sig og sé því eigi lýðræðisstjórn.

Hyggst núverandi stjórn að sitja þar til allt er um seinan, allt liggur í rústum? Sé svo mun því fagnað af Kommfl., sem þegar er farið að dreyma stóra drauma um dýrðarríki kommúnismans á Íslandi.

Ég vil skora á alla andstæðinga þjóðnýtingar og kommúnisma að taka nú höndum saman til viðreisnar landi og þjóð.

Þá fyrst er einhver von um að rofi til.