19.04.1938
Neðri deild: 49. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1172 í B-deild Alþingistíðinda. (1772)

99. mál, iðnaðarnám

*Emil Jónsson:

Ég hafði búizt við því og gert ráð fyrir því, að hv. flm. mundi skýra þetta frv. að nokkru. Það væri nokkur ástæða til þess, þar sem farið er fram á breyt. á l., sem ekki eru nema rúmlega ársgömul og tæplega farin að sýna sig í framkvæmdinni, eins og von er til, þar sem þau eru ekki eldri en þetta. Sérstaklega á þetta við l. um iðnaðarnám, sem þurfa langan tíma til þess að komast í framkvæmd, þar sem námstíminn er nokkuð langur, svo að það er hið fyrsta, að maður geti hugsað sér. að farið sé að gera á þeim stórvægilegar breyt. Það hefir líka verið svo, að þrátt fyrir mikið umtal um þessi l., þá hafa tiltölulega fáar aðfinnslur við þau komið, að því sem mér er kunnugt um, nema þá helzt sú, sem þetta frv. snertir, sem er í rann og veru aðeins ein breyt. á l. Það er náttúrlega ákaflega erfitt mál, þar sem 3 óskyldir aðiljar eiga að gera nokkurskonar samninga sín á milli, að setja um þetta samkomulag þannig lagaða löggjöf, að ekki komi í bága við hagsmuni neinna. Og það er ekki óeðlilegt, að það komi fram kvörtun frá einhverjum þessara 3 aðilja um það, að honum finnist sitt mál á einhvern hátt fyrir borð borið, þótt öðrum aðiljanum finnist það ekki, nema siður sé eða þvert á móti.

Sú breyt., sem þetta frv. fer fram á, að gerð verði á núgildandi l. um iðnaðarnám, er á þann hátt, að numið sé úr l. það ákvæði, sem segir, að sveinafélag eða fulltrúar sveinafélags í iðninni skuli undirrita námssamninga, til þess að þeir séu gildir. Eftir því, sem ég veit bezt, þá er ástæðan fyrir því, að þetta frv. er fram komið, sú, að í einni iðngrein — ég held, að það sé ekkí nema í einni — hafa komið fram kvartanir um það, að sveinafélagið hafi tekið þetta mál svo óstinnt upp, að ekki sé við það unandi. Þegar l. um iðnaðarnám gengu í gildi, var þegar komið á milli sveina og meistara í ýmsum greinum samkomulag um það, hversu margir iðnnemar skyldu vera í þeim greinum. Þessar iðngreinir voru prentiðn, bókbandsiðn, úrsmiðaiðn, járnsmiðaiðn og einhverjar fleiri. Í öllum þessum iðngreinum höfðu sveinar og meistarar komið sér saman um, hversu margir iðnnemar skyldu teknir inn í greinina á hverjum tíma. Þetta gekk vel, og það var meiningin með l., að því er þetta snertir, að fá því slegið föstu, að þetta skyldi einnig gilda fyrir þær iðngreinir, sem ekki höfðu tekið þetta upp.

Nú hefir, að því er mér hefir verið kunnugt um, ekki borið á verulegu ósamkomulagi um þetta mál nema í einni iðngrein, rafvirkjaiðninni, þar sem engir samningar hafa náðst milli sveina og meistara um þetta atriði, og það hefir svo orðið til þess, að engir nemendur hafa verið teknir í þessa iðngrein nú um tíma. Þetta er alveg afleitt, og ég skal vera fús til að viðurkenna, að þetta getur ekki gengið, því að rafvirkjaiðnin er sú iðngrein, sem kannske hefir einna mesta möguleika til þess að taka til sín aukinn vinnukraft vegna framfara, sem orðið hafa á því sviði. Það, að lokað hefir verið fyrir nemendur í iðninni, getur því ekki stafað af því, eins og hv. 5. þm. Reykv. var að tala um síðast, þegar málið var til umr., að ekki væri til verkefni í iðninni, því að það er þvert á móti ein af þeim fáu iðngreinum, sem hefir meira en nóg starf fyrir alla starfandi menn í iðninni, bæði sveina og meistara. Það er hörgull á rafvirkjum, svo að þeir verða að vinna eftirvinnu og jafnvel næturvinnu, til þess að geta fullnægt verkefnunum. Það kemur þess vegna úr hörðustu átt, að þeir fari að gera samþykktir af því tægi. En það er aldrei hægt að búast við því, að það náist milli svo margra og ólíkra félaga, eins og hér er um að ræða í ýmsum iðngreinum, svo fullt samkomulag, að ekki geti verið 1–2 félög, sem árekstur geti orðið við. Það út af fyrir sig þarf alls ekki að þýða, að það fyrirkomulag, sem tekið hefir verið upp við afgreiðslu þessa máls, sé að engu hafandi og þurfi að breyta því. Þessi eina undantekning, sem ég benti á, þarf ekki að vera það afgerandi, að það þurfi að gera á l. víðtækar breyt. hennar vegna. Hinsvegar viðurkenni ég, að á þessu þarf að ráða bót, og ég er hv. flm. sammála um, að á þessu þurfi að finna einhverja bót, hvort sem það er nauðsynlegt að gera það nú þegar eða það megi bíða eitthvað enn og sjá, hvort það næst ekki samkomulag.

Það er gert ráð fyrir því í þessu frv., að skipaðir verði 3 menn, samkv. tilnefningu iðnn. Alþ., svokallaðir iðnaðarfulltrúar, sem svo eigi að hafa úrskurðarvald um þessi mál. Þeir eiga allir að vera búsettir í Reykjavík, og til þeirra á að senda alla námssamninga í öllum iðngreinum, til þess að þeir geti öðlazt staðfestingu. Ég veit ekki, hvort hv. flm. hefir gert sér það ljóst, að með þessu er verið að setja á stöðum, þar sem engin iðnaður er starfandi, takmarkanir á því, að þeir meistarar, sem þar eru starfandi, megi taka nemendur. Nú er það svo, að alstaðar á landinu utan kaupstaðanna má hver meistari taka sér nemendur án þess að fá uppáskrift á samninginn nema hjá viðkomandi lögreglustjóra. Þetta þýðir þess vegna þrengingu á þeim samningum. Við skipun iðnfulltrúanna — sem skipa á skv. tilnefningu iðnn. Alþ., og skal fara fram hlutfallskosning um hana, ef n. greinir á — á alls eigi eingöngu að taka tillit til iðnstéttanna í Reykjavík og senda til þeirra alla námssamninga í öllum iðngreinum. Ég veit ekki, hvort flm. hefir gert sér fyllilega ljóst, að með þessu er verið að setja takmarkanir fyrir því, að meistarar megi taka sér nemendur á sumum stöðum, þar sem iðnráð eru ekki starfandi. Eins og nú er, mega meistarar allsstaðar utan kaupstaðanna taka nemendur án þess að fram fari önnur undirskrift á námssamningum en lögreglustjórans þar á staðnum. Þetta frv. þýðir það, að réttindi þeirra verða þrengri en áður. Það er dálítið hæpið, að þessir fulltrúar, sem eru kosnir pólitískri kosningu og eiga allir heima hér í Reykjavík, hafi skilyrði til að setja sig inn í þessi efni víðsvegar á landinu og geti vitað, hvað hentar bezt á hverjum stað, og hverjir eigi að stunda iðnaðarnám, og hverjir ekki.

Í öðru lagi er vafasamt það ákvæði, sem stendur í lögunum um iðnþing, að þeir iðnfulltrúar, sem þangað eru kosnir, eigi yfirleitt að vera ráðuneytinu til aðstoðar um allt, er varðar iðnað í landinu. Þetta er náttúrlega mikið starf fyrir þá, og miklu meira en það, sem snertir iðnaðarnám, því að með hinni nýju reglugerð er iðnráðunum falin umsjón með öllum iðnaði, þar sem þau starfa. Ég sé ekki ástæðu til, að svo komnu máli, að taka starfið frá þeim og færa það yfir á nýja menn, sem hljóta að vera mjög lítið eða a. m. k. ekki nógu kunnugir á öllum stöðum, þar sem þeir eiga að hafa mál til meðferðar.

Fleiri en þessi tvö atriði eru ekki í frv., sem máli skipta. Ég skal endurtaka það, sem ég sagði áðan, að ég er fús til þess að taka til athugunar hverja þá leið, sem bezt myndi reynast og gerð yrði til þess að koma í veg fyrir, að það endurtaki sig, sem gerzt hefir í iðngrein rafvirkja hér í Reykjavík. Það er ekki þrautreynt, að ekki náist samkomulag í þeirri grein; það er ekki langt síðan samkomulag var reynt, og það hefir náðst í flestöllum öðrum iðngreinum. En náist það ekki skal ég taka til athugunar hverja þá leið, sem fær mætti teljast til þess að fá dómstóla eða ráðuneyti til að fallast á að gera einhverjar ráðstafanir um „yfirinstans“, sem báðir aðiljar gætu komið sér saman um. — Ég geri ráð fyrir, að þessu frv. verði vísað til iðnn. og það verði rætt þar betur, og læt ég þess vegna útrætt um þetta mál að sinni. En mér finnst þó ekki fullreynt ennþá, hvort ekki megi leysa málið á þeim grundvelli. Ég tel hættulaust, þótt þetta mál fengi að bíða til næsta þings og sjá, hverju fram yndi.