19.04.1938
Efri deild: 49. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1162 í B-deild Alþingistíðinda. (1743)

103. mál, bráðabirgðatekjuöflun fyrir Hafnarfjörð

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Mér þykir vænt um þetta litla ljóta frv., af því að aldrei hefir betur sézt stefna sjálfstæðismanna í skattamálum en í þessu frv. Hafnarfjörður er bær, sem leggur um 1/3 minna útsvar á alla þá, sem hafa miklar tekjur, en Reykjavík gerir. Hv. þm. Hafnf. myndi t. d. verða að greiða 1/3 hærra útsvar væri hann búsettur í Reykjavík en hann greiðir í Hafnarfirði. Þessir menn sjá engin ráð til að leggja hærra á hátekjumennina og ná tekjum þannig, en þeir vilja fá leyfi Alþingis til þess að geta lagt skatt á alla, sem ferðast á milli bæjanna. Þetta sýnir svo ljóst stefnu sjálfstæðismannanna í skattamálum, að ég sé ástæðu til að fagna því, hve skýrt og grímulaust hún kemur fram í þessu frv.