11.05.1938
Neðri deild: 73. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1152 í B-deild Alþingistíðinda. (1713)

102. mál, skattgreiðsla útgerðarfyrirtækja botnvörpuskipa

*Pétur Ottesen:

Það var á öndverðum síðasta vetri, að þeir útvegsmenn, sem standa að S. Í. F., báru þar upp vandkvæði sín út af því, hversu höllum fæti útgerð landsmanna stæði, bæði sú, sem rekin er með togurum. og líka sú, sem rekin er af vélbátum og öðrum minni bátum. Þeir ræddu þar þessi sín vandamál og sneru málinu inn á þá braut að láta þá menn, sem eru í stjórn Sölusambands íslenzkra fiskframleiðenda ásamt fulltrúum, sem til þess voru kjörnir frá hálfu stjórnmálaflokkanna í landinu, flytja þetta mál við ríkisstj. Mér er kunnugt um, að þessir menn hafa um nokkuð langt skeið haft þetta mál með höndum, bæði sín á milli á fundum, sem þeir hafa haldið, og líka haft samtöl og bréfaskipti við ríkisstj. út af þessum erfiðleikum, sem útvegurinn er staddur í.

Ég ætla, að það frv., sem hér liggur fyrir og á að verða til stuðnings togaraútgerðinni í landinu, muni vera sprottið frá því, að þetta mál var tekið til meðferðar í S. Í. F. Og eftir því, sem fram hefir komið hér á þingi og vitað var um áður en málið var flutt hér á Alþ., þá hefir orðið samkomulag um það við ráðandi stjórnmálaflokka á þingi að afgr. frv. það, sem hér liggur fyrir um fríðindi til handa togaraútgerðinni. Nú veit ég, að athugun á þessum vandkvæðum, sem útvegurinn er nú staddur í, er haldið áfram, því að fríðindin, sem útgerðin fær með þessum l., munu áreiðanlega hrökkva skammt til þess að mæta þeim erfiðleikum, sem útgerðin á nú við að stríða vegna aflabrests og þó einkum og sér í lagi þess ósamræmis, sem er milli afurðaverðs og tilkostnaðar, sem veldur því, að útgerðin hefir verið rekin með halla að undanförnu. Bæði af þessari ástæðu er skylda að halda áfram að vinna að frekari og fullkomnari lausn þessa máls og svo líka af því, að nú liggur ekkert fyrir Alþ. hliðstætt þessari tilraun til lausnar vandamálum togaraútgerðarinnar að því er snertir vandamál bátaútvegs landsmanna. Till. í þessa átt var borin fram af hv. þm. Vestm. í Ed., en það kom þá fram, að ég ætla, við umr. þar, að það mundi ekki vera hægt að fá framgengt í sambandi við þetta frv. neinum fríðindum til handa bátaútveginum; og það var gengið út frá því, að undirbúningur þess máls, að veita honum einhver fríðindi til hjálpar í yfirstandandi vandamálum og erfiðleikum, yrði haldið áfram. Og ég verð að vænta þess, að eins og tekizt hefir með samstarfi milli þessara fulltrúa útvegsmanna við hæstv. ríkisstj. að fá þessi fríðindi til handa togaraútgerðinni, þá muni með áframhaldandi samstarfi einnig takast að fá svipuð og ekki minni fríðindi handa bátaútveginum í landinu og stuðning við þá útgerð. Enda er það svo, að það er eitthvert allra mesta vandamál þessarar þjóðar, að atvinnuvegirnir skuli vera reknir með áframhaldandi halla, því vitanlega er það framleiðslan til lands og sjávar, sem stendur undir öllum þörfum þessa þjóðfélags. Þess vegna ber að vænta þess, að allir taki höndum saman um það, eftir því sem föng eru til á hverjum tíma, að gera það, sem unnt er, til þess að greiða úr því, að þeirri lífsnauðsyn þjóðarinnar verði fullnægt, að atvinnuvegirnir megi verða reknir þannig, að þeir standi undir þörfum þjóðfélagsins á hverjum tíma og geti orðið til þess að byggja upp og búa atvinnu hinni stöðugu fólksfjölgun í landinu og greiða götu þeirra, sem taka við af þeim, sem bera hita og þunga dagsins.

Ég vil ekki taka það svo, þó að vandamál bátaútvegsins séu ekki tekin fyrir nú á sama hátt og vandamál togaraútgerðarinnar, að þá eigi fyrir það að ganga framhjá að sinna hinum sjálfsögðu kröfum bátaútvegsmanna um liðsinni Alþ., hliðstætt því sem hér er um að ræða viðkomandi togaraútgerðinni. Mér er það ljóst, að af svipuðum till. og hér er um að ræða um togaraútveginn mundi ekki mega vænta mikillar úrlausnar fyrir bátaútveginn í vandkvæðum hans. Úrlausn hans vandkvæða yrði að fara, býst ég við, að miklu leyti eftir fiðrum leiðum en hér eru farnar í þessu frv.

Ég vildi láta þetta koma hér fram, svo að það gæti ekki litið svo út, að einungis ætti að sinna þörfum togaraútgerðarinnar, heldur beri engu síður að veita bátaútveginum stuðning, honum til viðreisnar.