11.05.1938
Neðri deild: 73. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1155 í B-deild Alþingistíðinda. (1717)

102. mál, skattgreiðsla útgerðarfyrirtækja botnvörpuskipa

*Ólafur Thors:

Út af orðum hæstv. fjmrh. vil ég skýra frá því, að í fjhn. Nd. var um það rætt, hvernig skilja bæri þessa heimild 2. gr. Við breyttum ákvæði upphaflega frv., þar sem gert var ráð fyrir beinni skyldu, þannig, að úr varð aðeins heimild, og gerðum við þá ráð fyrir, að bæjar- og sveitarstj. gætu eftir vild notað heimildina að öllu eða nokkru leyti, hvort sem um væri að ræða útgerðarfyrirtæki, verzlunarfyrirtæki, verksmiðjurekstur eða annað, en ekki, að það væri haft eins og hæstv. fjmrh. vill, að óheimilt væri að gefa eftir öðrum fyrirtækjum en þeim, sem aðeins reka útgerð, en þó þannig að á engum slíkum rekstri yrði útsvar hærra en fyrir árið 1938. Hugsum okkur fyrirtæki, sem hefði haft 10 þús. kr. útsvar og ræki bæði verzlun, verksmiðjurekstur og útgerð. Segjum, að verzlunin hafi borið 3000 kr. af þessu útsvari, verksmiðjureksturinn 1000 kr. og útgerðin 6000 kr. þá mætti t. d., samkv. okkar hugsun, fella niður þessar 6000 kr., sem lagðar hefðu verið á útgerðina, án þess að skylt væri að fella niður það sem lagt var á verzlun eða verksmiðjurekstur. Hinsvegar er tilgangurinn sá að óheimilt sé að hækka útsvarið frá því sem var, og gildir það ákvæði jafnt um útgerð sem verzlun, verksmiðjurekstur eða annan rekstur þessara útgerðarfyrirtækja.