07.05.1938
Efri deild: 67. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1163 í B-deild Alþingistíðinda. (1748)

103. mál, bráðabirgðatekjuöflun fyrir Hafnarfjörð

*Frsm. (Magnús Jónsson):

Fjhn. hefir athugað þetta mál í sambandi við frv. það, sem hér hefir legið fyrir um skattaívilnanir við togarafélögin. Eins og rætt var um af flm. þess máls, standa þessi tvö frv. í beinu sambandi hvort við annað. Hafnfirðingar sjá ekki neina aðra leið út úr þeim erfiðleikum, sem nú steðja að, en að bæjarfélaginu sé bætt upp sú tekjurýrnun, sem orsakast af því, að þeir leggja ekki lengur útsvör á togarana. Þess vegna er borið fram frv. þess efnis, að skattleggja þá, sem fara milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. N. var að vísu ekki alveg sammála um það, hvort þetta væri heppileg tekjuöflun fyrir bæinn, en hún hefir litið á málið í sambandi við bráðabirgðaaðgerðir fyrir togaraútgerðina, og álítur, að hér sé um handhæga aðferð að ræða til þess að ná í fé um stundarsakir. Ég mælist til þess, að þetta frv. verði samþ. N. gerir eina litla brtt. á þskj. 443, að í 3. gr. komi í stað orðanna „á þessari leið“: þessa leið. Það má skilja 3. gr. eins og hún er óbreytt á þá leið, að þessi skattaviðauki í fargjaldinu verði innheimtur af öllum farþegum, sem fara milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, en það er öllum ljóst, að þótt þingið vildi sýna Hafnfirðingum þá rausn, að leyfa þeim að skattleggja menn, sem fara milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar nær það engri átt að skattleggja þá, sem fara styttra. Mörg hundruð manna búa í Fossvogi og Kópavogi og nota daglega Hafnarfjarðarveginn til þess að aka til og frá heimilum sínum. Það getur ekki verið tilgangurinn með þessu frv., að ætla að skattleggja þessa sumarbýlagesti úr Reykjavík fyrir bæjarsjóð Hafnarfjarðar. Þess vegna ber n. fram þá brtt. við frv., að skatturinn komi aðeins' á þá menn, sem fara þessa leið milli lögsagnarumdæmis Reykjavíkur og lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðar. Hin eina mótbára, sem komið gæti fram móti þessu frv., er sú, að einhverjir kynnu að vera svo nískir á peningana, að þeir færu úr vögnunum nokkru áður en þeir koma til Hafnarfjarðar og færu fótgangandi, það sem eftir væri af leiðinni.

En ég held, að það sé heldur ólíklegt, að slíkt komi fyrir, a. m. k. yrði það aldrei nema fyrst í stað, meðan menn muna eftir þessu 25 aura viðaukagjaldi. A. m. k. væri það lítil átthagaást hjá Hafnfirðingum að gera sig seka í slíku, þar sem það er þeirra bæjarfélag, sem verður að ná sínum tekjum inn með einskonar gjöldum eða útsvörum af þeim sjálfum. Ég geri ekkert úr því, að menn fari úr vögnunum, áður en komið er til Hafnarfjarðar, því að þeir yrðu um það bil eins lengi að ganga vegarspottann, sem eftir er, eins og að aka í bil alla leiðina, og slíkt munu fáir gera. Að vísu er sagt, að til séu menn, sem telja eldspítur í hverjum stokk, áður en þeir kaupa hann, en slíkt er hrein undantekning. Ég hygg, að það þurfi ekki að óttast neinar alvarlegar afleiðingar af þessu fyrir Hafnarfjarðarkaupstað.

En það er óhugsandi, að menn gangi inn á að skattleggja í bæjarsjóð Hafnarfjarðar fé, sem alls ekki kemur Hafnarfirði við. Fjhn. var sammála um að mæla með því, að þetta frv. yrði að l. með þeirri breyt., sem ég gat um áðan. Vonandi er, að d. samþ. frv. þannig og greiði fyrir því, að það nái fram að ganga sem fyrst.