09.05.1938
Efri deild: 69. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1166 í B-deild Alþingistíðinda. (1754)

103. mál, bráðabirgðatekjuöflun fyrir Hafnarfjörð

*Brynjólfur Bjarnason:

Þegar þetta frv. var til 1. umr., tók ég málið ekki mjög alvarlega, fremur en hitt frv., sem fram var borið samtímis þessu frv. og raunar í sambandi við það, um skattgreiðslu útgerðarfyrirtækja íslenzkra botvörpuskipa. Og þegar málið var til 2. umr., hafði ég ekki tækifæri til að vera viðstaddur umr. Þó vildi ég ekki láta frv. fara út úr hv. d., án þess að mótmæla því. Hér er um að ræða till. um heimild fyrir Hafnarfjarðarkaupstað til að afla sér tekna á alveg ákveðinn hátt, í stað tekjumissis, sem kynni að verða fyrir hann af því að undanskilja útgerðarfyrirtæki botnvörpuskipa skyldu til útsvarsgreiðslu í 5 ár. Ég hefi áður lýst afstöðu minni til þess frv., svo að það segir sig sjálft, hvernig mín afstaða muni vera til annars frv., sem fram er borið til að bæta upp fyrrnefndan tekjumissi, þannig að Hafnarfjarðarkaupstaður fái leyfi til að leggja tilfinnanlegan skatt á vegfarendur, sem þurfa að fara um Hafnarfjarðarveginn í nauðsynlegum erindum.

Hér er um það að ræða að gera þessi útgerðarfyrirtæki skattfrjáls að mestu leyti í 5 ár og í rauninni alveg án tillits þess, hvernig afkoma þeirra kann að verða á þessu 5 ára tímabili. Það kann að vera, að ef þessi uppgjöf verður framkvæmd, þá sé nauðsynlegt fyrir Hafnarfjörð að leita eftir nýjum tekjustofnum, öðrum en útsvörunum, til þess að geta staðið straum af rekstri bæjarfélagsins. En sé þetta rétt, að því er Hafnarfjörð snertir, þá gildir það vafalaust engu síður um önnur bæjar- og sveitarfélög. Og ég tel Hafnarfirði ekki meiri nauðsyn á slíkum ráðstöfunum en þeim. Enda hefir það verið upplýst hér, að í Hafnarfirði eru útsvörin á þeim efnaðri, samkvæmt skattstiga þeim, sem þar er notaður, tiltölulega miklu lægri en t. d. hér í Reykjavík. Hér er því ekki um að ræða annað en það, að verið er að skattleggja nauðsynjar almennings til að hlífa þeim, sem efnaðri eru. Þetta er náttúrlega það, sem verið hefir stefna hv. Alþingis undanfarin ár. Ekki nóg með það, að lagðir hafa verið nýir og nýir milljónatollar á nauðsynjavörur manna, án þess að beinn skattur hafi hækkað samtímis, heldur hafa með þeim ráðstöfunum. sem gerðar hafa verið upp á síðkastið, verið lagðir á neyzluskattar í þeim tilgangi að lækka beinu skattana. Í þessa átt stefnir frv. um jöfnunarsjóð bæjar- og sveitarfélaga. Í sömu átt fer frv. það, sem borið er hér fram af hv. þm. Vestm., um vörugjald í Vestmannaeyjum. Og í þá hina sömu átt stefnir þetta frv., sem hér liggur fyrir.

Nú er enginn vafi á því, að nauðsyn ber til að afla bæjar- og sveitarfélögum tekna. Við kommúnistar höfum áður borið fram hér á þingi frv. um að bæta úr þessari nauðsyn, án þess að farið yrði að leggja auknar álögur á hin breiðu bök almennings með því að hækka þá óbeinu skatta, sem fyrir eru, eða taka upp aðra nýja. Frv. okkar gekk út á að heimila bæjarfélögunum að taka að sér rekstur kvikmyndahúsanna og upp- og útskipun vara, sem hefði getað orðið drjúgur tekjustofn fyrir ýms bæjarfélög. Þessar till. okkar hafa ekki verið teknar til greina.

Að því er Hafnarfjörð snertir, er það rétt, að mikill hluti þeirra vara, sem seldar eru í Hafnarfirði, ganga gegnum Reykjavík. Á þennan hátt hefir Reykjavík ekki alllitlar tekjur af vörum, sem í Hafnarfirði eru seldar. Væri því hv. fulltrúa Hafnarfjarðar nær að heimta nokkuð af þessum tekjum Reykjavíkurbæjar, áður en hann ryki í að flytja svona till. Væri ekki nema rétt, að Hafnarfjörður fengi nokkuð af þeim tekjum, sem á þennan hátt renna til Reykjavíkur.

Ég man, að þegar fyrrnefnt frv. hv. þm. Vestm. var hér til umr., þá mælti fulltrúi Alþfl. hér í hv. d. eindregið á móti því og færði rök gegn slíkum aðgerðum, sem fólgnar væru í auknum skattaálögum á almenning. Hér er í rann og veru um alveg hliðstætt mál að ræða. Þar af leiðir, að rök þau, sem hv. 11. landsk. færði fram gegn fyrrnefndu frv., eiga líka við um þetta.