10.05.1938
Neðri deild: 70. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1168 í B-deild Alþingistíðinda. (1758)

103. mál, bráðabirgðatekjuöflun fyrir Hafnarfjörð

Einar Olgeirsson:

Það er í rauninni ekki annað en önnur hliðin á sama teningnum, sem hér er um að ræða. Ég býst við, að þetta sé með undarlegustu frv., sem lögð hafa verið fyrir þingið.

Eins og kunnugt er, munu þó nokkur af útgerðarfyrirtækjunum í Hafnarfirði hafa greitt útsvar til bæjarins á undanförnum árum, og ég býst við, að í Hafnarfirði séu ef til vill þau togarafélög, sem að mörgu leyti hafa borið sig einna bezt undanfarin ár. Nú er meiningin að undanþiggja líka þau, sem sæmilega hafa borið sig, ekki aðeins sköttum, heldur og líka útsvari í Hafnarfirði. Það þýðir, að bezt stæðu togarafélögunum, sem þarna eiga hlut að máli, á að hlífa við skattaálagningu. Nú er farið að leita fyrir sér um að taka þennan skatt annarsstaðar og ná þannig þeim tekjum, sem bæjarstjórn Hafnarfjarðar missir. Og þessir vísu feður í Hafnarfirði komast að þeirri niðurstöðu, að það sé betra að leggja sérstakan skatt á alla þá, sem fara milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, með því að hækka um 50% gjaldið, sem menn greiða fyrir þessar ferðir, 25 aura í hvert skipti á hvern mann í strætisvagni; því að ekki er verið að leggja á þá, sem ferðast í sínum „lúxusbílum“, einkabilum. Ég verð að segja, að þetta frv. minnir mig á ýmislegt, sem gerðist í Evrópu á miðöldum, þegar ýmsir smáfurstar, hver í sínu smáfurstadæmi, höfðu sett girðingu þvert yfir vegi og hlið, til þess að taka toll af hverjum vegfaranda,og menn urðu einnig að borga toll af öllum vörum, alls fleiri hundruð skipti, yfir Frakkland og Þýzkaland. Ég sé ekki annað, ef á að framkvæma þetta, heldur en hver einasti bær á landinu og hver hreppur hafi ástæðu til að undanþiggja aðilja útsvari, og leggja svo skatt á alla mannflutninga. Og þegar þeir eru aðeins undanþegnir, sem í lúxusbílum eru, þá er ekki langt þangað til verður farið að skattleggja gangandi menn, ég fala nú ekki um þá, sem eru ríðandi. þetta er afareinkennileg leið, sem hér er farið inn á. Ég skal ekki segja hneykslanleg, því að með því er lítið sagt, það er svo margt hneykslanlegt, sem gert er á hinu háa Alþingi nú. En það er svo hlægilegt, til að gera þingið að almennu athlægi, að samþ. slíka leið, sem stungið er upp á í frv., að undanþiggja þá, sem standa að ýmsu leyti þó tiltölulega betur, og taka svo í staðinn tekjur með sérstökum nefskatti af þeim, sem ferðast milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. En mikið af þessum mönnum eru þeir, sem t. d. sækja atvinnu til hins staðarins, og líka margt skólafólk. Þetta er því beinlínis nefskattur á alþýðu manna. Ég álít þess vegna þetta frv. vera það versta hneykslisfrv., sem fyrir þetta þing hefir komið.

Vildi ég mælast til þess, þegar málið fer í n., að hún reyni einhvernveginn að bjarga þinginu frá þeirri skömm, að samþ. annað eins frv. og þetta. Við kommúnistar höfum tekið í Ed. og munum hér taka afstöðu móti því. Og við viljum alvarlega mælast til þess við hv. þm., að þeir athugi málið mjög vel áður en þeir láta hafa sig út í að samþ. annað eins og þetta.