11.05.1938
Neðri deild: 73. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1157 í B-deild Alþingistíðinda. (1723)

102. mál, skattgreiðsla útgerðarfyrirtækja botnvörpuskipa

*Einar Olgeirsson:

Fyrst tekið er að ræða þetta mál svo mjög, finnst mér ég verða að leggja nokkur orð í belg.

Það er eftirtektarverð breytingin, sem gerð hefir verið á þessari 1. gr., auðsjáanlega í þeim tilgangi, að efni hennar komi ekki fram eins „brútalt“ og í upphaflega frv. Það er dálítið undarlegt, að samkv. 1. gr. frv. skuli vera leyfilegt fyrir útgerðarfyrirtækin að draga frá skattskyldum tekjum sínum, á næstu 3–4 árum, tap, sem orðið hefir á rekstri þeirra eftir 1. jan. 1931. Það er eftirtektarvert, að ekki skuli að neinu leyti farið aftur í tímann fyrir 1. jan. 1931 og reiknaður út gróði togaranna, þar sem við getum ætlað, að rétt hafi verið af togarafélögunum að leggja þá eitthvað í varasjóð og eiga til vondu áranna. Nú, þegar erfiðir tímar eru framundan, virðist eiga að leyfa þessum togarafélögum að draga frá það tap, sem orðið hefir á síðustu árum, án þess að taka nokkurt tillit til áranna á undan.

Með annari málsgr. 2. gr. er bæjar- og sveitarstj. bannað að leggja hærri útsvör á togarafélög en gert hefir verið nú. Þó að togarafélögunum vegnaði betur á næstunni en verið hefir undanfarið, væri útilokað að hækka á þeim útsvörin. Þetta finnst mér fjarri lagi, og má í því sambandi t. d. minna á Patreksfjörð. Ég álít nóg að heimila bæjarstj. að undanþiggja þessi fyrirtæki útsvari. Vil ég því bera fram brtt. þess efnis, að 2. málsgr. 2. gr. falli niður, og bið hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir henni.